Sæll aftur, Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ég kann þér þakkir fyrir svarið til mín um mál skjóstæðings þíns, Roberts Downey (og lesa má hér). Hið sama verður ekki sagt um tilburði þína til að nota sögu mína - persónulega reynslu mína af kynferðisofbeldi - sem „fordæmi“ til að þrýsta á aðra þolendur að haga líðan sinni eftir leiðum sem henta faglegum hagsmunum þínum. Mér þykir það einkar lágt lagst, Jón Steinar. Ef þolendur geta ekki sagt frá kynferðisofbeldi án þess að sögur þeirra séu notaðar af áhrifamönnum til að skapa þrýsting á aðra brotaþola, verja pólitíska hagsmuni eða jafnvel styrkja stöðu ofbeldismanna, þá er ljóst að margir þolendur munu veigra sér við það í framtíðinni. Slík þöggun yrði samfélaginu dýrkeypt bakslag.
Hvað varðar ummæli þín um að þú sért ekki „sérstakur varðmaður ofbeldismanna“ vil gjarnan taka þig á orðinu. Hins vegar er einfaldlega ekki hægt að vera hlutlaus þegar kynferðisofbeldi er annars vegar. Ef þú vilt ekki teljast til varðmanna ofbeldisfólks geri ég ráð fyrir að þú viljir fremur teljast til bandamanna þolenda.
„Hins vegar er einfaldlega ekki hægt að vera hlutlaus þegar kynferðisofbeldi er annars vegar.“
Sem bandamaður okkar mælist ég til þess að þú hættir að nota reynslu okkar gegn okkur, í pólitískum tilgangi. Ég mæli með því að þú hættir að ráðskast með bataferli okkar (sama hversu vinsamlegar sem þú telur ábendingar þínar vera) og virðir stjórn okkar á eigin tilfinningum. Þá mæli ég loks með því að þú leggir þín lóð á vogarskálarnar - sá kunnáttumaður um lagabálkinn sem þú ert - og aðstoðir yfirvöld í endurskoðun á uppreist æru, líkt og dómsmálaráðherra hefur boðað að sé í vændum.
Okkar í milli hefðir þú átt að kynna þér sögu mína betur áður en þú notaðir hana sem fordæmi, Jón Steinar. Þá myndirðu vita að reiði, hefndarþorsti og tilraunir til að koma höggi á geranda minn eru mikilvægir liðir í henni, líkt og ég hef gert skil í skrifum mínum. Hafirðu talið mig gott dæmi um kristilega fyrirgefningu og „hinn vangann“, þá varð þér á í messunni. Ég á ekki heima á neinum stalli og hef aldrei kært mig um neinn slíkan.
Að lokum vil ég þakka þér fyrir að hafa tjáð þig opinberlega um þetta mál. Ég tel víst að það hafi vakið marga til umhugsunar um hvoru megin þeir standa í baráttunni. Því barátta er þetta svo sannarlega. Það vitum við þolendur best.
Með kveðju,
-Þórdís Elva
#höfumhátt ✊
--
Þessi pistill birtist upprunalega á Facebook-síðu Þórdísar, sem má lesa hér.
Athugasemdir