Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Áttunda heimsálfan er fundin: Zealandía, gerið svo vel

Zealandía eða Te Riu-a-Māui er ekki mjög stór en þó 50 sinn­um stærri en Ís­land. Og þar gæti ým­is­legt hafa gerst.

Áttunda heimsálfan er fundin: Zealandía, gerið svo vel
Zealandía er enn nokkuð nálægt „systur sinni“ Ástralíu en leynist mestöll á 1-2 kílómetra dýpi.

Meginlöndin eða heimsálfurnar eru sjö, það vitum við.

Afríka, Antartíka, Asía, Ástralía, Evrópa, Norður-Ameríka, Suður-Ameríka.

Uuu, nei, segja vísindamenn núna. Meginlöndin eru átta. Við erum búnir að finna það áttunda og við höfum meira að segja gefið því nafn.

Við höfum sem sé ákveðið að kalla hina nýju heimsálfu Zealandíu, sögðu þeir. Nema hvað hún fékk líka annað nafn úr tungu Maóría á Nýja Sjálandi: Te Riu-a-Māui.

Það þýðir „fjöll, dalir og sléttur hetjunnar Māui“.

Hún er svo sem ekki mjög stór, Zealandía, hið minnsta af öllum meginlöndunum, en samt rétt tæpar 5 milljónir ferkílómetra.

Það þýðir að Zealandía er um 70 prósent af Ástralíu. Tvö og hálft Grænland þyrfti til að slaga upp í Zealandíu. Heimsálfan eða meginlandið er góðum sjónarmun stærra en Indland (4,5 milljónir ferkílómetra) og mun stærra en Arabíuskagi (3,2 milljónir).

Og Zealandía er 50 sinnum stærri en Ísland.

En hvar er þá þessi heimsálfa, þetta meginland? Ekki er hana að sjá á neinu korti.

Nei, vissulega ekki. Reyndar má sjá um 6 prósent Zealandíu en afgangurinn er okkur hulinn neðansjávar. Því Zealandía er mestöll sokkin í sjó.

Tilvist Zealandíu hefur verið kunn um skeið. Bandarískur jarðvísindamaður að nafni Bruce Luyendyk var sennilega fyrstur til að láta sér detta í hug að Zealandía væri til. Það var árið 1995. Hugmyndum hans var ekki tekið með neinum húrrahrópum en þegar kom fram á þessa öld fóru æ fleiri vísindamenn að rannsaka málið og brátt kom sannleikurinn í ljós.

Áttunda meginlandið er vissulega til.

Og nú á dögunum var svo birt nákvæm rannsókn á því sem nú er vitað um Zealandíu og það reynist þá vera orðið heilmikið.

Og meira að segja búið að teikna kort af þessu týnda meginlandi.

En hvar er Zealandía og hvers vegna er mestallt þetta meginland á hafsbotni?

Gríðarleg eldvirkni var lengi á Zealandíu.

Sú var tíð, segir í bókum, að öll meginlönd Jarðar voru saman í einni kös, Pangeu. Svo tók Pangea að klofna í sundur en hópur meginlanda á suðurhveli hélt lengi hópinn og hefur sá hópur verið kallaður Gondwanaland.

Suður-Ameríka og Afríka og Indland og Ástralía.

Þetta höfum við lengi vitað.

En nú er sem sé komið á daginn að austasti hluti Gondwanalands var hið áður óþekkta meginland Zealandía.

Þetta var langt og fremur mjótt svæði, tengt Ástralíu í norðri en Antartíku í suðri. 

Og þegar Gondwanaland byrjaði að klofna í sundur klofnaði Zealandía smátt og smátt frá systurheimsálfum sínum og tók að sigla ein í hafinu.

Klofningurinn hófst fyrir nærri 150 milljónum ára en var líklega lokið fyrir um 85 milljónum ára.

Þá hafði Zealandía slitnað að fullu frá Ástralíu og Antartíku.

Heilmikið dýralíf var vitaskuld á Zealandíu frá örófi alda en hvernig það þróaðist eftir að þetta litla meginland einangraðist frá öðrum svæðum jarðar, það vitum við ekki. 

Á Antartíku höfðu á sínum tíma búið risaeðlur eins og annars staðar í heiminum en eftir því sem sú heimsálfa færðist sunnar á pólsvæðið og tók að hyljast ís, þá dó allt það líf út og eftir á landi urðu aðeins ófleygir fuglar.

Í Ástralíu þróaðist eftir dauða risaeðlanna dýralíf sem á ekki sinn líka — pokadýrin svonefndu.

Hver veit hvernig dýralíf þróaðist á Zealandíu? Kannski eitthvað alveg sérstakt sem við getum með engu móti gert okkur í hugarlund?

Myndi okkur gruna tilvist pokadýra ef Ástralía hefði sokkið?

Kannski hafa einhverjir ættingjar hinna furðulegu nefdýraþróast til þess að verða vitsmunaverur á Zealandíu?

Vitað er að skömmu eftir að Zealandía var orðin ein í heiminum hófst þar mikil eldvirkni sem sennilega stóð í nokkrar milljónir ára. Þá og síðar teygðist og togaðist á landflæmi Zealandíu svo meginlandið varð óvenju þunnt þar sem það „flaut“ á glóandi innri massa Jarðar.

Það leiddi svo til þess að fyrir um 30 milljónum ára fór Zealandía að síga og seig svo og seig oní sjóinn.

Fyrir um 25 milljónum ára var allt meginlandið horfið niður á eins til tveggja kílómetra dýpi nema hæstu tindar á miklum fjallgarði.

Þá tinda köllum við nú Nýja Sjáland og fyrir utan nokkrar smáeyjar er Nýja Sjáland hið eina sem enn er ofarsjávar af Zealandíu. 

Athugið að þær 50-60 milljónir ára sem Zealandía var ofansjáavar eru nægur tími til að þar hefði getað þróast vitsmunalíf. Það tók frummenn skemmri tima en það suður í Afríku þegar homo sapiens kom að lyktum fram á sjónarsviðið.

Skyldi það hafa gerst í Zealandíu eða Te Riu-a-Māui? Viti borin tegund af einhverjum óþekktum toga komið fram en svo horfið í hafið áður en hún lærði að smíða sér björgunarskip eða koma sér til hæstu fjalla?

Ekki beint líklegt, nei, en hver veit.

Rannsóknir eru rétt að byrja á því sem leynist í sjónum.

Kjósa
28
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Saga Írans 5: Kameldýrakarl frá Baktríu, frumlegasti trúarhöfundur sögunnar
Flækjusagan

Saga Ír­ans 5: Kam­eldýra­karl frá Baktríu, frum­leg­asti trú­ar­höf­und­ur sög­unn­ar

Í síð­ustu grein (sjá hana hér) var þar kom­ið sögu að stofn­andi Persa­veld­is, Kýrus hinn mikli, var horf­inn úr heimi. Það gerð­ist ár­ið 530 FT en áhrifa hans átti eft­ir að gæta mjög lengi enn og má vel segja að Kýrus sé enn af­ar vold­ug­ur í hug­ar­heimi Ír­ana. En nú spóla ég að­eins aft­ur í tím­ann og dreg fram ann­an...

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Forsprakki útifundar játaði fjárdrátt á leikskólanum Klettaborg
2
Fréttir

Forsprakki úti­fund­ar ját­aði fjár­drátt á leik­skól­an­um Kletta­borg

Sig­fús Að­al­steins­son, stofn­andi hóps­ins Ís­land - þvert á flokka, sem stend­ur fyr­ir úti­fund­um um hæl­is­leit­end­ur, ját­aði á sig fjár­drátt frá leik­skól­an­um Kletta­borg þeg­ar hann var for­stöðu­mað­ur þar. Hann vill ekki dæma hvort brot af því tagi séu nógu al­var­leg til að inn­flytj­end­ur sem gerð­ust sek­ir um þau ætti að senda úr landi.
Drengir kvörtuðu undan kennara og var meinað að sitja kennslustundir
6
Úttekt

Dreng­ir kvört­uðu und­an kenn­ara og var mein­að að sitja kennslu­stund­ir

Tólf ára gaml­ir dreng­ir leit­uðu til skóla­stjóra vegna meints of­beld­is af hálfu kenn­ara. Í kjöl­far­ið var þeim mein­að að sitja kennslu­stund­ir hjá kenn­ar­an­um. Ann­ar baðst af­sök­un­ar eft­ir tvær vik­ur og fékk þá að koma aft­ur í tíma. Hinn sætti út­skúf­un í tvo mán­uði, áð­ur en skól­an­um var gert að taka dreng­inn aft­ur inn í tíma. For­eldr­ar drengs­ins segja kerf­ið hafa brugð­ist barn­inu og leit­uðu að lok­um til lög­reglu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár