Fílar á Indlandi grafa dauða unga sína. Þessi ótrúlega staðreynd hefur komið fram í dagsljósið eftir að indverskir vísindamenn birtu fyrir örfáum dægrum niðurstöður rannsóknar sem þeir gerðu á fimm hræjum fílsunga. Vísindamennirnir fylgdust með fílahjörðum draga lík sumra unganna um langan veg — lengsta ferðin tók tvo sólarhringa — þangað til fílarnir fundu nógu mjúkan jarðveg sem þeir grófu síðan ungana í.
Greftrunarstaðirnir voru í öllum tilfellum teakrar, yfirleitt með skurðum til áveitu sem gerðu að verkum að auðvelt var fyrir dýrin að krafsa og grafa í jörðina. Ekki er hægt að útiloka að einhverjir unganna hafi dáið á staðnum þar sem skrokkarnir fundust en það er þó talið mjög ólíklegt.
Sennilega hafa allir ungarnir verið fluttir á staðinn eftir að þeir dóu.
Í þeim tilfellum þar sem vísindamennirnir urðu sjálfir vitni að fílunum flytja lík unganna á greftunarstað sást að það var öll hjörð viðkomandi fíla sem tók þátt í þessu, ekki einungis móðir eða faðir hins dána fílsunga.
Ungarnir voru grafnir liggjandi á bakinu með fæturna upp, sem sé í mjög „óeðlilegri“ stellingu af fílum að vera. Fæturnir stóðu raunar upp úr jörðinni svo lík fílsunganna voru ekki alveg hulin.
Vísindamenn hafa áður orðið vitni að því að fílar róti laufum og smágreinum yfir dauða unga en svona viðhafnarmiklar greftranir hafa ekki sést áður.
Hjá nokkurri dýrategund — nema manninum.
Ljóst mun vera að þótt greftrunarstaðirnir hafi verið skurðir grafnir af mönnum, þá voru þeir í öllum tilfellum á mjög fáförnum slóðum og því greinilegt að fílarnir ætluðust til þess að þeir yrðu látnir í friði.
Fílsungarnir fimm voru á aldrinum 3-12 mánaða og dóu af ýmsum náttúrulegum ástæðum, sem kallað er, flestir af næringarskorti en hvort það var beinlínis vegna skorts eða sjúkdóma hefur ekki verið rannsakað til fulls ennþá.
Auk fíla hafa menn hingað til séð gíraffa, pekkarísvín, simpansa, bavíana og makakíapa og örfáar dýrategundir aðrar sýna látnu ungviði einhvers staðar virðingu eða áhuga en aldrei neitt í líkingu við það sem indversku vísindamennirnir hafa nú uppgötvað í fari indversku fílanna.
Bæði hér og hér líka má lesa um rannsókn Indverjanna en hana leiddu Parveen Kaswan og Akashdeep Roy.
Vísindamennirnir reyna ekki einu sinni að setja fram kenningar um hvað vaki fyrir dýrunum með þessari umhyggjusemi við lík unganna sinna.
Það má hver sem les hugleiða fyrir sig.
Myndirnar hér að neðan fylgdu rannsókn vísindamenn eins og hún var kynnt í vefritinu Journal of Threatened Taxa.
Athugasemdir (1)