Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur úrskurðað að vera Ísraels í Palestínu sé ólögleg og að henni eigi að ljúka „eins fljótt og auðið er“.
Þetta kemur fram í úrskurðinum sem Nawaf Salam, forseti dómstólsins, las upp í dag. Úrskurðurinn er ráðgefandi og ekki bindandi og byggir á máli sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna setti fram árið 2022.
Salam sagði Ísrael brjóta Genfarsáttmálann með framferði sínu en þar segir að hernámslið skuli ekki flytja óbreytta borgara sína yfir á það svæði sem hernumið hefur verið.
„Byggðir Ísraels á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem, og stjórnin sem fylgir þeim, hafa verið settar upp og er viðhaldið í bága við alþjóðalög,“ las Salam upp úr niðurstöðu 15 manna dómstólsins, að því fram kemur á Al Jazeera.
Hann bætti því við að stefna Ísraels á svæðum Palestínu væri ígildi innlimunar svæðanna og að Ísrael mismunaði palestínsku fólki á svæðunum.
Beðið eftir þjóðarmorðs-málinu
Suður-Afríka rekur annað mál fyrir dómstólnum þar sem því er haldið fram að Ísrael fremji þjóðarmorð með hernaði sínum á Gaza. Bráðabirgðarniðurstaða hefur þegar verið birt í málinu og skipaði dómstóllinn Ísrael að koma í veg fyrir þjóðarmorð og tryggja það að hjálpargögn berist íbúum Gaza.
Þá skipaði dómstóllinn Ísrael að stöðva innreið sína í Rafah vegna hættu fyrir þau hundruð þúsunda Palestínumanna sem leita skjóls í borginni, sem er staðsett syðst á Gaza. Árásir Ísrael á Gaza hafa þó haldið áfram og sýndi rannsókn í fræðiritinu Lancet að yfir 186.000 dauðsföll hafi orðið vegna hernaðarins í Gaza síðustu misseri.
„Auðvitað eru þetta stríðsglæpir. Auðvitað eru þetta brot á alþjóðalögum.“
Árásunum hefur verið mótmælt á Íslandi undanfarin misseri. Fyrrverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sagði í mars að atburðirnir væru „hryllilegir“ og nýkjörinn forseti Íslands, Halla Tómasdóttir sagðist fyrir forsetakosningar vera hryggbrotin yfir því sem væri að gerast á Gaza.
„Þetta er að kremja í mér hjartað og ég held að okkur líði öllum alveg ótrúlega illa út af þessu,“ sagði Halla. „Auðvitað eru þetta stríðsglæpir. Auðvitað eru þetta brot á alþjóðalögum.“
Ekki bætir þar úr að hamas sem ætti að vera málsvari palestínumanna er bara skósveinn Irans og hefur sem markmið að valda upplausn og skapa píslarvotta.
ESB hefur lagt bann á vörur sem eru framleiddar af ísraelskum fyrirtækjum á svæðum Palestínu en seldar undir "made in Israel". M.a. eru það Sodastream tæki sem eru svo vinsæl meðal íslendinga ...