Kunningjakúltúr er til staðar í íslensku fjármálkerfi og mikilvægt er að sporna við honum. Viðhafa þarf eins mikla fagmennsku og unnt er, segir Jón Guðni Ómarsson, nýr bankastjóri Íslandsbanka. Jón Guðni kannast við að hafa heyrt af því að viðskiptasamningar séu ræddir, og jafnvel gerðir, yfir hádegisverðum þar sem vín er haft um hönd. Sjálfur hefur hann hins vegar ekki farið í slíkan „blautan hádegisverð“.
Í viðtali við Heimildina sagði Birna Einarsdóttir, forveri Jóns Guðna á bankastjórastóli, að menning innan fjármálakerfisins yrði að breytast. Innan kerfisins væru hins vegar ákveðin öfl sem vildu alls ekki breytingu á ríkjandi kúltúr, kunningjakúltúr og nepotisma sem væri til staðar til að mynda. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins varðandi sátt Íslandsbanka sást þannig hvernig maður gekk undir manns hönd við að redda kunningjum sínum um stöðu fagfjárfesta til að geta tekið þátt í útboðinu. Þannig hófust tölvupóstar meðal annars á orðunum „Sælir strákar, gaman að hitta ykkur í dag,“ og í framhaldinu var viðtakendum leiðbeint sérstaklega um það hvernig þeir ættu að bera sig að við að verða fagfjárfestar.
Getur verið vandamál
Spurður hvort hann sé því sammála að innan fjármálageirans á Íslandi grasseri ómenning í þessum efnum og hvort þarft sé að taka á því, svarar Jón Guðni því til að slíkur kúltúr sé væntanlega til staðar víðar. „Ísland er náttúrlega lítið land þar sem allir þekkja alla, þannig að slíkur kúltúr held ég að sé nú á ýmsum stöðum. Klárlega er hann til staðar að einhverju marki innan fjármálakerfisins líka og það held ég að sé einmitt hluti af þessari áhættumenningu sem er vert að skoða, hvort það sé eitthvað sem hafi áhrif þar.“
Hvernig sérðu þá fyrir þér að verði hægt að girða fyrir frændhygli og kunningjakúltúr í fjármálakerfinu?
„Það er stór spurning. Ég held að ég geti nú bara svarað fyrir sjálfan mig og Íslandsbanka. Það sem við viljum gera til að styrkja okkar áhættumenningu er að fara í þessi úrbótaverkefni sem við erum með í gangi og erum með erlenda ráðgjafa til að hjálpa okkur í því. Þannig að við getum heyrt hvernig best er farið með þessa þætti þar, það eru náttúrlega hins vegar stærri lönd og öðruvísi umhverfi. Það er það fyrsta. Svo er það sem er kallað tónninn að ofan, það er mjög mikilvægt að hann sé skýr hvað þetta varðar.“
Þú þekkir þetta sem sagt og þú telur þörf á að breyta því?
„Það má segja að ég hef alveg heyrt af svona samtölum og þetta sé eða geti verið vandamál. Við viljum viðhafa eins mikla fagmennsku og mögulegt er og vinna að því.“
Þannig að það verður sett stopp á blauta hádegisverði? Eru þeir staðreynd í fjármálakerfinu?
„Ég náttúrlega heyri eitthvað af því en svo sem þekki það ekki mikið og hef held ég aldrei farið í slíkan sjálfur.“
Þetta er þér sem sagt ekki fullkomlega framandi þegar ég nefni það, þú hefur heyrt af svoleiðis viðskiptasamböndum og samtölum sem fara fram undir þeim kringumstæðum að menn eru að borða saman og hafa vín um hönd?
„Ég held að það þekkist í öllum geirum atvinnulífsins, bæði hérlendis og erlendis.“
En þú ert ekki spenntur fyrir því?
„Ég persónulega, nei, er ekkert gríðarlega mikið í því.“
Athugasemdir