Skjálftavirkni um þremur kílómetrum norður af Grindavík tengist því nú að kvikugangur er að ryðja sér leið til yfirborðsins, samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands og yfirlýsingum almannavarna. Varðskip er á leiðinni til Grindavíkur að beiðni almannavarna og fjöldahjálpastöðvar hafa verið opnaðar.
„Mjög skýr merki koma nú fram á mælum Veðurstofu um myndun kvikugangs til yfirborðs. Áfram eru mestar líkur á að kvika komi upp norðan vatnaskila við Sundhnúka og því mun hraun ekki renna til Grindavíkur í samræmi við hraunflæðilíkan sem keyrt var fyrr í kvöld,“ sagði í yfirlýsingu almannavarna klukkan níu í kvöld.
Þar kom fram að hraun myndi að líkindum renna til suðausturs eða vesturs.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur, sem hefur undanfarið gagnrýnt skort á forvarnaraðgerðum vegna líklegs eldgoss, segir nú að hann búist við eldgosi eftir fjórar til sex klukkustundir, eða nótt, í síðasta lagi um hádegi á morgun.
Hann er ósammála mati almannavarna á því hvar gosið muni koma upp á yfirborðið. Það muni að líkindum ekki koma upp við Sundhnúkagíga, sem standa við Grindavíkurveg, heldur vestar, við Illahraunsgíga, nálægt Bláa lóninu, eða enn vestar við Eldvörp, sem væri betri staðsetning.
Harðir skjálftar hafa riðið yfir Reykjanesið seinni partinn í dag og í kvöld. Hrunið hefur úr hillum í verslun Nettó í Grindavík og voru viðskiptavinir beðnir að yfirgefa hana. Grindavíkurvegur, leiðin frá bænum til norðurs, rofnaði vegna sprungu skammt frá bænum. Margir hafa kosið að yfirgefa bæinn en almannavarnir segja ekki ástæðu til að fara enn.
„Þetta gæti verið upphafið að því ferli sem við höfum verið að bíða eftir, að kvika brjóti sér leið til yfirborðs en það eru samt engar vísbendingar um að það sé að gerast enn. Þannig að það er ekkert eldgos að byrja, alla vegana ekki á næstunni og engar rýmingar eða neitt slíkt,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að gosið gæti innan nokkurra klukkustunda, en líklegra að það gerist eftir einhverja daga.
Þrátt fyrir orð Víðis Reynissonar hafa margir íbúar yfirgefið bæinn í dag og kalla sumir eftir því að almannavarnir boði til rýmingar í skilaboðum til lögreglunnar á Suðurnesjum.
Upptök skjálftanna eru aðeins um þremur kílómetrum norðaustur af Grindavík, nærri Sundhnjúkagígum, aðeins um tveimur kílómetrum austan við Bláa lónið. Samkvæmt mati Veðurstofunnar myndi hraun, sem kæmu upp úr sprungu á þessum stað, ekki renna til Grindavíkur, heldur til vesturs og suðausturs.
Samkvæmt yfirlýsingu Veðurstofunnar eru skjálftarnir að mælast grynnst á 3 til 3,5 kílómetra dýpri, en þyrftu að mælast enn nær yfirborðinu til þess að líklegt væri að gos kæmi upp.
„Þau merki sem sjást núna við Sundhnjúkagíga eru sambærileg þeim sem sáust í aðdraganda fyrsta gossins við Fagradalsfjall 2021 og svipar mjög til skjálftavirkninnar sem mældist um mánuði fyrir gos. Ef sú atburðarrás er skoðuð sem endaði í eldgosinu sem hófst 19. mars og á meðan að skjálftvirknin grynnkar ekki verulega úr því sem komið er þá erum við líklega að horfa til nokkura daga áður frekar en klukkustunda áður en kvika nær til yfirborðs. Ef sprunga kæmi upp þar sem skjálftavirknin er hvað mest núna, myndi hraun renna til suðausturs og til vesturs en ekki í átt til Grindavíkur,“ segir á vef Veðurstofunnar klukkan 19 í kvöld.
Íbúar á Suðurnesjum hafa rætt saman á Facebook og sett ummæli undir færslu á síðu fréttavefsins Víkurfrétta.
„Loksins,“ sagði íbúi í Grindavík, þegar almannavarnir lýstu hættustigi skömmu fyrir kvöldmat.
Íbúar í Grindavík, Njarðvík og Keflavík lýsa allir óþægindum.
„Þetta er hrein skelfing,“ segir Guðbrandur Einarsson þingmaður, búsettur í Keflavík. Guðný Benediktsdóttir í Innri Njarðvík segir: „Hræðsla lýsir tilfinningunum núna hvað best.“ Ryan Oliver Mikulcik: „Þetta er byrjað að vera frekar ógnvekjandi. Er í Innri Njarðvík. Húsið allt á iði.“
Ragnhildur Ingibjörg Ólafsdottir í Innri Njarðvík segir: „Er að reyna vera róleg fyrir börnin en viðurkenni þetta hræðir mig.“
„Er í Njarðvík, líður ömurlega,“ segir önnur.
Í færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands kemur fram að líklegast sé um að ræða öflugustu skjálftahrinuna á Reykjanesi á undanförnum árum. „Enn færist í aukanna og ljóst að miklar hamfarir eru í gangi,“ segir á Facebook-síðu hópsins. „Er þetta að líkindum öflugasta og þéttasta hrinan sem gengið hefur yfir á Reykjanesskaga á síðustu árum.“
Skömmu fyrir klukkan átta í kvöld tilkynnti almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra að fjöldahjálpastöðvar yrðu opnaðar og að varðskipið Þór myndi sigla til Grindavíkur, væntanlegt í nótt. „Fjöldahjálparstöðvar verða opnaðar á næsta klukkutímanum (þetta er skrifað 19:50) í Íþróttahúsinu í Grindavík, Vallarskóla á Selfossi, Íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ og í Kórnum í Kópavogi. Í Grindavík er stöðin aðeins til söfnunar og upplýsinga og ef fólk þarf aðstoð við að fara annað,“ segir í tilkynningunni.
Athugasemdir