Leiðtogafundi Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta og Donalds Trump Bandaríkjaforseti lauk rétt í þessu með óljósri niðurstöðu, en
Trump hafði boðað harðar refsiaðgerðir gegn Rússum og sagðist stefna að því að fundurinn leiddi til vopnahlés, en ekkert slíkt virðist hafa fengist frá Pútín.
„Það er enginn samningur fyrr en það er samningur,“ sagði Trump á sameiginlegum blaðamannafundi með Pútín í Alaska. Þetta er í fyrsta sinn í tæp tíu ár sem Pútín kemur til Bandaríkjanna og fyrsta heimsókn hans til vestræns ríkis frá því hann hóf innrás í Úkraínu í því skyni að ná fram landvinningum.
Trump sagði á blaðamannafundi að báðir vildu þeir koma í veg fyrir að þúsundir myndu deyja í hverri viku.
„Við áttum afar árangursríkan fund og náðum samkomulagi um mörg atriði. Það eru aðeins örfá atriði eftir,“ sagði Trump og bætti við: „Við náðum ekki alveg í mark, en við eigum mjög góða möguleika á að ná því.“
Hann sagði hafa náðst saman með mörg mál, en ekki öll. „Eitt er líklega mikilvægast, en við höfum mikla möguleika á að ná þangað,“ sagði hann án þess að útskýra nánar.
„Ég mun hringja í Nató fljótlega og ég mun hringja í Zelensky forseta [Úkraínu],“ sagði Trump.

Pútín sagði að Úkraína og bandamenn hennar í Evrópu ættu ekki að skapa „hindranir“ fyrir friði þegar hann talaði við hlið Donalds Trump.
Hann sagði að Moskva væntist þess „að Kiyv og höfuðborgir Evrópu muni taka öllu þessu á uppbyggilegan hátt og muni ekki skapa neinar hindranir, muni ekki gera tilraunir til að trufla framfarirnar sem eru að myndast með ögrun eða leynimakki á bak við tjöldin.“
Pútín fullyrti að þeir hefðu „náð samkomulagi“ og sagði tímabært að lagfæra sambandið milli Rússlands og Bandaríkjanna.
„Samningaviðræður okkar fóru fram í uppbyggilegu andrúmslofti og af gagnkvæmri virðingu. Þær voru mjög ítarlegar og gagnlegar,“ sagði Pútín við blaðamenn.
„Next time in Moscow!“ sagði Pútín á ensku undir blálok fundarins, eða: „Næst í Moskvu“.
„Það hitnar undir mér við það! En ég gæti séð það gerast,“ svaraði Trump.
Athugasemdir