Þetta ár hefur sannarlega verið viðburðaríkt í alþjóðamálunum, sem er það svið sem ég hugsa mest um. Ég geri stundum grín að því, að það að stúdera alþjóðastjórnmál sé eins og að vera viðstöðulaust á námskeiði í svartsýni. Við lærum að horfa á alla mögulega misbresti í samskiptum ríkja og vera tilbúin fyrir stríð og hörmungar hvenær sem er. Og af því er nóg í alþjóðakerfinu. Enn einum COP fundinum lauk án mikils árangurs – enda kannski ekki mikils að vænta þegar þeir eru haldnir í olíuríkjum.
„Ég hef upplifað sterkar en oft áður að alþjóðakerfið sé að bresta“
Stór hluti ársins hjá mér fór í það að fylgjast með kosningum í Bandaríkjunum. Það er bæði vinna og áhugamál, enda eru kosningarnar þar hin fullkomna áhorfendaíþrótt. Ég varð fyrir vonbrigðum með það í fyrra að ekki leit út fyrir a neinn Demókrati myndi skora á Joe Biden og að hann sæi fyrir sér að verða aftur frambjóðandi flokks síns. Niðurstaðan varð sú sem ég bjóst við, þrátt fyrir að Biden hafi hætt við framboð. Áhrifanna er strax farið að gæta, viðskiptastríð gætu verið í vændum og auðvitað óljóst hvaða áhrif Trump hefur á bæði Úkraínu og Gasa. Það eru líka átökin á þessum stöðum sem ég hef verið hugsi yfir að svo mörgu leyti. Ég hef upplifað sterkar en oft áður að alþjóðakerfið sé að bresta.
Ástandið á Gasa hefur verið hræðilegt til lengri tíma en er núna orðið algjörlega óbærilegt. Einstaklingar hafa tekið á sig að fjármagna mannúðaraðstoð, bæði þar og í Úkraínu, á einhverjum skala sem ég fæ ekki séð að hafi verið til staðar áður. Úkraínsk vinkona mín í Bandaríkjunum heldur vinum sínum og ættingjum þar í landi lifandi með stuðningi vina og vandamanna á Go Fund Me og fjöldi Íslendinga styður einstaklinga á Gasa í gegnum sambærilegar leiðir. Hvernig getur það verið að í sítengdri heimi að ríki geti horft í gegnum fingur sér með þjáningu fólks á þennan hátt og að fjársafnanir á vegum almennings eigi að duga til að bjarga málunum?
Nú í lok árs urðu svo dramatískar vendingar í Sýrlandi. Rúmlega hálfrar aldar valdatímabili Assad feðga lauk skyndilega og þótt við vitum hvernig spilast úr því er full ástæða til að fagna falli þessa harðstjóra. Vonandi fær almenningur þar í landi tækifæri til að leggja grunn að lýðræðislegu framhaldi, en ástandið á svæðinu í heild er ekki traustvekjandi. Konur hafa ekki haft aðkomu að tilraunum til að semja um frið í Sýrlandi og þær mega ekki gleymast á þessum vettvangi.
„Hvernig getur það verið að í sítengdri heimi að ríki geti horft í gegnum fingur sér með þjáningu fólks á þennan hátt ... ?“
Á næsta ári eru 50 ár frá kvennafrídeginum á Íslandi, 50 ár frá kvennafundi SÞ í Mexíkó og 30 ár frá Beijing ráðstefnunni. Það urðu stórtækar breytingar til betri vegar milli Mexíkó og Beijing-fundanna, en nú hallar undan fæti. Hér heima er talað um kvennaríki, konur eru í helstu embættum og fyrsta ríkisstjórnin situr nú sem er að meirihluta til skipuð konum. Um leið er bakslagið sýnilegt víða um heim – talibanar eru við völd í Afganistan og þar mega konur bókstaflega ekki láta í sér heyra utan veggja heimilisins. Reglur um þetta voru settar á þessu ári! Um leið er grafið undan kyn- og frjósemisréttindum t.d. í Bandaríkjunum. Kosið var víða um heim á árinu en í 60% þeirra ríkja sem kosningar fóru fram veiktist staða kvenna. Þetta sýnir kannski hvað best að við megum ekki missa sjónar á markmiðinu um réttlátara samfélag, árangurinn getur auðveldlega orðið skammvinnur.
Ég vona að árið 2025 verði ár sem ber frið í skauti sér, að við nýtum það til að efla fjölþjóðasamvinnu, fagna fjölbreytileikanum og taka vel á móti fólki sem þarfnast verndar og skjóls. Verkefnin framundan eru ótal mörg og gera virst óyfirstíganleg. Það þarf að binda endi á átök, fjármagna þróunarverkefni, sporna gegn loftslagsbreytingum og stuðla að kynjajafnrétti. Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir að hún vilji ná markmiðum sínum með „utanríkisstefnu sem byggir á mannréttindum, friði [og] virðingu fyrir alþjóðalögum“. Þessi gildi eru góð og mikilvæg en þetta næst ekki nema setja þau í samhengi við öll þau verkefni sem ég nefni hér að framan.
Athugasemdir