Ég var í París fyrir tæpum fjörutíu árum. Og var bara að strolla niður einhverja götu þar sem var röð af kaffihúsum. Þá sá ég svona eldri konu, pelsklædda og mjög fína. Hárið grásprengt, stutt og vel til haft. Naglalakk og vel til höfð! Bara svona skilgreining á Parísardömu. Sem hefur líklegast lifað lífinu lifandi. Og var með einn kaffibolla og sígarettu í hendinni. Og naut svo augsýnilega lífsins til hins ýtrasta þar sem hún sat ein.
Nauðaómerkilegt atvik.
En! Mér verður oft hugsað til þess. Þegar fólk er að skipuleggja alls konar ferðir eða viðburði sem kosta mikla peninga. Þarna var hún að njóta lífsins ein og kostaði hana eina evru.
Mér finnst fyndið að ég skuli alltaf muna eftir þessu því þetta var svo nauðaómerkilegt. En ég hugsa til þess aftur og aftur. Og mér finnst fyndið hvað ég man ofsalega vel eftir þessu. Þetta var mjög fín frú á áttræðisaldri.
Seinna meir held ég að þetta hafi kennt mér núvitund í sinni skýrustu mynd. Þetta kenndi mér að njóta augnabliksins. Ekki hvað ég ætla að gera á morgun eða eftir eitt ár. Ég tók fyrst eftir henni því hún var svo vel til höfð og glæsileg til fara. En svo leit hún upp í himininn og lyngdi aftur augunum eins og sjálfsöruggt fólk gerir. Af svo augljósri og áreynslulausri vellíðan.
Athugasemdir (2)