Þessi grein birtist fyrir rúmlega 8 mánuðum.

Fyrstu forsetakosningar á Íslandi: Hver verður „hótelstjóri á Bessastöðum“?

Fyrstu forsetakosningar á Íslandi: Hver verður „hótelstjóri á Bessastöðum“?
Forsetakjöri lýst 1944. Flestir bjuggust við að Sveinn Björnsson yrði einróma, eða svo til, valinn til forseta af Alþingi. En það fór á annan veg.

Það fór kliður um mannfjöldann á Þingvöllum þegar úrslit í fyrstu forsetakosningum á Íslandi voru kynnt í heyranda hljóði þann 17. júní 1944.

Undrunar- og óánægjukliður.

Úrslitin komu reyndar ekkert á óvart.

Ákveðið hafði verið að Alþingi kysi fyrsta forseta Íslands á þingfundi á þessum degi og þar með yrði Ísland lýðveldi og kóngurinn í Danmörku endanlega afskaffaður.

Þessi fyrsti þingkosni forseti átti þó aðeins að sitja í eitt ár en sumarið 1945 færi svo fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hver tæki þá við og sæti í heilt fjögurra ára kjörtímabil.

Og allir á Íslandi töldu sig vita að frá því hefði þegar verið gengið að Sveinn Björnsson hlyti kosningu sem fyrsti forsetinn.

Enda fór svo. Sveinn Björnsson var réttkjörinn fyrsti forseti lýðveldisins Íslands.

Það var ekkert óeðlilegt; hann hafði jú gegnt embætti svokallaðs ríkisstjóra frá því að samband Íslands og Danmerkur rofnaði vegna yfirstandandi heimsstyrjaldar.

Það sem hins vegar kom mannfjöldanum á Þingvöllum, sem var kominn þangað í ausandi rigningu til að fagna stofnun lýðveldis, það sem kom honum á óvart var að Sveinn skyldi ekki hafa verið kjörinn með öllum greiddum atkvæðum.

Því höfðu allir — eða flestallir — búist við.

Því lýðveldisstofnunin átti að vera sannkölluð einingarhátíð íslensku þjóðarinnar og sýna og sanna að þjóðin stæði saman sem einn maður um land sitt, lýðveldi — og þar af leiðandi forseta.

Þegar Ísland varð fullvalda 1918 var eiginlegt sjálfstæði í raun að langmestu leyti í höfn. Ísland var þó enn í konungssambandi við Danmörku og Danir fóru að mestu með utanríkismál Íslendinga, þótt Íslendingar hefðu vissulega margt um þau að segja líka.

Í samningnum 1918 var ákvæði um að endurskoða mætti hann eftir 25 ár eða 1943. Ljóst var að flestir Íslendingar vildu að þá yrði samningurinn einfaldlega felldur úr gildi og Ísland yrði raunverulega sjálfstætt lýðveldi. Þau voru til sem hefðu ekki haft neitt á móti því að vera áfram í konungssambandi við Dani en ljóst að þau voru í miklum minnihluta.

Eftir að sambandið við Dani rofnaði 1940 vegna heimsstyrjaldarinnar lentu Íslendingar í nokkrum bobba. Þjóðverjar höfðu lagt undir sig Danmörku en Bretar Ísland. Hvað átti að gera 1943? Slíta sambandinu við Dani eins og flest vildu, jafnvel þótt Danir væru þá þjakaðir af Þjóðverjum, og gátu litla rönd við reist, eða bíða þar til styrjöldinni lyki og semja þá um hin endanlegu sambandsslit, væntanlega í mesta bróðerni?

Hraðskilnaðarmenn voru þau kölluð sem vildu slíta sambandinu strax og einhliða, en lögskilnaðarmenn þau sem vildu bíða.

Skemmst er frá því að segja að hraðskilnaðarmenn urðu ofan á í baktjaldamakki stjórnmálamanna og lögskilnaðarmenn ákváðu — sumir með óbragð í munni — að fallast á niðurstöðuna og taka af fullum krafti þátt í lýðveldisstofnuninni sem á endanum var sett á 17. júní 1944.

Í maí hafði verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um stofnun lýðveldis og nýja stjórnarskrá þess. Úrslitin voru vægast sagt afgerandi.

98,6 prósent studdu stjórnarskrána og 99,5 prósent studdu niðurfellingu sambandslaganna frá 1918 og stofnun lýðveldis.

Í raun var stuðningurinn við hvorttveggja þó eflaust alls ekki svo afgerandi, sérstaklega ekki við stjórnarskrána. Hún hafði verið samin í flýti, nánast þýdd beint upp úr hinni dönsku og  bæði stjórnmálamönnum og upplýstum almenningi var ljóst að fyrr en síðar þyrftu Íslendingar að semja sína eigin stjórnarskrá frá grunni.

Sömuleiðis hefðu mörg viljað bíða með lýðveldisstofnunina þangað til oki Þjóðverja væri létt af Dönum.

En í nafni þjóðarsamstöðu var rekinn skefjalaus áróður fyrir því að allir sem vettlingi gætu valdið mættu á kjörstað og segðu „já“ við hvorutveggja, stjórnarskránni og lýðveldisstofnuninni, og þjóðin féllst á mikilvægi samstöðunnar og lét glaðbeitt smala sér í hús.

Töluverð óvissa hafði framan af ríkt um hver skyldi verða forseti. Sveinn Björnsson ríkisstjóri virtist augljós kostur en hann hafði árið 1942 drýgt þá höfuðsynd í augum Sjálfstæðismanna (og í minna mæli Framsóknarmanna) að skipa utanþingsstjórn, eins og honum var fullkomlega heimilt þegar stjórnmálaleiðtogar á þingi gátu ekki komið sér saman um ríkisstjórn.

Sveinn Björnsson (1881-1952).Sveinn var sjálfkjörinn 1945 og 1949 en lést áður en hann lyki síðara kjörtímabili.

Björn Þórðarson kaupsýslumaður var þá dubbaður upp til forsætisráðherra og þetta átti Ólafur Thors formaður Sjálfstæðisflokksins mjög erfitt með að fyrirgefa Sveini.

Þó hafði ríkisstjóri ekki gripið til þessa ráðs nema eftir langa stjórnarkreppu.

Burtséð frá því að hafa móðgast persónulega við ákvörðun Sveins fannst Ólafi og raunar fleiri stjórnmálaleiðtogum ótækt að valinn yrði til forseta maður sem hefði pólitískt bein í nefinu og treysti sér til að standa í móti vilja þeirra.

Þeir vildu — eins og það var orðað nokkrum árum síðar — að forsetinn yrði eingöngu „hótelstjóri á Bessastöðum“.

En í opinberri umræðu var sama hugsun jafnan orðuð svo að forsetinn ætti að vera „sameiningartákn þjóðarinnar“.

Ólafur Thors reyndi að beita sér fyrir því að Sigurður Eggerz fyrrum ráðherra yrði kosinn. Hann var að verða sjötugur og hafði síðast setið á Alþingi 1931. Ekki fékk Ólafur því ráðið og því vissu flestir Íslendingar ekki annað en það væri klappað og klárt að Sveinn Björnsson yrði mótatkvæðalaust forseti þegar haldið var í vatnsveðrið á Þingvöllum á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar sjálfstæðishetju.

En það fór sem sé á annan veg.

Í prýðisbók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings (og forseta!) um fyrstu forseta Íslands kemur fram að Sveinn Björnsson sjálfur hafi alls ekki verið viss um úrslitin þegar hann fór til Þingvalla að morgni.

Hann vissi að hinn öflugi þingflokkur Sósíalistaflokksins mundi ekki greiða sér atkvæði af því Sósíalistum fannst hann alltof mikill tákngervingur íslenskrar yfirstéttar til að geta talist verðugur forseti íslenskrar alþýðu.

Myndun utanþingsstjórnarinnar undir forystu kaupsýslu- og yfirstéttarmanna væri til dæmis til marks um það.

Því mátti Sveinn vita að Sósíalistar myndu sitja hjá við forsetakosninguna á Þingvöllum. 

Hann vissi hins vegar minna um hvað óánægðir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og jafnvel Framsóknarflokksins myndu gera.

Sögur hermdu að þeir væru að reyna að koma sér saman um stuðning við annan frambjóðanda en Svein þótt Sigurður Eggerz kæmi ekki lengur til greina.

Sveinn mun hafa verið búinn að ákveða að yrði hann kosinn en fengi þó ekki stuðning meirihluta þingmanna, þá mundi hann ekki þiggja forsetaembættið.

Þingmenn voru þá 52 og voru Sjálfstæðismenn flestir eða 20, Framsóknarmenn 15, Sósíalistar 10 og Alþýðuflokksmenn 7. 

Þegar þingfundur hófst var fljótlega komið að því að kjósa fyrsta forseta hins nýja lýðveldis. Atkvæðin voru greidd skriflega en leynilega. Gísli Sveinsson forseti sameinaðs Alþingis (sem starfaði þá í tveim málstofum) las upp atkvæðin.

Og það var þá sem kliður fór um mannfjöldann.

Sveinn Björnsson hlaut vissulega kosningu en hún var hvorki örugg né glæsileg. Hann fékk 30 atkvæði af 50, en tveir þingmenn voru af einhverjum ástæðum fjarverandi.

60 prósent, það var nú allt og sumt, en dugði þó til að Sveinn þáði kosningu.

Þessi óvenju slaki árangur ríkisstjóra vakti sem sagt furðu á þingi.

Ekki í fyrsta sinn, og ekki í það síðasta heldur, sem stjórnmálaleiðtogar kröfðust samstöðu af þjóðinni en töldu sig ekki þurfa að sýna hana sjálfir.

Þeir gerðu bara eins og sér hentaði.

Og þá vakti ekki síður undrun hvert hin atkvæðin fóru, þau sem Sveinn fékk ekki.

15 sátu hjá. Það voru þingmenn Sósíalista og fimm til viðbótar.

Og Jón Sigurðsson fékk 5 atkvæði.

Jón Sigurðsson (1886-1957).Jón var ævinlega kenndur við bæinn Kaldaðarnes í Árnessýslu. Auk þess að vera einkar vel látinn sem embættismaður og lengst af skrifstofustjóri Alþingis var hann rómaður þýðandi á íslensku og kunnastur fyrir þýðingar á verkum norska skáldjöfursins Knut Hamsun.

Þegar Gísli Sveinsson las upp atkvæði hans, þá fór mestur kliður um mannskapinn.

Voru þingmenn í einhverjum dáraskap að kjósa hina dáðu 19. aldar sjálfstæðishetju til forseta? Var þetta nú rétti vettvangurinn til að vera með slíkt skens?

En í rauninni voru þetta Ólafur Thors og dyggustu fylgismenn hans að kjósa Jón Sigurðsson skrifstofustjóra Alþingis til forseta.

Alveg í óþökk Jóns sem var valinkunnur sómamaður og mátti ekki vamm sitt vita.

Hann hefur áreiðanlega ekki haft hugmynd um það fyrirfram að hann myndi fá atkvæði í þessum fyrstu forsetakosningum á Íslandi.

En þannig fóru sem sagt þessar fyrstu forsetakosningar á Íslandi.

Með orðum Guðna Th. í fyrrnefndri bók:

„Sósíalistar og allmargir þingmenn Sjálfstæðisflokks færa embætti forseta í vöggugjöf þá viðvörun að hann geti vart verið hvort tveggja í senn, sameiningartákn og stjórnmálaafl.“

Orð sem nú hljóta að enduróma þegar enn á að kjósa til forseta samkvæmt gamalli stjórnarskrá.

Sveinn Björnsson lét þetta duga, þetta var þrátt fyrir allt sá meirihluti sem hann hafði talið nauðsynlegan til að hann gæti þegið embættið.

Hann undirritaði því eiðstaf sem fyrsti forseti Íslands eftir þetta fyrsta, og blautasta, forsetakjör á landinu bláa.

Kjósa
22
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Kristín R. Magnúsdóttir skrifaði
    Mjög fróðleg grein og margt kom fram, sem ég vissi ekki.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Á ekki von á 50 milljónum eftir jólin
1
ÚttektJólin

Á ekki von á 50 millj­ón­um eft­ir jól­in

Nokk­ur af þekkt­ustu nöfn­un­um í ís­lensku tón­list­ar­sen­unni gefa nú út svo­köll­uð texta­verk, prent­uð mynd­verk með texta­brot­um úr lög­um sín­um. Helgi Björns­son seg­ir að marg­ir hafi kom­ið að máli við sig um að fram­leiða svona verk eft­ir að svip­uð verk frá Bubba Mort­hens fóru að selj­ast í bíl­förm­um. Rapp­ar­inn Emm­sjé Gauti seg­ir texta­verk­in þægi­legri sölu­vöru til að­dá­enda en ein­hverj­ar hettupeys­ur sem fylli hálfa íbúð­ina.
Vont að vita af þeim einum yfir hátíðarnar
2
Á vettvangi

Vont að vita af þeim ein­um yf­ir há­tíð­arn­ar

„Mað­ur velt­ir fyr­ir sér hvað varð til þess að hann var bara einn og var ekki í tengsl­um við einn né neinn,“ seg­ir lög­reglu­kona sem fór í út­kall á að­vent­unni til ein­stæð­ings sem hafði dá­ið einn og leg­ið lengi lát­inn. Á ár­un­um 2018 til 2020 fund­ust yf­ir 400 manns lát­in á heim­il­um sín­um eft­ir að hafa leg­ið þar í að minnsta kosti einn mán­uð. Þar af höfðu yf­ir eitt hundrað ver­ið látn­ir í meira en þrjá mán­uði og ell­efu lágu látn­ir heima hjá sér í eitt ár eða leng­ur.
Ísrael og Palestína: „Stjórnvöld sem líkja má við mafíur“
3
Viðtal

Ísra­el og Palestína: „Stjórn­völd sem líkja má við mafíur“

Dor­rit Moussai­eff er með mörg járn í eld­in­um. Hún ferð­ast víða um heim vegna starfs síns og eig­in­manns­ins, Ól­afs Ragn­ars Gríms­son­ar, þekk­ir fólk frá öll­um heims­horn­um og hef­ur ákveðna sýn á við­skipta­líf­inu og heims­mál­un­um. Hún er heims­kona sem hef­ur í ára­tugi ver­ið áber­andi í við­skipta­líf­inu í Englandi. Þessi heims­kona og fyrr­ver­andi for­setafrú Ís­lands er elsku­leg og elsk­ar klón­aða hund­inn sinn, Sam­son, af öllu hjarta.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
2
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Rak 90 prósent starfsfólks fyrir að skrópa á morgunfund
4
Fréttir

Rak 90 pró­sent starfs­fólks fyr­ir að skrópa á morg­un­fund

Bald­vin Odds­son, ung­ur ís­lensk­ur at­hafna­mað­ur, rat­aði ný­ver­ið í frétt­ir í Banda­ríkj­un­um fyr­ir að reka 99 starfs­menn úr sprota­fyr­ir­tæki sem hann stofn­aði og rek­ur. Fram­kvæmda­stjór­inn mun hafa ver­ið ósátt­ur við slaka mæt­ingu á morg­un­fund, þar sem að­eins ell­efu af 110 starfs­mönn­um meld­uðu sig, og til­kynnti þeim sem voru fjar­ver­andi að þau væru rek­in.

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
3
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.
Ný ógn við haförninn rís á Íslandi
5
Vindorkumál

Ný ógn við haförn­inn rís á Ís­landi

Hafern­ir falla blóð­ug­ir og vængja­laus­ir til jarð­ar í vindorku­ver­um Nor­egs sem mörg hver voru reist í og við bú­svæði þeirra og helstu flug­leið­ir. Hætt­an var þekkt áð­ur en ver­in risu og nú súpa Norð­menn seyð­ið af því. Sag­an gæti end­ur­tek­ið sig á Ís­landi því mörg þeirra fjöru­tíu vindorku­vera sem áform­að er að reisa hér yrðu á slóð­um hafarna. Þess­ara stór­vöxnu rán­fugla sem ómæld vinna hef­ur far­ið í að vernda í heila öld.
Innsæi Karenar öskraði: „Það er eitthvað að“
6
ViðtalMóðursýkiskastið

Inn­sæi Kar­en­ar öskr­aði: „Það er eitt­hvað að“

Þeg­ar Kar­en Ösp Frið­riks­dótt­ir lá sár­kval­in á kvenna­deild Land­spít­ala ár­ið 2019 var hún sök­uð um verkjalyfjafíkn. Hún hafði þá ver­ið verkj­uð síð­an hún var níu ára. Geð­lækn­ir leiddi að því lík­um að verk­ir henn­ar tengd­ust gervióléttu. Tveim­ur ár­um síð­ar fékk hún loks stað­fest­ingu á því að hún væri með lík­am­leg­an sjúk­dóm. Hún von­ar að heil­brigðis­kerf­ið og sam­fé­lag­ið læri af henn­ar sögu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár