Sjúkratryggingar Íslands ætla að framlengja samninginn við einkareknu heilbrigðisfyrirtækin Klíníkina og Cosan um liðskiptaaðgerðir með kostnaðarþátttöku íslenska ríkisins. Framlengingin verður byggð á því hversu margar liðskiptaaðgerðir þessi fyrirtæki hafa gert á þessu ári með greiðsluþátttöku íslenska ríkisins á þessu ári. Þar af leiðandi má segja að byggt sé á aðgerðareynslu þessara fyrirtækja þegar næsti kvóti af liðskiptaaðgerðum verður gerður með greiðslum frá ríkinu. Fyrirtækjunum var tilkynnt um þetta í síðustu viku samkvæmt heimildum blaðsins.
Um er að ræða framlengingu á umdeildum samningi sem Sjúkratryggingar Íslands gerðu við fyrirtækin í mars á þessu ári þar sem þær fengu leyfi til að gera 700 liðskiptaaðgerðir með kostnaðarþátttöku ríkisins. Þetta er í fyrsta skipti í Íslandssögunni sem íslenska ríkið útvistar slíkum aðgerðum til einkafyrirtækja með fjárveitingu frá ríkinu í gegnum útboð.
Klíníkin fékk úthlutað 300 aðgerðum en Cosan, sem er einkarekið fyrirtæki í eigu bæklunarskurðlækna á Landspítalanum fékk 400 aðgerðir. Svo fór að Klíníkin náði að gera allar þessar aðgerðir og fleiri til en Cosan náði ekki að klára þær aðgerðir sem fyrirtækið gerði samninginn. Klíníkin gerði því miklu fleiri aðgerðir á þessu ári og fá því fleiri aðgerðir með framlengingunni á samningnum.
Fjöldinn sem fyrirtækið fær byggir því á aðgerðareynslu með sams konar hætti og kvótinn sem einstaka sjávarútvegsfyrirtæki fengu á sínum tíma, eða þegar nýjar einstaka fisktegundir eins og makríll eru kvótasettar, byggði á veiðireynslu fyrri ára.
„Sjúkratryggingar hafa í skoðun hvort mögulegt sé að framlengja núgildandi samninga um framkvæmda liðskiptaaðgerða á grundvelli fjárveitingar í fjárlögum ársins 2024.“
Stefnt að því samþykkja fjárveitingu á fjárlögum 2024
Í erindi Sjúkratrygginga Íslands þar sem framlengingin á samningnum er kynnt segir: „Sjúkratryggingar hafa í skoðun hvort mögulegt sé að framlengja núgildandi samninga um framkvæmda liðskiptaaðgerða á grundvelli fjárveitingar í fjárlögum ársins 2024, þar til hægt er að ljúka nýju innkaupaferli. Með þessu væru núgildandi samningar framlengdir til allt að 31. mars 2024, með tilteknum breytingum. Fjöldi umsaminna aðgerða myndi taka mið af framleiðslu og framleiðslugetu verksala hingað til, þó þannig að umsaminn fjöldi aðgerða yrði að jafnaði lægri á mánuði en hefur verið á árinu 2023.“
Í erindinu segir að forsenda fyrir þessu sé sú að fjárveitingar til verkefnisins verði samþykktar á fjárlögum árið 2024. Nú í mars voru 700 aðgerðir boðnar út og var fjárframlagið sem var eyrnamert verkefninu 700 milljónir.
Heimildin sendi spurningar til Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytisins um liðskiptaaðgerðirnar og fleiri mál fyrir mánuði síðan en hefur ekki enn fengið svör við þeim.
Aðgerðunum beint til Klíníkurinnar
Eins og Heimildin hefur fjallað um þá eru uppi áhyggjur hjá stjórnendum í opinbera heilbrigðiskerfinu að heilbrigðisyfirvöld séu að ýta verkefnum í auknum mæli til Klíníkurinnar. Eins og einn stjórnandi í heilbrigðiskerfinu, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði við Heimildina: „Það er bara verið að koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi á Íslandi.“ Annar starfandi læknir á sjúkrahúsi sagði: „Það er bara verið að veikja sjúkrahúsin og hola heilbrigðiskerfið að innan.“
Eitt af því sem rennir stoðum undir tilgátur um að stjórnvöld séu að ýta verkefnum til Klíníkurinnar er að útboðið á liðskiptaðgerðum í mars var ekki vel kynnt og leit út fyrir að eina tilboðið sem bærist í aðgerðirnar kæmi frá Klíníkinnii. Forsvarsmenn Cosan settu hins vegar fram tilboð með nokkrum hraði, líkt og fjallað hefur verið um í blaðinu, eftir að þeim varð ljóst að verið væri að bjóða þessar liðskiptaðgerðir út og fengu aðgerðir. Þeirra fyrirtæki hafði hins vegar ekki sömu forsendur til að gera aðgerðirnar og Klíníkin hafði.
Þetta sést svo meðal annars á þeirri staðreynd að Klíníkin kláraði sínar liðskiptaaðgerðir sem íslenska ríkið greiddi fyrir en Cosan ekki. Nú á umbuna Klíníkinni fyrir þetta með því að úthluta fleiri aðgerðum til þeirra og færri til Cosan.
Annað sem hefur ýtt undir umræðu einkennileg tengsl heilbrigðisráðuneytisins og Klíníkurinnar er að fyrrverandi aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, Guðrún Ása Björnsdóttir, tekur við framkvæmdastjórastarfi Klíníkurinnar um áramótin.
Athugasemdir (2)