Íslenskur bankamaður, sem allt bendir til að hafi tekið að sér að leppa eignarhald á fjárfestingafélagi fyrir kjörræðismann Íslands í Belarús, var nýlega skráður eigandi að helmingshlut í úkraínsku orkufyrirtæki, sem áður var skráð á auðjöfurinn Moshensky. Yfirvofandi refsiaðgerðir yfirvalda og alþjóðastofnana vofðu yfir kjörræðismanninum í aðdraganda þess að eignarhaldið var flutt til Íslands, fyrir málamyndaverð.
Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá í Úkraínu er Íslendingurinn Karl Konráðsson nú skráður eigandi helmingshlutar í orkufyrirtækinu Ekotechnik Velyka Dobron (EVD), sem framleiðir og selur rafmagn sem aflað er í gegnum tvö stór sólarorkuver fyrirtækisins í Vestur-Úkraínu á samtals 50 hektara landsvæði.
Í sigti refsiaðgerða
EVD, sem stofnað var árið 2012, býr yfir getu til að framleiða allt að 30 megawött af rafmagni og er í hópi 20 stærstu sólarorkuframleiðenda landsins. Margir tugir slíkra fyrirtækja hófu starfsemi á síðastliðnum áratug, eftir að þarlend stjórnvöld gerðu endurnýjanlega orkuframleiðslu að forgangsmáli. Hluti af því voru loforð úkraínska ríkisins um ívilnanir til fjárfestinga í geiranum auk þess að skuldbinda sig til að kaupa alla orku sem framleidd yrði.
EVD átti samkvæmt uppgjöri ársins 2021 eignir sem metnar voru á ríflega 2,2 milljarða íslenskra króna. Það sama ár var hagnaður af rekstri þess ríflega jafnvirði 300 milljóna króna. Ekki fylgdi sögunni af þessum eigendaskiptum hve verðmæti viðskiptanna var, eða á hvaða forsendum þau fóru fram.
Í fréttum fjölmiðla í Belarús og Úkraínu er sterklega gefið í skyn að þetta nýjasta strandhögg Íslendinga í alþjóðaviðskiptum sé gert í þeim tilgangi að forða eignahlutnum frá viðskiptaþvingunum sem vofðu að sögn yfir fyrri eiganda fyrirtækisins. Sá er ólígarkinn Aleksander Moshensky frá Belarús, og kjörræðismaður Íslands í landinu.
Moshensky hafði áður fært eignarhald þessa félags á nafn dóttur sinnar á þrítugsaldri, sem að sögn stundar nám í Bretlandi. Það gerði hann árið 2020 þegar ESB virtist ætla að leggja viðskiptabann á Moshensky og fyrirtæki hans vegna tengsla hans við einræðisherrann í Belarús. Nokkuð sem Moshensky tókst að afstýra, ekki síst fyrir orð og þrýsting íslenskra stjórnvalda, að því er Heimildin hefur áður greint frá.
Þessi eignatilfærsla innan fjölskyldu Moshenskys virtist ekki duga eftir innrásina í Úkraínu. Í maí í fyrra lögðu þarlend yfirvöld hald á og frystu eignir félags hans, Santa Kholod, en það flytur inn, selur og dreifir sjávarafurðum í Úkraínu. Kyrrsetningin var, samkvæmt fréttum, framkvæmd á grundvelli ákvæðis úkraínskra hegningarlaga um bann við misnotkun stjórnenda einkafyrirtækis á eignum þess, þá helst með vísan til fjármögnunar aðgerða þar sem beita á valdi til að breyta stjórnskipan, taka völd í landinu, breyta landamærum. Það er að segja: fjármagna landráð.
Í umfjöllun fjölmiðla var vakin athygli á því að þetta ákvæði hafi verið notað í sams konar málum gegn öðrum fyrirtækjum tengdum Belarús frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna eru yfirvöld í Belarús þátttakendur í hinni ólögmætu innrás.
Ekki löngu eftir þessar aðgerðir fluttist eignarhald úkraínska orkufyrirtækisins frá Moshensky til Karls Konráðssonar, í gegnum félagið, Max Credit Investments ltd (MCI). Félagið MCI er skráð í London en því stýrir Karl að sögn frá heimili sínu í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík.
MCI eignaðist Karl raunar á svipaðan hátt og orkufyrirtækið nú, þegar hann tók yfir hlut Moshenskys í því í ársbyrjun árið 2020. Það gerði Karl í gegnum íslenska félagið Slark ehf., sem síðan stofnaði félagið Slark invest í London, sem Karl nýtti svo til að kaupa MCI. Fyrir MCI greiddi Karl andvirði 140 þúsund íslenskra króna. Kaupverð sem vart getur talist annað en reyfarakaup þegar litið er til verðmætanna sem fylgdu með í kaupunum.
MCI átti enda rúmlega hálfs milljarðs króna eignir umfram skuldir og var umfangsmikill lánveitandi sem veltir milljörðum króna ár hvert. Karl Konráðsson hafði áður verið skráður stjórnandi MCI, svo að segja frá því það var stofnað af fyrrum vinnuveitendum hans, MP-banka árið 2008, af útibúi íslensku lögmannsstofunnar Logos í Lundúnum. Þrátt fyrir þessa Íslandstengingu hefur félagið aldrei svo vitað sé átt í neinum viðskiptum hér á landi eða haft hingað tengingar.
Ekki aðrar en þær að vera eins konar fjármögnunarmiðstöð fyrirtækjasamsteypu, kjörræðismanns Íslands í Belarús. Aleksander Moshensky hefur fjármagnað starfsemi fyrirtækja sinna í Rússlandi, Úkraínu og Litáen, með lánveitingum frá MCI, sem aftur hefur verið fjármagnað með lánum frá aflandsfélaginu Alpha Mar Foundation á Seychelles-eyjum. Í staðinn hafa vaxtagreiðslur af sömu lánum runnið úr starfsemi fyrirtækjanna í Austur-Evrópu, óskattlagðar, til MCI og þaðan til Seychelles-eyja, þar sem hagnaðurinn safnast upp sáralítið eða ekkert skattlagður.
Lengi vel var á huldu hver ætti félagið á Seychelles-eyjum, sem á endanum hagnast á allri þessari hringekju. Auk þess að vera alræmt skattaskjól eru Seychelles-eyjar líka vinsæl staðsetning fyrir þá sem vilja af einhverjum sökum leyna raunverulegu eignarhaldi. Moshensky vildi ekki svara því þegar Heimildin innti hann svara við því fyrir ári hvort hann ætti félagið. En jafnvel þótt Karl Konráðsson hafi staðfest að Moshensky ætti félagið neitaði hann að gefa upp til hverra hann vísaði þegar hann talaði um eigendur félagsins í fleirtölu.
Svarið fannst á Kýpur
Aukin áhersla ESB-ríkja á aukið gagnsæi vegna fyrirtækja sem stunduðu viðskipti í Rússlandi eða Belarús, virðist svo hafa orðið til þess að yfirvöld á Kýpur kröfðu Moshensky um að gefa upp hver væri svokallaður „raunverulegur eigandi“ kýpversk dótturfélags fyrirtækisins á Seychelles-eyjum, í lok síðasta árs. Sá var Aleksander Moshensky sjálfur.
Þannig varð endanlega ljóst að þessi um margt flókna hringekja, sem teygði sig milli landa og heimsálfa, var í raun lítið annað en viðskipti eins og sama mannsins við sjálfan sig til þess eins gerð að færa hagnað úr fyrirtækjum í Litáen, Úkraínu. Rússlandi og Belarús, undan sköttum og í skattfrelsið á Seychelles-eyjum.
Samkvæmt nýjasta ársreikningi MCI sem skilað var nú í byrjun ágúst, hefur félagið flutt peninga áfram til Seychelles-eyja sem aldrei fyrr síðan eignarhald MCI færðist til Íslands. Á ríflega einu og hálfu ári, frá miðju ári 2020 til ársloka 2022, fóru 13 milljarðar króna með þessum hætti í gegnum MCI, frá fyrirtækjum Moshenskys til félags hans á Seychelles-eyjum.
Því til viðbótar hefur svo MCI nú eignast orkufyrirtækið EVD í Úkraínu.
Neitar að tjá sig
Þegar Heimildin fjallaði fyrst um hin sérkennilegu fyrirtækjaumsvif Karls Konráðssonar fyrir ári síðan, hafnaði hann því alfarið að um væri að ræða einhvers konar málamyndagjörning, í því skyni að bregðast við yfirvofandi hættu á viðskiptaþvingunum eða afskiptum skattayfirvalda í Úkraínu af félaginu MCI. Hann hefði einungis séð tækifæri í viðskiptunum sem hann ætlaði að sinna heiman frá sér.
Spurður um nýjustu viðskipti sín, í úkraínska orkufyrirtækinu, vildi Karl engu svara þegar Heimildin innti hann svara við því, nú fyrir helgi.
„Ég hef ekkert við ykkur að segja,“ sagði Karl þegar Heimildin náði af honum tali og innti hann upplýsinga um nýfrágengin fyrirtækjakaup sín í Úkraínu. Hann vildi engum spurningum svara um viðskipti sín eða fyrirtækisins MCI.
„Ég hef ekkert við ykkur að segja“
Spurður hvort skattayfirvöld hefðu sett sig í samband við hann vegna málefna félagsins, staðfesti Karl að svo hefði verið, en sagði aðspurður „bara allt í góðu“ og neitaði því að nokkur rannsókn væri í gangi. Eins og áður hefur verið greint frá halda úkraínsk skattayfirvöld því fram að eitt úkraínskra félaga Moshenskys, hafi komið hagnaði undan sköttum þar í landi, með lántökum hjá MCI, sem þrátt fyrir að annað hefði verið gefið í skyn, væri í raun nátengt félag því úkraínska.
Að sama skapi kom fram í umfjöllun litáíska ríkissjónvarpsins á dögunum að margt þætti grunsamlegt við lánveitingar MCI til litáensks félags Moshensky, af sömu ástæðu. Samkvæmt lýsingum yfirmanns skattrannsókna hjá litáíska skattinum var sú uppsetning sem þar hafði verið komið upp, líkleg til að sæta afskiptum yfirvalda. Ekki liggur fyrir hvort það hafi gerst í framhaldi af umfjöllun Heimildarinnar, LRT og BIC um málið.
Athugasemdir (1)