Hið falska vor hefur staðið í nokkra daga. Snjórinn á undanhaldi og sólin að gera sitt gagn. En það vita allir að þetta er aðeins tímabundið. Að það vorar ekki snemma í mars á Íslandi. Enda er jökulkalt í skugganum. Og þegar næðingur bætist við fara tennurnar að glamra.
Við þessar aðstæður eru grindvískar fjölskyldur að leita sér að framtíðarhúsnæði í Njarðvík. Heilsa hver annarri kumpánlega í opnum húsum. Skoða raðhús. Parhús. Íbúðir. Vita að ef þeim líst á einhverja eign er líklegt að vinir og nágrannar bjóði líka í hana. Og að verðið sé töluvert hærra en það hefði verið fyrir nokkrum vikum. Að þau séu að fara úr einbýli sem þau hafa nostrað við í minni eign með bogann spenntari en áður. „Það eru nú léleg skipti að fá raðhús í Njarðvíkum fyrir einbýlishúsið mitt, sko,“ segir karlmaður á sextugsaldri. Hann er nú, líkt og mörg önnur pör úr Grindavík, að skoða miklu minna raðhús sem kostar þó um það bil það sama og ríkið ætlar að bjóða honum fyrir húsið hans. Það er engin sérstök gleði í augum þeirra hjóna. Hvorki spenna né tilhlökkun. Það er sannarlega ekki þeirra val að flytja. Þetta er neyðarúrræði.
Það sama má segja um Örnu og Ella, Erlend Sævarsson og Örnu Þórunni Björnsdóttur, sem eru að skoða aðra eign í Njarðvík. Íbúð með bílskúr. Þau eru meðal að minnsta kosti þriggja annarra grindvískra hjóna sem eru að skoða. Banka í veggi. Spyrja út í rafmagnið. Hvort þessi hillan eða hin sé veggföst. „Húsið okkar stendur stráheilt í Grindavík,“ segja þau á milli þess sem þau horfa rannsakandi í kringum sig í bílskúrnum. „En þar er ekkert rennandi vatn.“
Búa við hamarshögg
Arna: Við erum núna í leigu hjá Bríeti í fokhelda húsinu að Dalsbraut 1. Bjarg og Bríet keyptu allar íbúðirnar í þessu húsi.
Elli: Þeir eru nú langt komnir með það.
Arna: Við erum búin að búa við hamarshögg og borhljóð og vinnulyftur utan á húsinu í tvo mánuði.
Elli: Rosalegt ónæði.
Arna: Alla jafna væri ekki flutt inn í svona húsnæði. Þetta eru alveg fínar íbúðir, allt splunkunýtt. En við höfum þurft að flýja margsinnis út. Það er verið að bora í múr. Tíkin mín fékk málmflís upp í löppina um daginn. Þetta er ekki næs. Auðvitað eru allir að reyna sitt besta. Iðnaðarmennirnir eru bara að vinna sína vinnu. Og vinna langa vinnudaga og alla daga.
Eruð þið ákveðin í að reyna að kaupa einhvers staðar hér?
Elli: Sko, helst vil ég ekki vera á þessu svæði.
Arna: Við erum ekki alveg sammála um þetta. Sonur okkar er að klára Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vor. Dóttir okkar býr hérna uppi á Ásbrú. Við vorum nýlega búin að hjálpa henni að festa sér litla skonsu. Foreldrar mínir eru heimilislausir líka. Dvelja nú í Keflavík. Bræður mínir búa hérna báðir.
Elli: Ég er fæddur í Grindavík. Ég er orginal.
Arna: Ég flutti þarna fimm ára þannig að ég verð aldrei alveg orginal.
Þau horfa kankvís á hvort annað. Þetta er meira sagt í gríni en alvöru.
En samt.
Verðið rýkur upp
Eruð þið búin að vera að skoða fleiri eignir hérna?
Arna: Já.
Og hvernig er markaðurinn, er hann ekki orðinn svolítið …
Arna: Það er bara verið að græða á okkur. Ég ætla ekki að orða það á neitt kurteisari hátt. Ég er búin að vera að skoða markvisst í einn og hálfan mánuð. Og það bara rýkur upp verðið. Sambærilegar eignir sem ég byrjaði að skoða hafa hækkað. Við erum alveg að tala um 5–10 milljónir. Fasteignasalar og aðrir eru búnir að tala þetta upp. Eftirspurnin er mikil og fólk vill fá sem mest fyrir eignirnar sínar. Eðlilega. En það á ekkert að hlífa okkur, sko.
Eruð þið búin að ákveða að bjóða ríkinu húsið ykkar í Grindavík til kaups?
Arna: Já. Það er bara þannig.
Er þetta hús sem þið byggðuð?
Arna: Já. Árið 2005.
Þau verða bæði þögul um stund.
Elli: Við stóðum af okkur hrunið. Vorum búin að borga allt niður. En núna þetta.
Arna: Ég get ekki keypt sambærilega eign og þá sem við eigum í Grindavík. Hvergi. Ekki ef ég ætla að vera í svipaðri skuldastöðu og ég var. Við erum að fara úr húsi sem við skulduðum sautján milljónir í. Ef við ætluðum að ná sambærilegum lífsgæðum þá myndum við þurfa að skuldsetja okkur upp í 50 milljónir. Þannig að það eru allir að taka niður í lífsgæðum.
Það sem fyllti mælinn
Arna: Við erum 54 ára og vorum farin að huga að því að minnka við okkur. En þetta er að gerast í raun og veru 2 til 3 árum of snemma. Og ekki á okkar forsendum. Pælingin var að minnka við sig og eignast kannski húsbíl eða pening til að geta farið til útlanda.
Elli: Það hefur verið talað mikið um að búið sé að gera svo margt fyrir Grindvíkinga. Og það er rétt og maður er þakklátur fyrir það.
Arna: Já. Margt gott búið að gera. En sá sem hefur ekki upplifað þetta skilur þetta ekki. Við höfum heyrt að við séum frek, að Grindvíkingar séu frekir.
Elli: Já, sófasérfræðingarnir eru margir.
Arna: Það eru oft hversdagslegu hlutirnir sem fólk skilur ekki. Ég var ein í sumarbústað í Ölfusborgum í mánuð á meðan hann fór á sjó. Við vorum aðskilin. Við fengum þarna úthlutað hjá verkalýðsfélaginu og þáðum það, þorðum ekki öðru því við erum með hund. Það þýddi það að dóttir okkar þurfti að taka bróður sinn inn til sín. Svo hann gæti stundað skólann. Hún gekk úr rúmi fyrir hann og svaf í stofunni. Við fengum að vera frítt í Ölfusborgum. En ég borgaði örugglega 150 þúsund í akstur. Ríkið bætti það ekki. Þú ert að keyra fram og aftur og redda öllu. Við erum heppin, við erum bara búin að flytja þrisvar.
Svo eru hlutir sem hljóma kannski asnalega. Meðan Grindavík var opin þá var ég að reyna að hitta börnin mín einu sinni í viku. Og við keyrðum, ég frá Hveragerði og þau héðan, og áttum deit heima í Grindavík og bökuðum smákökur. Því það voru allir sammála um að það kæmu ekki jól nema að það kæmu smákökur. Við hittumst þrisvar og hnoðuðum. Í síðasta skiptið fór ég ein, rétt áður en Elli átti að koma í land, og gerði sörur.
Svo kom eldgos og allt lok, lok og læs. Og þá fór ég að gráta. Í fyrsta skipti eftir að þetta hófst allt saman. Eftir allan þennan akstur, eftir allt þetta sem ég var búin að leggja á mig. Þetta hljómar rosalega asnalega. Þetta eru smákökur! En þetta var bara það sem fyllti mælinn hjá mér.
Elli: Allar þessar hömlur.
Sjógallinn í skúrnum
Arna: Það hefur verið komið illa fram við Grindvíkinga. Að mörgu leyti. Mjög tilviljanakenndar ákvarðanir. Og ósveigjanlegar.
Elli: Það hefur kannski ekki farið framhjá neinum að heimamenn hafi gagnrýnt Almannavarnir fyrir eitt og annað. Sófasérfræðingarnir hafa þá spurt hvernig við dirfumst að gagnrýna Almannavarnir. Þvílík frekja og yfirgangur, hafa þeir sagt. En við vitum alveg hvernig landið liggur þarna heima. Við vorum að leika okkur í þessum sprungum og gjótum þegar við vorum krakkar.
Hefði þurft að treysta dómgreind heimamanna meira?
Elli: Já, það hefur verið talað um samráð [við staðkunnuga] en það fór eitthvað lítið fyrir því.
Arna: Elli átti að fara á sjó. Við geymum alltaf sjógallann hans og vinnufötin inni í bílskúr heima. Því þau lykta. En þá kom eitt helvítis gosið. Og allt lok, lok og læs. Bara LOKAÐ.
Elli: Á sama tíma voru fimmtíu píparar að störfum í Grindavík.
Arna: Við spurðum hvort það væri sjens að láta sækja sjódótið fyrir okkur. Eða að við fengjum að fljóta með einum píparanum að sækja þetta. Svo hann kæmist á sjó. Í vinnuna. En svarið var bara: Nei. Enginn sveigjanleiki.
Almannavarnir gengu í það að halda hita á húsunum þegar allt fór til fjandans. Við vorum því mjög fegin og þakklát. En núna vorum við að fá tvöfaldan hitareikning miðað við mánuðina á undan. Við erum búin að reyna að tala við hitaveituna og fáum svarið: Ja, þetta er bara samkvæmt mæli.
Elli: Þetta er hitavatnsneysla eins og það væru allir heima, potturinn alltaf í gangi og allar vélar. Alltaf verið að vaska upp.
Arna: Þetta skellur yfir mann í bylgjum. En við erum heppin miðað við mjög marga. Hann heldur sínu starfi á sjó. Það hafa margir misst vinnuna. Það eru alls konar aðstæður.
Eruð þið búin að bjóða í einhverjar eignir?
Elli: Nei, ekki enn þá.
Arna: Við gátum ekkert gert. Fyrr en svarið [um uppkaupin] var komið.
Elli: Það kannski breytist núna.
Athugasemdir