„Ég ber alla ábyrgð á þeim bloggskrifum sem hafa birst í fjölmiðlum síðustu daga. Ég skammast mín djúpt fyrir þau. Skrifin voru röng, meiðandi og skaðleg. Það er hægt að velja hvaða sterka neikvæða lýsingarorð sem við eigum í orðabókinni. Þau eiga við um þessi skrif.“
Svona hefst yfirlýsing sem Þórður Snær Júlíusson birtir á Facebooksíðu sinni um hádegisbilið.
Þórður skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavik norður fyrir alþingiskosningarnar. Í yfirlýsingunni segist hann ekki ætla að taka sæti nái hann kjöri heldur eftirláta næstu konu á listanum sæti sitt. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna kosninganna er hafin og geta frambjóðendur á listum því ekki hætt við framboð.
Á þriðjudag var Þórður gestur í þættinum Spursmál á mbl.is þar sem Stefán Einar Stefánsson rifjaði upp afar ósmekkleg og meiðandi bloggskrif Þórðar frá árunum 2004-2007 en þar skrifaði hann til að mynda endurtekið niðrandi um konur. Hart hefur verið sótt að Þórði síðan, til að mynda af frammákonum í kvenfrelsisbaráttunni en einnig mun breiðari hópi, og ýmsir velt því upp hvort honum sé stætt á því að sækjast eftir þingsæti í ljósi bloggskrifanna.
„Ég bauð mig fram til Alþingis á grunni þess sem ég er, og hef orðið að á síðustu tæpu tveimur áratugum, ekki þess sem ég var. Ég vildi gera samfélaginu gagn á öðrum vettvangi. Hvíla mig á því að benda á það sem væri að og reyna að vinna að lausnum þess í stað. Nú er mér ljóst að áframhaldandi vera mín á lista er til trafala og er mörgum þung. Þess vegna tilkynni ég hér með að ég mun ekki taka þingsæti hljóti ég slíkt í kosningunum eftir tvær vikur heldur eftirláta næstu konu á listanum sæti mitt,“ segir hann í yfirlýsingunni.
Þórður tekur þar fram að hann sé ekki fórnarlamb neinna aðstæðna og að hann ætli ekki að reyna að réttlæta skrifin. Hann segist einfaldlega hafa átt að vita betur og gera betur. Þá fari hann ekki fram á að umræðu um skrifin sé lokið með neinum hætti hann hafi beðist afsökunar og iðrist.
„Það liggur líka fyrir að baráttan stendur enn. Og það er bakslag í henni. Viðhorf eru farin að heyrast á ný sem voru á undanhaldi. Ungir karlar sem eru á svipuðum stað og ég var á þessum tíma sem skrifin birtust. Það er mjög vond þróun sem þarf að spyrna gegn. Það þarf að berjast fyrir því sem hefur áunnist í kvenfrelsis- og jafnréttisbaráttunni. Ég hef tekið þátt í þeirri baráttu á síðustu áratugum og ég vil gera það áfram sem stuðningsmaður. Með því að hlusta og læra,“ skrifar hann.
Hér er færsla Þórðar í heild sinni:
Sumir tala jafnvel um að hann eigi að fá annað tækifæri rétt eins og hann sé enn við sama heigarðshornið.
Ákvörðun hans um að taka ekki þingsæti nái hann kjöri er þó að mínu mati rétt og honum til sóma. Hann tekur hagsmuni flokksins fram yfir eigin hagsmuni.
Svara