„Það er búið að ganga á ýmsu og satt best að segja er ég orðinn ansi þreyttur. En þetta er ekki búið enn,“ segir Kristján Hálfdánarson, ketil- og plötusmiður og formaður húsfélagsins í Árskógum 7.
Kristján mætti ásamt nágrönnum sínum á borgarstjórnarfund í Ráðhúsi Reykjavíkur á þriðjudag þar sem vöruhúsið sem rís við Álfabakka í Suður-Mjódd var helsta mál á dagskrá. Mikið hefur verið fjallað um mál vöruhússins í fjölmiðlum, sem þekkist nú sem „græna gímaldið“ eða „græni veggurinn“ en vöruskemman er jafnhá fjölbýlishúsinu og íbúðirnar sem að henni snúa hafa takmarkað útsýni miðað við það sem var fyrir skemmstu.
„Það er merkilegt hvað þau geta talað lengi um sama hlutinn,“ segir Kristján, aðspurður hvað honum hafi fundist um fund borgarstjórnar, þar sem samþykkt var að innri endurskoðun borgarinnar muni gera ítarlega stjórnsýsluúttekt á skipulagsferli framkvæmdanna. Húsið sjálft er í eigu félagsins Álfabakka 2 ehf. En Klettás ehf. og Eignabyggð ehf. eiga hvort sinn helminginn í félaginu. Hagar hafa svo samið um að taka húsið á leigu þar sem starfsemi Eldum rétt og kjötvinnslunnar Ferskra kjötvara mun fara fram. Hagar hafa sent frá sér tilkynningu þar sem segir að félaginu þyki „miður að byggingin við Álfabakka 2 sem félagið hyggst leigja undir ákveðinn hluta starfseminnar valdi óþægindum fyrir nágranna og hefur fullan skilning á sjónarmiðum íbúa sem fram hafa komið eftir að byggingin reis“.
Kristján gefur lítið fyrir skýringar Haga og segir þær í takt við útskýringar allra sem að málinu koma. Allir eru sorgmæddir og miður sín en enginn er tilbúinn að axla ábyrgð. Hann hafi rætt við Einar Þorsteinsson borgarstjóra í ráðhúsinu. „Hann var mjög sorgmæddur yfir stöðunni sem upp er komin. En það voru bara þessi týpísku svör pólitíkusa, að hafa fullan skilning á okkar sjónarmiðum. En þetta var voða almennt en ekki beinlínis með neinar lausnir, enda er hann ekki einráður.“
Dæmi um að fólk yfirgefi íbúðir sínar
Staðan hefur versnað frá því að veggurinn reis skömmu fyrir jól og dæmi eru um að íbúar hafi yfirgefið heimili sín. „Fólk sem er í íbúðum sem eru með svalir sem eru upp við græna ferlíkið er mjög dapurt auðvitað og ein er flutt að heiman, til systur sinnar,“ segir Kristján.
„Ég er skíthræddur um það
Kristján kom á fót undirskriftasöfnun í byrjun vikunnar þar sem þess er krafist að framkvæmdir við Álfabakka 2A–2D verði stöðvaðar. Alls hafa safnast rúmlega 2.500 undirskriftir en söfnuninni lýkur 24. janúar. „Svo áttaði ég mig nú á því að við hjónin eigum 50 ára brúðkaupsafmæli 24. janúar þannig ég ætla að færa borgarstjóranum gullsleginn undirskriftalista,“ segir Kristján. Augljóst er að græna gímaldið á hug hans allan og hann er hræddur um að svo verði um langa hríð. „Ég er skíthræddur um það. Ég held samt að borgin neyðist til að gera eitthvað en í hvaða formi það verður veit ég ekki. Borgin er nauðbeygð núna til að taka fyrir hvað hægt sé að gera til að létta á okkur íbúum.“
Í fljótu bragði sér Kristján það ekki sem lausn að borgin kaupi upp íbúðirnar. „En við vonumst til að það verði tekin ákvörðun um að stytta húsið þannig að sá hluti sem snýr beint að okkur hverfi.“ Hann á von á að það muni taka dágóðan tíma að leiða málið til lykta. „Ég er hræddur um að það komi ekki til með að gerast neitt rosalega stórfenglegt. En ég bíð spenntur eftir því hvað gerist hjá borginni. Það á að vera fundarherferð í þessum mánuði. Þangað til mun ég safna undirskriftum.“
Athugasemdir