Írski blaðamaðurinn og rithöfundurinn, Fintan O’Toole, gaf út merka bók árið 2010 um spillingu og heimsku í írskum stjórnmálum og viðskiptalífi. Bókin ber titilinn ”Ship og Fools – How Stupidity and Corruption Sank the Celtic Tiger”. Gæti þetta útlagst á íslensku sem ”Fíflafleyið - hvernig heimska og spilling sökktu keltatígurnum”.
O’Toole segir að taumleysi og spilltir starfshættir geti gengið svo langt hjá ráðamönnum, sem sitja lengi að völdum, að þeir verði hversdagslegir og sjálfgefnir. Já, eiginlega sjálfsagðir. Þessu til áréttingar rifjar hann upp sögu af Bertie Ahern, fyrrverandi forsætisráðherra Írlands, þegar áhrifakaup og mútur voru ræddar við hann í sjónvarpsþætti. Segja má að þegar spilltir starfshættir verða að venjubundnu og hversdagslegu háttalagi hætta menn að sjá vammir sínar eins og Ahern.
Margt líkt með skyldum
Bertie Ahern varð formaður Fianna Fáil 1994 sem er valdflokkur hægra megin við miðju írskra stjórnmála. Völd flokksins eru langvinn og ná allar götur aftur til ársins 1932 þegar hann settist í sína fyrstu ríkisstjórn. Á 79 árum hefur Fianna Fáil setið í ríkisstjórn í 61 ár eða 80 prósent alls tímabilsins. Síðasta valdaskeið flokksins var undir stjórn Berties Ahern, frá 1997 til ársins 2008.
Valdaferill Fianna Fáil minnir um margt á Sjálfstæðisflokkinn sem haldið hefur um stjórnartaumana 75 prósent tímans frá stofnun lýðveldisins árið 1944. Flokkarnir tveir eru báðir valdaflokkar með sterk tengsl við embættis- og stjórnkerfi viðkomandi landa.
„Hneykslið reyndist enginn banabiti fyrir hann enda náði hann endurkjöri í kosningunum“
Margt er líkt með skyldum og völd og forsjá virtust á stundum svo sjálfgefin í augum forystumanna Fianna Fáil að þeir uggðu ekki að sér. Kunningjaveldið og klíkuskapurinn gróf um sig. Flokkurinn hafði á valdaferli sínum náð tryggum stuðningi stórra írskra fyrirtækja og leiddi það sem kallað hefur verið upprisa keltneska tígursins. Það efnahagsundur hófst á tíunda áratugnum og entist fram eftir fyrsta áratug líðandi aldar. Írska undrið byggðist á faseignabólu sem verktakar, stórfyrirtæki, bankar og stjórnvöld „tjökkuðu upp“ og báru sameiginlega ábyrgð á. Verð á landi og fasteignum margfaldaðist.
Bertie Ahern náði endurkjöri árið 2007 en sagði af sér í maí 2008 þegar í óefni var komið. Upplýst hafði verið um margvísleg spillingarmál og jafnvel mútugreiðslur til Fianna Fáil og Berties Ahern. Nefna má að af reikningi Fianna Fáil í einu írsku kjördæmanna voru tekin 30 þúsund írsk pund, jafnvirði á að giska 5 til 6 milljónir íslenskra króna, til kaupa á húsi fyrir Celiu Larkin, vinkonu Berties. Enginn af leiðtogum flokksins sagði neitt. Einn helsti talsmaður flokksins, Martin Mansergh, snéri meira að segja vörn í sókn og fordæmdi það sem hann kallaði „fjaðrafok tilbúinnar sýndarsiðfræði“ í fjölmiðlum.
Blóðskammartengsl
Það þarf heldur ekki að koma á óvart að Bertie Ahern komst lengi vel upp með allt saman. Hneykslið reyndist enginn banabiti fyrir hann enda náði hann endurkjöri í kosningunum 2007 eins og áður segir. Orðrétt lýsir O’Toole þessu svo:
„Skýringar Berties Ahern, og þeirra sem stutt höfðu hann með fjárframlögum, hröktu á margan hátt írsku þjóðina út í dýpra kviksyndi en dæmi voru um. Þær skírskotuðu til menningar kunningjaveldisins sem Ahern virtist líta á sem almenna starfshætti og vinnubrögð til að framfylgja málum. Þegar hann var spurður á RTE sjónvarpsstöðinni hvers vegna hann hefði skipað menn í hafnarstjórn Dyflinnar, í stjórn Aer Lingus eða Enterprice Ireland, sem borið hefðu á hann fé, var svarið: „Ég skipaði þá ekki vegna þess að þeir höfðu borið á mig fé, ég skipaði þá vegna þess að þeir voru vinir mínir.“
Þetta lýsir í hnotskurn vandanum sem Brian Lenihan (flokksbróðir og samstarfsmaður Ahern) gerði síðar að umtalsefni í tengslum við bankakreppuna. Írland væri lítið land „með allt of tíðum blóðskammartengslum.“
Fianna Fáil galt mikið afhroð í kosningum 2011 og ári síðar yfirgaf Ahern flokkinn, en er nýlega genginn til liðs við hann aftur.
Vinur minn
Smæð íslenska samfélagsins og rík kunningja- og ættartengsl virðast einnig þurrka út mörkin á milli vinargreiða, gjafa og hreinna mútubrota líkt og dæmið hér hefur verið rakið frá Írlandi. Eva Joly hnykkti á þessu í grein í norska blaðinu Aftenposten 9. nóvember 2009: „Þegar þjóðir eru mjög litlar verður fólkið barnalegt þegar kemur að samböndum og tengslum. Vinarböndin eru of þétt, nánast eins og í trúarsöfnuðum.“
Sagan frá Írlandi rifjaðist upp fyrir undirrituðum þegar hann sá í íslenskum fjölmiðli að Steinar Þ. Guðgeirsson, yfir, undir og alltumkring í Lindarhvoli, væri gamall vinur og skólabróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Athugasemdir