Hingað til hefur verið talið að genetískur uppruni Íslendinga og Færeyinga sé nánast sá sami enda um nágrannaþjóðir að ræða sem segja má að hafi orðið til á mjög svipuðum tíma.
En nú er komið í ljós að svo er ekki. Íslendingar og Færeyingar eru vissulega áfram frændur en þeir eru þó ekki eins náskyldir og talið hefur verið.
Báðar þjóðirnar eiga svipaðan uppruna í kvenlegg, það er að segja góður hluti kvennanna meðal fyrstu landsnámsmannanna kom frá Bretlandseyjum, þar á meðal Írlandi. Skýringin er augljós. Norrænir menn héldu fyrst til Bretlandseyja og höfðu þaðan með sér konur — nauðugar eða viljugar — þegar þeir settust síðan að hvort heldur í Færeyjum eða á Íslandi.
En uppruni karlanna sem fluttust annars vegar hingað til Íslands og hins vegar til Færeyja er mun ólíkari en álitið var.
Þeir norrænu karlmenn sem settust að á Íslandi voru að yfirgnæfandi meirihluta frá Noregi og meira að segja frekar takmörkuðu svæði í Vestur-Noregi.
Þeir sem settust að á Færeyjum höfðu hins vegar mun fjölbreyttari uppruna. Sumir þeirra voru vissulega frá Noregi en allt eins margir komu ýmist frá Danmörku eða Svíþjóð.
Hér má lesa nánar um þá erfðafræðirannsókn sem leitt hefur þetta í ljós.
Einn vísindamannanna sem stýrðu rannsókninni var Eyðfinn Magnussen líffræðingur á Náttúruvísindadeildini í Færeyjum. Hér segir hann frá niðurstöðunum og þykir að vonum merkilegt.
Uni Arge blaðamaður og rithöfundur í Færeyjum segir mér að þessar niðurstöður hafi vakið mikla athygli í eyjunum undanfarna daga og séu umtalaðar.
Raunar hefur verið skrifað um þessar niðurstöður víða um heim, enda hefur athygli umheimsins beinst í töluvert vaxandi mæli að Færeyjum.
Erfðarannsóknir á mönnum, dýrum og plöntum hafa reyndar breytt að ýmsu leyti hugmyndum um upphaf byggðar í Færeyjum. Samkvæmt skrifuðum heimildum, ekki síst Færeyingasögu sem skráð var á Íslandi, byggðust Færeyjar í upphafi 9. aldar frá Noregi, sjónarmun á undan Íslandi.
Fornleifar hafa hingað til ekki gefið annað til kynna en þetta sé í stórum dráttum rétt, þótt fáum hafi blandast hugur um að „papar“ þeir, sem voru í einhverjum mæli á Íslandi fyrir landnám norrænna manna, hafi einnig verið í Færeyjum.
Rannsóknir á jurta- og dýraleifum hafa hins vegar á undanförnum árum leitt í ljós að sennilega námu menn frá Írlandi og/eða Bretlandi land á Færeyjum mun fyrr en talið hefur verið.
Hinir djörfustu vísindamenn, til dæmis Hannes Gislason á Fróðskaparsetri Færeyja, telja jafnvel að menn kunni ef til vill að hafa flutt bygg til Færeyja þegar um árið 50.
Aðrir treysta sér til að nefna árið 300. Kindur hafi svo komið nokkru síðar, ef til vill í einhvers konar nýrri bylgju „papa“ um 500.
Eiginlegar mannvistarleifar frá þessum tíma hafa hins vegar ekki fundist ennþá, svo í bili er talið — sem fyrr — að þessir fyrstu íbúar Færeyja hafi fyrst og fremst verið karlmenn, einsetumenn af einhverju tagi, sem hafi ekki skilið eftir sig afkomendur.
Og húsakostur þeirra verið heldur forgengilegur.
Svo að hin núverandi færeyska þjóð sé í rauninni eftir sem áður komin af norrænum körlum og „keltneskum“ konum þeirra sem flust hafi til eyjanna í byrjun 9. aldar eða altént ekki löngu fyrr.
En eins og Eyðfinn bendir á, þá sýnir hin nýja rannsókn fram á að „færeyskir og íslenskir karlar hafi ekki sama uppruna og þetta er því viðbót við okkar sögu“.
Í bili er ekki gott að segja af hverju sænskir og danskir víkingar (ef við viljum nota það orð) settust glaðbeittir að í Færeyjum en létu Ísland norskum frændum sínum að mestu eftir.
Það er næsta verkefni vísindamanna að finna skýringu á því. Voru Norðmenn einfaldlega svona frekir til fjörsins á Íslandi að aðrir komust ekki að, eða var eitthvað það við Ísland sem Dönum og Svíum leist ekki á?
Skyldi maður þó ætla að íslenska erfðamengið hafi verið sæmilega rannsakað síðasta aldarfjórðung eða svo, þar með talið með tilliti til uppruna og frændskapar við nágrannaþjóðir.
Bylting, eða bölvað bull og þvæla, þar liggur efinn.