Utanríkisráðuneytið hafnar kenningu um að fjárframlög Íslands til flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna gagnvart Palestínu séu notuð til þess að fjármagna hryðjuverkastarfsemi Hamas. Heimildin sendi fyrirspurn á ráðuneytið í kjölfar opinberrar umræðu þar sem því er haldið fram að samtök á borð við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna gagnvart Palestínu (UNRWA) aðstoði, ýmist beint eða óbeint, Hamas-samtökin og árásir þeirra á Ísrael.
Slíka umræðu má til að mynda sjá í færslu sem Stefán Einar Stefánsson, fyrrverandi formaður VR og þáttastjórnandi hjá mbl.is sem stýrir meðal annars umræðuþættinum Spursmáli, birti fyrr í þessari viku á Facebook-síðu sinni. Þar deilir hann frétt mbl.is þar sem sagt er frá jarðgöngum sem fundist undir Gasa. Í fréttinni kemur fram ísraelski herinn telji að Hamas-samtökin hafi grafið göngin og varið til þess umtalsverðum fjármunum. Göngin eru sögð vera afar stór og talin þjóna þeim tilgangi að gera Hamas-liðum kleift að ráðast gegn Ísrael.
„Hér getur að líta hernaðarmannvirki sem meðal annars hafa verið reist fyrir íslenska skattpeninga,“ segir Stefán Einar. „Fjármagnið sem góða fólkið á Íslandi lætur af hendi rakna frá öðrum, svo það geti sjálft sofið betur og hossað sér. Það er alltaf þægilegra að gera það á annarra kostnað, fremur en sinn eigin,“ bætir hann við.
Stefán Einar gekk lengra í annarri færslu þar sem hann deildi frétt mbl.is um að Hamas-liðar væru grunaðir um að hafa undirbúið árásir í Evrópu. Þar varaði hann við áhrifum þess að hægja á aðgerðum til að uppræta Hamas-liða á Gasasvæðinu. „Næst koma þeir á eftir okkur. Og eina vonin er sú að hægt sé að eyða þeim af yfirborði jarðar. Takist það ekki munu saklausir borgarar í Evrópu, jafnvel á Íslandi, liggja í valnum.“
Tekist hefur verið á um það á alþjóðasviðinu hvort knýja eigi Ísrael til að vinna að vopnahléi á Gasa, þar sem um 20 þúsund manns, stór hluti börn, hafa látist í linnulitlum loftárásum á þéttar byggðir Gasasvæðisins. Innrás Ísraelshers í Gasa kom í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas á nálægar byggðir í Ísrael, þar sem 1.200 manns, flest óbreyttir borgarar, létust.
Þegar Stefán er spurður undir færslu sinni um heimildir fyrir því að fjármögnunin sé með þeim hætti sem hann fullyrðir svarar hann með því að birta vefslóð á síðu Sjálfstæðisflokksins þar sem tilkynnt er um að Ísland hafi tvöfaldað framlag sitt til mannúðaraðstoðar á Gasa. Má af þessu svari skilja að Stefán telji gjafafé sem lagt er til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, fari í að fjármagna hryðjuverkastarfsemi Hamas-samtakanna.
Svör utanríkisráðuneytisins
Heimildin leitaði svara hjá utanríkisráðuneytinu um rekjanleika fjárframlaga til flóttamannahjálparinnar. Í svörum utanríkisráðuneytisins segir að „allar rökstuddar grunsemdir um misnotkun á fjármunum og starfsstöðvum UNRWA eru teknar alvarlega og rannsakaðar ofan í kjölinn“. Það sé gert reglulega bæði af innra eftirliti stofnunarinnar og af óháðum eftirlitsaðilum af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Þá sinni gjafaríki, sérstaklega þau stærstu, nánu eftirliti með starfseminni.
Í svari utanríkisráðuneytisins er einnig bent á nýlega úttekt sem gerð var á UNRWA í kjölfar ákvörðunar sænskra yfirvalda um stöðva allar greiðslur til þróunarsamvinnu í Palestínu eftir hryðjuverkaáras Hamas þann 7. október síðastliðinn.
Úttektinni lauk nýverið og voru engar athugasemdir gerðar við innra eftirlitskerfi UNRWA. Þá kom sömuleiðis fram í úttektarskýrslunni að „eftirlitsferlar stofnunarinnar lágmarki áhættuna á misferli með fjármuni.“
Ekki náðist í Stefán Einar við vinnslu fréttarinnar.
Viðrar áhyggjur af sniðgöngu
Stefán Einar hefur í dag haldið áfram að láta til sín taka í umræðu um málefni Ísraels og Palestínu. Undir Facebook-færslu Karenar Kjartansdóttur almannatengils lýsir hann áhyggjum af andmælum almennings gegn viðskiptum íslenskra fyrirtækja við ísraelska færsluhirðafélagið Rapyd, en forstjóri og eigandi félagsins hefur opinberlega hvatt til útrýmingar allra Hamas-liða, líkt og Stefán Einar.
Hvar halda blábjánarnir að þetta endi?“
„Þetta er orðið gjörsamlega geðtrufluð slaufunarmenning. Hvar halda blábjánarnir að þetta endi?“ spyr hann.
Forsaga þess að hvatt hefur verið til sniðgöngu á félaginu er að forstjóri þess, Arik Shtilman, hafði svarað gagnrýni Íslendings á stuðning við árásina á Gasa með þeim hætti að hann vildi „drepa hvern einasta Hamasliða og eyða þeim“ og þegar hann var spurður út í tilkostnaðinn lýsti hann yfir: „Hvað sem það kostar“.
Ísland greiddi nýverið atkvæði með ályktun allsherjarráðs Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust vopnahlé á Gasa til þess að vernda almenna borgara þar frá sprengjuárásum Ísraela. Aðeins tíu ríki voru mótfallin. Áður, 27. október síðastliðinn, hafði Ísland setið hjá í atkvæðagreiðslu um sambærilega ályktun vegna ósamkomulags um orðalag.
Stofnun til hjálpar palestínsku flóttafólki
Flóttamannahjálp S.Þ. gagnvart Palestínu er stofnun sem komið var á laggirnar árið 1949 með ályktun Sameinuðu þjóðanna og hafði þann tilgang að aðstoða þá rúmlega 700.000 Palestínumenn sem voru þá á flótta í kjölfar fyrsta stríðs Ísraels og Araba 1948. Stofnunin hefur síðan haldið áfram að veita víðtæka mannúðaraðstoð, til dæmis heilbrigðisþjónustu, húsnæði og skólakennslu, fyrir palestínska flóttamenn á Vesturbakkanum, Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon og á Gazasvæðinu. Þá sér stofnunin um að dreifa hjálpargögnum til þeirra sem eru í bráðri neyð.
Í svörum utanríkisráðuneytisins segir að UNRWA sé orðinn helsti viðbragsaðili Sameinuðu þjóðanna á Gaza í þeirri neyð sem nú ríkir. Þá segir einnig í svari ráðuneytisins að tæplega 1,4 milljónir flóttamanna hafa leitað skjóls í neyðarskýlum UNRWA sem alla jafnan hýsa skólastarf og aðra þjónustu á vegum stofnunarinnar.
Ásakanirnar ekki nýjar af nálinni
Kenningarnar sem tíundaðar eru í yfirlýsingum Stefáns hafa áður komið fram. Stofnanir, eins og UNRWA, hafa verið sakaðir um að styðja við palestínskan skæruhernað um langt skeið, ýmist með beinum eða óbeinum hætti. Þessar ásakanir hafa nú komist í hámæli á ný í ljósi átakanna sem nú standa yfir.
Fyrr í þessum mánuði gaf Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna gagnvart Palestínu út yfirlýsingu þar sem slíkum ásökunum var hafnað og þær sagðar órökstuddar. Þá kallaði stofnunin eftir því að blaðamenn, sem hafa birt slíkar fullyrðingar, færi rök fyrir sínu máli eða dragi til baka ásakanirnar, sem stofnunin álítur grafalvarlegar.
Athugasemdir (6)