„Engar ákvarðanir hafa verið teknar, bara þessi,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla- og nýsköpunar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurð um það hvort til greina komi að þingmenn annarra flokka en Sjálfstæðisflokks taki við fjármálaráðuneytinu í kjölfar afsagnar Bjarna Benediktssonar. „Við skulum leyfa þessum degi að líða með þessari ákvörðun.“
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varðist einnig spurninga um næstu skref. „Ekkert gefið, ekkert útilokað,“ sagði Birgir einfaldlega.
Bjarni sagði af sér í morgun í kjölfar birtingar álits Umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að Bjarni hafi verið vanhæfur til að að selja félagi í eigu föður síns, Benedikts Sveinssonar, hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði sem fram fór í mars í fyrra.
„Ég styð formanninn í þessari óeigingjörnu afstöðu hans og mun styðja hann í þeim ákvörðunum sem eftir taka,“ sagði Áslaug Arna í samtali við Heimildina nú laust eftir hádegi á Alþingi.
Hún jánkaði því að afsögnin muni hafa áhrif á stjórnarsamstarfið en ítrekaði að ákvarðanir um næstu skref hafi ekki verið teknar.
„Hann er framúrskarandi stjórnmálamaður“
Áslaug sagði þingflokkinn hafa átt fund með Bjarna í morgun og síðan fylgst með tilkynningu hans um afsögn á blaðamannafundinum. Hún hafi komið á óvart, en það hafi álit umboðsmanns Alþingis einnig gert.
„Það verður mikil eftirsjá eftir Bjarna Benediktssyni í stóli fjármálaráðherra,“ sagði Áslaug sem kvaðst taka undir þá gagnrýni sem Bjarni setti fram á álit Umboðsmanns Alþingis í afsagnarræðu sinni.
Spurð hvort hún teldi Bjarna áfram stætt sem formanni flokksins, eða ráðherra, í ljósi afsagnar hans, sagði Áslaug:
„Já. Hann er framúrskarandi stjórnmálamaður og formaður Sjálfstæðisflokksins.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut
í ríkisbanka.
Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.
Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka menn í forsvari.
*************************************************************************