„Enda veit ég ekkert hvernig þessi ákvörðun mun endanlega hafa áhrif á mitt líf til framtíðar,“ sagði Geirþrúður Gunnhildardóttir, 48 ára gömul kona, í bréfi til skurðlæknisins Aðalsteins Arnarssonar sem hún hafði farið í magaermisaðgerð hjá í ársbyrjun 2021. Bréfið var sent í tölvupósti segir hún. Heimildin fjallar um mál Geirþrúðar í nýjasta tölublaði sínu og greinir frá upplifun hennar af þjónustu Klíníkurinnar sem hún lýsir sem „kaldri“ og líkir við að vera í „verksmiðju“.
„Eftir á að hyggja var þetta mjög slæm ákvörðun.“
Í bréfinu, sem hún sendi til Aðalsteins um sumarið 2021, sagði Geirþrúður við Aðalstein að hann hefði ekki átt að gera skurðaðgerðina á henni þar sem hún var nýbúin að greinast með krabbamein þegar hún fór í hana og að afleiðingarnar hafi verið miklar fyrir hana: „Á þeim tíma er ég í hálfgerðu sjokki vegna þess að ég hafði verið greind með krabbamein vikuna áður, sem ég sagði þér frá, og finnst mér að þú hefðir þá ekki átt að taka þá ákvörðun um að framkvæma þessa aðgerð.“ Hún fór svo í uppskurð vegna krabbameinsins rúmum mánuði eftir aðgerðina.
Viðtalið er hluti af umfjöllun Heimildarinnar um þá þöglu einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu sem fer nú fram í ráðherratíð Willums Þórs Þórssonar. Eftir að hann tók við sem heilbrigðisráðherra í lok árs 2021 hafa verið tekin ný skref í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, eins og liðskiptaaðgerðir einkaaðila með kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, og hefur Willum Þór boðað enn frekari breytingar í þessa átt. Ein af þessum fyrirhuguðu breytingum er að efnaskiptagerðir, eins og magaermisaðgerðin sem Gunnhildur fór í, verði gerðar með kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands af einkafyrirtækjum eins og Klíníkinni. Raunar er Klíníkin eina einkafyrirtækið sem gerir slíkar efnaskiptaaðgerðir hér á landi.
Bað um að þurfa ekki að borga fyrir aðgerðina
Í bréfinu fór Geirþrúður fram á það við Aðalstein að hún yrði ekki rukkuð fyrir aðgerðina þar sem hún hefði haft svo slæm áhrif á heilsufar hennar. Geirþrúður greiddi tæplega 1300 þúsund krónur fyrir aðgerðina en þar með var ein milljón á raðgreiðsluláni sem hún er ennþá að borga af. Raðgreiðslulánið sem hún tók var til þriggja ára.
Í bréfinu sagði Geirþrúður um þetta: „Eftir á að hyggja var þetta mjög slæm ákvörðun, þar sem krabbameinsmeðferðin ein og sér veldur miklum erfiðleikum við að nærast hvað þá heldur eftir magaermisaðgerðina. Þá hefur mitt ástand verið mjög alvarlegt og ég er inniliggjandi á spítala með næringu í gegnum sondu. Nú er svo komið að fjárhagsleg staða mín hefur snarversnað vegna krabbameinsmeðferðarinnar og tel ég, í ljósi aðstæðna, réttlætanlegt af minni hálfu að fara fram á við þig að þú rukkir mig ekki fyrir þessa aðgerð.“
Í samtali við Heimildina segir Geirþrúður að hún hafi sent bréfið nokkrum mánuðum eftir aðgerðina þegar hún var byrjuð að jafn sig eftir það sjokk sem krabbameinsgreiningin, magaermin og krabbameinsmeðferðin hafi verið í lífi. „Þarna var ég aðeins að ranka við mér,“ segir hún.
Hún segir að svarið sem hún fékk frá Aðalsteini hafi verið stutt og að hann hafi bent henni á að tala við tiltekið tryggingafélag vegna málsins. Geirþrúður hélt því áfram að greiða fyrir magermisaðgerðina og er enn að því. Hún segist ekki eiga svarbréfið frá Aðalsteini þar sem hún hafi líklega eytt því.
Framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, Sigurður Ingibergur Björnsson, hefur ekki viljað veita Heimildinni viðtal þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um það.
Athugasemdir (1)