Jólasveinninn gleður hjörtu barna á öllum aldri víða um heim og við á Íslandi erum svo heppin að það er ekki bara sá rauðklæddi með síða, hvíta skeggið sem heimsækir okkur heldur líka íslensku bræðurnir og jólasveinarnir – synir Grýlu og Leppalúða – svo sem Stúfur, Stekkjastaur og Skyrgámur að ógleymdum Hurðaskelli.
Jólasveinarnir hafa ýmsan starfa þegar þeir koma til byggða fyrir jólin og þar á meðal að gefa börnum í skóinn, sem er partur af jólahefðinni á mörgum heimilum.
„Ég hef stundum talað um að jólasveinninn ætti að gefa í skóinn þegar hann fer til baka upp í fjöllin, eftir jólin, til að dreifa álaginu og kannski trappa okkur niður en svo er þetta notaleg jólahefð,“ segir Helena Rut Sigurðardóttir foreldra- og uppeldisfræðingur. Annars er Hurðaskellir í uppáhaldi hjá henni. „Það voru læti í kringum hann. Hann var hressi karlinn.“
Stúfur er hins vegar uppáhaldsjólasveinn Rakelar Guðbjörnsdóttur, stöllu hennar. Stúfur er nefnilega svo lítill og sætur að hann er ekkert ógnvekjandi.
Hvað ef börn efast um tilvist jólasveinsins? Rakel segir að hafa þurfi í huga á hvaða aldri viðkomandi börn eru. Ef ung börn hræðast jólasveininn sé betra að útskýra fyrir þeim að það sé manneskja að leika jólasveininn og leggja meiri áherslu á jólaandann, kærleikann og gleðina en einhvern einstakling sem er mögulega ógnvaldur í lífi þeirra. Helena bætir við að margir kjósa að hafa skóinn í stofunni eða jafnvel sokka á hurðinni, þannig að jólasveinninn fari ekki inn í herbergi barnanna.
Algengast er að börn hætti að trúa á tilvist jólasveinsins þegar þau byrja í grunnskóla. Rakel bendir á að ef foreldrar ýti á börn sín að trúa á tilvist hans geti það valdið særindum þegar barnið kemst að raunveruleikanum og það jafnvel spurt foreldra sína hvers vegna þau hafi sagt sér ósatt í öll þessi ár og sérstaklega ef flestir jafnaldrar þeirra eru hættir að trúa á tilvist sveinka. „Ég sé fyrir mér að það gæti skapað togstreitu í sambandi foreldris og barns ef foreldrið hefur þörf fyrir að barnið trúi á tilvist hans þegar það er orðið þetta gamalt; það væri betra að setja orkuna í jólaandann og jólagleðina og jólasveinarnir eru partur af því; það er hægt að dansa í kringum þetta.“
Og það er hægt að dansa með jólasveininum í kringum jólatréð.
Ráð til jólasveinsins
Það sem kemur fram hér að neðan er einkanlega beint til jólasveinsins. Helena bendir á að jólasveinninn ætti að gæta hófsemi þegar kemur að gjöfum í skóinn en á sumum heimilum þarf hann að gefa fleiri en einu barni gjafir í skóinn og nefnir Helena að hann gæti til dæmis gefið mandarínur og límmiða og jafnvel kerti og spil, rafmagnskerti og spil.
Rakel bendir á að efnahagur fólks sé misjafn. Jólasveinninn ætti að hafa það í huga þar sem börn bera gjafirnar gjarnan saman og það sé slæmt ef eitt barn fær dýra gjöf í skóinn, en næsta barn ekki. Það er jafnvel sami jólasveinninn sem gefur þeim gjafir í skóinn. Helena nefnir þá að jólasveinninn geti skilið eftir miða í skónum þar sem stendur til dæmis að barnið fái skemmtilega samverustund með foreldri sínu eða foreldrum sínum. Það er ómetanleg gjöf sem allir hafa efni á. Að lokum nefna þær að hafa beri í huga að ekki eru öll börn sömu trúar og sum trúa ekki yfir höfuð eða foreldrar þeirra.
Athugasemdir