„Þetta var í raun og veru alveg mögnuð upplifun fyrir mann eins og mig,“ segir Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78. Hann sótti gleðigöngu sem haldin var í Búdapest síðustu helgi þrátt fyrir bann yfirvalda við viðburðinum. „Þetta er fyrsta gangan sem ég fer í sem er bönnuð – það er náttúrlega magnað að segja þetta upphátt. Að það sé Evrópuland sem banni Pride-göngu.“
Gergely Karácsony, borgarstjóri Búdapest, greip til þess ráðs að leyfa gönguna sem borgarviðburð. „Hann fór fram hjá lögunum sem Viktor Orbán setti og stóð vel með skipuleggjendum í aðdraganda göngunnar,“ segir Kári.
Ákall frá skipuleggjendum göngunnar, Budapest Pride, til alþjóðasamfélagsins um að koma og styðja viðburðinn kom í vor. Var það í kjölfar þess að yfirvöld í Ungverjalandi lögðu bann á viðburðinn. Sex manna hópur frá Samtökunum ´78 og Hinsegin dögum var viðstaddur gönguna en hópurinn fór í ferðina á eigin kostnað. „Ég held að það hafi tekist mjög vel,“ segir Kári.

Kári segir að fjölbreyttur hópur hafi sótt gönguna: „Alveg frá því að vera aktífistar – Amnesty var með stóran hóp. Við hittum systurfélög okkar frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi og kunnugleg andlit úr baráttunni. Svo ekki síst almenni borgarinn í Búdapest og Ungverjalandi sem ég held að hafi hugsað með sér að nú væri tími til að stíga upp og mótmæla.“
Lögreglan andlitsgreindi þátttakendur
Blaðamaður spyr hvort viðburðurinn hafi verið öruggur í ljósi bannsins. „Eftir á að hyggja var hann öruggur,“ segir Kári og bætir við: „Það voru örfáir andmótmælendur sem maður sá svartklædda á leiðinni. En ég svo sem sá þá líka í Eistlandi og Litáen.“ Þessi hópur stóð til hliðar og mótmælti göngunni. Snemma í göngunni lokuðu þessir andmótmælendur brú sem átti að vera hluti af göngunni. „Skipuleggjendur brugðu á það ráð að færa gönguna á aðra brú,“ segir Kári og heldur áfram: „Það var alveg mögnuð upplifun þegar skarinn fór yfir þá brú og lét sér ekki segjast.“
„Það var alveg mögnuð upplifun þegar skarinn fór yfir þá brú og lét sér ekki segjast
Þá var lögreglan líka með mikla viðveru: „Hún var með myndbandsupptökuvélar til að andlitsgreina fólk,“ segir Kári en viðurlög við þátttöku í göngunni áttu að vera sektir. „Það er mjög langsótt að við Íslendingar fáum eitthvað í heimabankann frá ungverskum yfirvöldum,“ bætir hann við. Blaðamaður spyr hvort lögreglan hafi verið á svæðinu til þess að passa upp á þátttakendur göngunnar. Kári svarar: „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að skilgreina það. Það var eitthvað sem fólk óttaðist. Að ef andmótmælendur hefðu haft sig meira í frammi, að lögreglan myndi þá standa meira til hliðar.“ Hann hafi ekki heyrt um tilfelli þar sem lögreglan hafi gripið inn í eða að einhverjar árásir hafi átt sér stað.
Fangelsisvist möguleiki
„Það situr eftir að skipuleggjendurnir gætu átt yfir höfði sér árs fangelsi samkvæmt lögunum,“ segir Kári og einnig: „Ég get ímyndað mér að þau sem skipulögðu þetta séu stolt. En ábyggilega pínulítið hrædd um það hvert framhaldið verður og hvað verði gert við þau sem stóðu að þessum frábæra viðburði.“
Budapest Pride hafa kallað eftir fjárstuðningi en Kári segir viðburðinn bæði hafa verið dýrari í framkvæmd þar sem mun fleiri komu en vanalega og svo vegna þess að viðburðurinn var ólöglegur. Stjórn Hinsegin daga hafi keypt boli í göngunni sem verða seldir á Hinsegin dögum í Reykjavík til styrktar samtökunum úti. „Það eru ekki stórar fjárhæðir en við reynum eins og við getum að styðja við þetta.“
Tónninn að breytast
„Það horfir hrikalega við okkur,“ segir Kári og heldur áfram: „Það er alveg ótrúlegt að það sé vegið að mannréttindum og fundafrelsi og almennt að grundvallarrétti fólks til að koma saman.“ Hann segir það sorglegt að slíkt sé gert undir því yfirskini að vernda börn. „Þetta er eitthvað sem við tökum mjög alvarlega. Enda sá maður að viðburðurinn, sem er vanalega með þrjátíu þúsund manns í Búdapest, var 200 þúsund núna.“ Í Ungverjalandi hefur lögum verið breytt í skólakerfinu. Kári segir að bókmenntir sem sýni hinseginleika þurfi til að mynda að vera í svörtu plasti.
„Því miður er Ungverjaland ekki eitt um þetta. Við höfum séð þetta í öðrum löndum, bæði í Evrópu og Ameríku. Maður er sleginn. Langar að hlæja – þetta er svo fáránlegt – en grátur er eiginlega nær. Þetta er skelfileg staða.“
Blaðamaður spyr hvort Samtökunum ´78 þyki líklegt að slíkt bakslag geti orðið hér á landi. Kári segir það langsótt að bönn við gleðigöngu yrðu innleidd en að tónninn í umræðunni sé þó að breytast. „Það á ekki bara við í málefnum hinsegin fólks heldur líka í málum útlendinga og hælisleitenda. Það er verið að þrengja að og orðræðan er oft mjög skrítin. Þetta helst allt í hendur – réttindi jaðarsettra hópa.“
Athugasemdir