Í eftirleik útboðs hlutar ríkisins í Íslandsbanka, ekki síst eftir að sátt bankans við Fjármálaeftirlitið var gerð opinber, fóru ýmsir orðrómar á kreik um tengsl og spillingu. Þannig barst Heimildinni fjöldi ábendinga um meint náin tengsl Jóns Guðna við Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. Byggðu þær ábendingar helst á því að þeir Jón Guðni og Bjarni hefðu verið samherjar í meistaraflokki Stjörnunnar í knattspyrnu og leikið þar saman á tíunda áratugnum.
Þetta er hins vegar mjög ofsögum sagt. Vissulega léku bæði Jón Guðni og Bjarni með Stjörnunni, Bjarni 73 leiki í allt. Leikir Jóns Guðna urðu hins vegar aðeins fjórir, tveir sumarið 1995 í 2. deild Íslandsmótsins og tveir sumarið eftir, í Sjóvá-Almennra deildinni. Síðustu leikir Bjarna voru hins vegar í Trópí-deildinni árið 1994, enda lenti hann í alvarlegum meiðslum það ár. Í leik gegn KR lenti hann í harðri tæklingu sem olli því að hann lék ekki framar fótbolta, þó hann hafi sumarið eftir, 1995, verið í hópi Stjörnunnar enda Bjarni þá enn að vonast eftir því að jafna sig af meiðslunum. Það gerðist hins vegar ekki.
Spurður hvort hann hafi heyrt af þessum kenningum, um hin miklu meintu tengsl sín við Bjarna, svarar Jón Guðni því glottandi til að það hafi hann ekki gert. „Nei, þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þessa tengingu. Mér finnst þetta mjög skemmtilegar pælingar, hann er held ég 6 eða 7 árum eldri en ég, þannig að ég held að ég hafi aldrei mætt á eina æfingu með honum.“ Þess má geta að Jón Guðni er fæddur 1976 en Bjarni árið 1970.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut í ríkisbanka með afslætti.
Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.
Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka menn í forsvari.
*******************************************************************