Hér er það sem ég hélt um kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu; litlaust gamalt stofnanarými með gömlum húsgögnum og skjalabunkum á skrifborðum og í hillum. Í gömlum skrifborðsstólum sitja rannsóknarlögreglumenn, flestir karlar, og skoða fréttasíðurnar á milli þess sem þeir skipuleggja páska- og sumarfrí. Rannsóknarlögreglumenn sem brosa sjaldan eða aldrei í vinnunni, því málin sem þeir rannsaka tengjast því versta í mannlegri hegðun. Þetta var hér um bil myndin sem ég hafði búið til í höfðinu af deildinni sem svo oft er í fréttum vegna kynferðisbrota sem koma upp í samfélaginu.
Á rúmum tuttugu ára ferli sem blaðamaður hef ég fjallað um ótalmörg kynferðisbrotamál. Þegar ég var ritstjóri Kompáss á Stöð 2 gerðum við umfjallanir um barnaníðinga þar sem meðal annars Ágúst Magnússon, dæmdur barnaníðingur á reynslulausn, hitti tálbeitu Kompáss og við afhjúpuðum Byrgismálið svo eitthvað sé nefnt. Í Kastljósinu á RÚV unnum við Helgi Seljan og Kastljósteymið umfjöllun um kynferðisbrotasögu Karls Vignis Þorsteinssonar sem spannaði 50 ár. Á þessum tíma hef ég tekið nokkur viðtöl við ýmsa starfsmenn kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þá hafa viðtölin snúist um tiltekin mál. Í minningunni er það þannig að mér hafi alltaf verið vel tekið og í flestum tilvikum hafi ég fengið viðtöl sem hafa byggt á almennum spurningum því lögreglumenn svara sjaldnast spurningum um ákveðin mál.
Lokkaði stúlkuna til sín
Þegar stórar og viðamiklar umfjallanir um kynferðisbrot fara í loftið er mjög algengt að ábendingar streymi inn á fjölmiðilinn sem birtir umfjöllunina. Fyrir 16 eða 17 árum, eftir umfjöllun um barnaníðinga í Kompási á Stöð 2, hafði ung stúlka úr Kópavogi samband við mig og sagði mér frá fullorðnum karlmanni sem kúgaði hana til að hitta sig. Karlmaðurinn hafði lokkað stúlkuna til sín, nauðgað henni og tekið nauðgunina upp á VHS-spólu og hótaði stúlkunni að hann myndi senda spóluna til fjölskyldunnar ef hún kæmi ekki heim til hans þegar hann vildi. Stúlkan hafði samband við mig og spurði hvað hún gæti gert. Henni leið mjög illa og var hrædd um að maðurinn myndi standa við hótunina og senda fjölskyldunni spóluna. Ég sagði stúlkunni að hafa samband við Stígamót og lögregluna.
„Þessi atburður á kaffihúsinu varð hvatning fyrir mig til að halda áfram að vinna umfjallanir um kynferðisbrot“
Nokkrum árum síðar sat ég á kaffihúsi og ung kona hnippir í mig og biður mig að standa upp – sem ég geri. Unga konan spurði hvort hún mætti taka utan um mig og ég sagði já, auðvitað. Konan vildi þakka mér fyrir að hafa beint henni til Stígamóta og lögreglunnar og sagði að hvatningin frá mér hafi hjálpað sér að halda áfram. Mér þótti vænt um knúsið og orð konunnar og þessi atburður á kaffihúsinu varð hvatning fyrir mig til að halda áfram að vinna umfjallanir um kynferðisbrot. Og ef þessi kona les þennan pistil yrði ég þakklátur ef hún hefði samband við mig – mig langar að vita hvernig þér hefur vegnað.
Mætti fyrst í febrúar
Mig hefur lengi langað til að vinna umfjöllun um kynferðisbrotadeildina og fá að kynnast starfinu þar og starfsfólkinu. Ég sótti hins vegar aldrei um leyfi því mér þótti það langsótt að slíkt leyfi yrði veitt. En svo kynntist ég Ævari Pálma Pálmasyni, yfirmanni kynferðisbrotadeildarinnar, þegar hann var yfir smitrakningateymi almannavarna í Covid-faraldrinum og ég að vinna við gerð heimildarþáttanna Stormur. Þá ræddum við þá hugmynd að ég myndi vinna umfjöllun um kynferðisbrotadeildina. Síðan eru liðin tæp fjögur ár og eftir frumsýninguna á Stormi ákvað ég að heyra í Ævari Pálma – væri ekki rétti tíminn núna að kynnast deildinni? Og ég fékk leyfi til að gera hlaðvarpsþáttaröð um starfið á deildinni.
Vopnaður hljóðnema, heyrnartólum og myndavél mætti ég í fyrsta skipti á deildina í byrjun febrúar. Ævar Pálmi tók á móti mér austan megin á lögreglustöðinni við Hverfisgötu og fylgdi mér upp á kynferðisbrotadeildina og beint inn á kaffistofu starfsmanna. Þar voru nokkrir starfsmenn að fá sér kaffi eftir hádegismatinn og allir voru áhugasamir um þáttagerðina. Ég sagði þeim að ég ætlaði að fá að vera með þeim á deildinni í nokkra daga, fá að kynnast starfsfólkinu, starfinu og málunum sem koma inn til rannsóknar. Þegar þetta er skrifað hef ég verið rúma 30 daga við upptökur á deildinni og hef kynnst öllu starfsfólkinu og kafað í reynslubanka þeirra með viðtölum og spjalli.
„Hvað getum við sem samfélag gert til að fækka kynferðisbrotum?“
Þáttaröðin Á vettvangi fer í loftið á Heimildinni þann 22. apríl og verða þættirnir fjórir og birtir vikulega. Halldór Gunnar Pálsson, frændi minn og kórstjóri Fjallabræðra, gerir hljóðmyndina fyrir þættina. Í þáttunum kynnumst við starfinu á kynferðisbrotadeildinni, fólkinu sem þar vinnur og málunum sem þar streyma inn. Við förum líka út fyrir deildina og ræðum við fólk sem starfar í öllu kerfinu sem kemur að kynferðisbrotamálum á Íslandi. Við spyrjum; hvað getum við sem samfélag gert til að fækka kynferðisbrotum?
Erfitt en gefandi ferðalag
Fyrir mig hefur þetta verið erfitt en mjög gefandi ferðalag. Það sem hefur verið erfitt er að heyra um allan hryllinginn og illskuna sem á sér stað í samfélaginu – alla sorgina og örin sem kynferðisbrot skilja eftir sig á brotaþolum. Það hefur líka verið erfitt að fylgjast með rannsóknum mála þar sem stúlka í viðkvæmri stöðu á fermingaraldri hefur verið misnotuð af fullorðnum karlmanni. Þar tengi ég mjög sterkt við sögu dóttur minnar heitinnar sem lenti í hrömmunum á fullorðnum karlmanni sem var í harðri neyslu fíkniefna – sem urðu henni að bana.
Fyrir mig hefur þetta líka verið mjög upplýsandi ferðalag og hér er það sem ég veit núna um kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu; litlaust gamalt stofnanarými með nýlegum húsgögnum og tiltölulega hreinum skrifborðum. Í hillum eru möppur og skjalabunkar ekki sjáanlegir. Í venjulegum skrifborðsstólum sitja konur og karlar á öllum aldri sem vinna að rannsóknum mála, taka skýrslur af brotaþolum, sakborningum og vitnum. Rannsóknarlögreglumenn sem brosa og hlæja í vinnunni sem þeir vilja standa sig í og taka alvarlega. Þetta er svona hér um bil myndin sem birtist mér í vinnu minni við þáttagerðina um kynferðisbrotadeildina.
Athugasemdir (1)