Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur átt fundi með þingmönnum um veitingu uppreist æru og ætlar að skýra betur afstöðu sína í þeim efnum á næstunni.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata og nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd, fór á fund Guðna á mánudag. „Ég vildi fá fram hans sjónarmið í þessu máli og hann tók vel í það. Það var gagnlegt að ræða við hann,“ segir Þórhildur í samtali við Stundina en samkvæmt heimildum blaðsins hafa fleiri þingmenn fundað með forseta.
Bæði allsherjar- og menntamálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis funda um verklag við veitingu uppreistar æru í dag. Fundur fyrri nefndarinnar verður sýndur í beinni útsendingu á vef Alþingis, en dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á lagaákvæðum um uppreist æru.
Fram kom í síðustu viku að Guðni forseti hygðist ekki tjá sig um veitingu uppreistar æru til barnaníðings sem dæmdur var árið 2004 fyrir að hafa misnotað stjúpdóttur sína í 12 ár frá því hún var um fimm ára gömul. Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, lagði til í fyrra að maðurinn yrði sæmdur óflekkuðu mannorði. Forseti undirritaði tillöguna, í samræmi við viðteknar stjórnskipunarvenjur, þann 16. september, sama dag og barnaníðingurinn Robert Downey fékk uppreist æru.
Þegar mál Downeys komst í hámæli steig Guðni fram í fjölmiðlum og benti á að ákvörðun um uppreist æru væri ekki tekin af honum sjálfum heldur í innanríkisráðuneytinu. Hann sagðist miður sín yfir málinu, ekki biðja um vorkunn en óska eftir að fólk sýndi sér sanngirni að teknu tilliti til málsmeðferðarinnar. Sem kunnugt er bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarathöfnum öllum samkvæmt stjórnarskrá en forseti veitir þeim gildi með undirskrift sinni.
Athugasemdir