Undirskriftalisti hefur verið stofnaður þar sem skorað er á stjórnvöld til þess að borga út eignir þeirra Grindvíkinga sem óvissir með að flytja aftur í bæinn. Gossprunga opnaðist í hádeginu í dag skammt frá nyrstu hverfum Grindavíkur, og hraunið hefur þegar flætt og gjöreyðilagt tvö hús í hverfinu Efrahóp.
Ábyrgðamaður undirskriftarlistans, Birgir Örn Harðarson, segir í samtali við Heimildina að fólk sem vilji komast frá Grindavík vilji láta borga sig út úr fasteignum sínum. „Ég ákvað bara að búa til þennan lista uppá það að fá tölu á þá sem vilja fá borgað út. Og ég bara innilega vona að þetta gangi upp útaf því hvernig ástandið er núna.“ Alls hafa 333 skrifað undir listan þegar þessi frétt er skrifuð.
Hraunið er, enn sem komið er, ekki komið nálægt húsi Birgis, sem segist hafa ætlað að fara til Grindavíkur í morgun til þess að taka myndir af húsi sínu til að senda á náttúruhamfaratryggingarnar. „Það er komin skekkja á húsið og ég ætlaði að fara í dag að taka myndir.“
Samkvæmt tölum sem Heimildin fékk frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í nóvember nam heildarfasteignamat eigna í Grindavík 92,4 milljörðum króna á árinu 2023, á meðan að brunabótamat sömu fasteigna stóð í 141,2 milljörðum króna.
Þegar einungis er horft til einbýlishúsa, sem eru hlutfallslega stór hluti eigna í Grindavík, var samanlagt fasteignamat þeirra rúmir 34 milljarðar króna en brunabótamatið nam rúmum 39,9 milljörðum króna.
Sumir vilja fara og aðrir vilja vera eftir
Í færslu sem Dagmar Valsdóttir, viðskiptafræðingur, birti á Facebook-síðunni Íbúar í Grindavík í gær, veltir Dagmar fyrir sér hversu margir Grindvíkingar vilja flytja á brott og fá heimili sín greidd út af ríkinu og stofnar til óformlegar könnunar. Alls tóku 346 manns þátt í könnuninni. Samkvæmt niðurstöðum vill meirihluti, 69 prósent, fá eignir sínar greiddar út. Hins vegar vilja 25 prósent þáttakenda könnunarinnar búa áfram í Grindavík.
Í samtali við Heimildina segir Dagmar að hún telji, eftir atburði dagsins, að þeim hafi sennilega fjölgað sem vilja fá hús sín greidd út. Sjálf á Dagmar tvö hús í Grindavík og getur ekki hugsað sé að flytja þangað aftur.
Umræðan um að fá húsnæðin bætt hefur átt sér stað um nokkurt skeið, en áður en gosið hefur umræðan einkennst af talsverðri óvissu. Færslan hafi verið tilraun þess að fá skýrari mynd á það hvað fólkið í Grindavík vill.
„Fólk hefur verið að tala um að ekkert verði gert og það muni standa upp með kostnaðinn. Fyrst vil ég bara sjá hversu margir eru til í ef við þurfum að mótmæla því að við séum með verðlausa eign. Og við getum ekki sagt að það var ekki gert neitt ef við höfum ekki einu sinni ákveðið sinni hverjir vilja og hverjir vilja ekki fá aðstoð. Og hvernig aðstoð. Við getum ekki ætlast til þess að ríkisvaldið viti hvað eigi að gera nema við séum með einhverskonar könnun yfir því.“
Þá segist Dagmar hafa skrifað undir undirskriftalistann sem Birgir Örn Harðarson birti á Ísland.is.
Athugasemdir (2)