„MAST gerði frumrannsókn á myndbandinu en vísaði málinu svo til lögreglunnar. Málið er því á borði þeirra,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar (MAST), spurð um viðbrögð stofnunarinnar við nýrri heimildarmynd dýraverndunarsamtaka um blóðtöku úr fylfullum hryssum á Íslandi. Myndin sýnir illa meðferð á hryssum, að í þær sé sparkað og þær ítrekað stungnar með nál í háls í leit að æð til blóðsýnatöku. Þá sést að þeim er smalað á bíl og legið á flautunni sem hræðir þær. Skelfingarástand skapast í kjölfarið í gerði sem merunum er smalað inn í ásamt folöldum sínum sem skapar hættu á meiðslum.
Myndefnið var tekið upp á tveimur bæjum nú í ágúst þar sem blóðmerahald er stundað. Á öðrum þeirra eru hryssurnar meðhöndlaðar af yfirvegun en sýna engu að síður margvísleg hræðslumerki. Á hinum bænum er komið fram við þær af kaldlyndi og hörku.
Þýsku og svissnesku dýraverndunarsamtökin Animal Welfare Foundation og Tierschutzbund Zürich (AWF og TSB) hafa nú í fjögur ár rannsakað blóðmeraiðnaðinn á Íslandi. Fyrri heimildarmynd þeirra var frumsýnd í nóvember árið 2021 og vakti mikla reiði í íslensku samfélagi sem og út fyrir landsteinana. Í henni sást að merar voru lamdar, stundum með bareflum. Þá mátti sjá hvernig höfuð þeirra voru bundin upp, reigð aftur, og til þeirra slegið ef þær reyndu að losa sig, án þess að eiga þess nokkurn möguleika.
Ísteka, fyrirtækið sem kaupir merarblóðið og selur það til Evrópu, aðallega Þýskalands, til framleiðslu á frjósemislyfi fyrir búfé, aðallega til svínaræktar, brást við með því að segja upp samningum við þá tvo blóðbæi sem myndefnið var frá. MAST hóf rannsókn á málinu og vísað í því í kjölfarið til lögreglunnar á Suðurlandi sem felldi rannsókn þess niður nú í byrjun árs. Var það sagt vegna skorts á gögnum, þar sem AWF og TSB hefðu neitað að afhenda myndefni. Það var rangt líkt og rakið var í frétt Heimildarinnar í sumar.
Blóðtakan heyrir undir reglur um tilraunadýr
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði starfshóp til að fjalla um lagalega umgjörð blóðmerahalds. Sú umgjörð var vægast sagt veik og eftir að starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í fyrrasumar setti Svandís sérstaka reglugerð um blóðiðnaðinn. Hún var þó ekki lengi í gildi, aðeins í 15 mánuði, þar sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi stjórnvöldum áminningarbréf og taldi að starfsemin ætti að falla undir reglugerð um vernd dýra sem notuð séu í vísindaskyni. Á það féllst ráðuneytið og reglugerð Svandísar var brottfelld nú í byrjun nóvember.
„Umsókn fyrirtækisins verður hins vegar bara metin út frá núgildandi reglugerð og ekkert hægt að segja til um hvernig sú umfjöllun endar.“
Það að iðnaðurinn falli nú undir fyrrgreinda reglugerð um dýr sem notuð eru í vísindaskyni ætti að breyta öllu að mati AWF og TSB. Þannig þurfi MAST nú að skoða hvort að hægt sé að nota önnur efni eða aðrar leiðir en meðgönguhormón úr fylfullum hryssum til að auka og samstilla frjósemi búfénaðar. Samtökin telja hiklaust að svo sé, á markaði séu fjölmörg lyf sem hafi sambærileg áhrif og að auki sé hægt að ná tilætluðum áhrifum með náttúrulegum leiðum. Það hafa m.a. svissneskir svínabændur margir hverjir gert eftir að notkun á hormónalyfinu var bönnuð þar í landi.
Hver blóðbóndi þyrfti að sækja um starfsleyfi
Heimildin spurði forstjóra MAST hvað þessi breyting á regluumhverfi blóðmeraiðnaðarins gæti þýtt. Hún segir að nú þurfi Ísteka að sækja bæði um starfsleyfi og leyfi til tilrauna. „Eins og með aðrar umsóknir til tilrauna þá er það á höndum Matvælastofnunar að meta umsóknina og eftir atvikum að veita framangreind leyfi eftir að fagráð um velferð dýra hefur fjallað um hana og veitt umsögn,“ heldur Hrönn áfram. Hún bendir á að MAST hafi áður gefið út leyfi til blóðtöku á hryssum til lyfjaframleiðslu á grundvelli þágildandi reglugerðar um dýratilraunir, nr. 279/2002, síðast árið 2016 og gilti það leyfi út árið 2019.
„Umsókn fyrirtækisins verður hins vegar bara metin út frá núgildandi reglugerð og ekkert hægt að segja til um hvernig sú umfjöllun endar,“ segir Hrönn. „Ef leyfi verður veitt til Ísteka, þá munu ákvæði um velferð hryssna við blóðtöku sem áður voru í reglugerð [Svandísar] halda gildi sínu sem verklagsreglur Matvælastofnunar, enda er engin sambærileg ákvæði að finna í reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni. Ef leyfið verður veitt munu bændur verða skilgreindir sem birgjar samkvæmt reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni og þurfa að sækja um starfsleyfi sem slíkir. Matvælastofnun metur umsóknir og veitir starfsleyfi eftir atvikum til birgja.“
Hér að neðan er að finna nýju heimildarmynd AWF og TSB. Í myndinni sést ill meðferð á dýrum.
Athugasemdir