Stjörnugrís, sem selur vörur undir vörumerkjunum Stjörnugrís, Stjörnunaut og Stjörnufugl, auk annars, rekur svínabú á fimm stöðum á landinu, sláturhús og kjötvinnslu. Á vefsíðu fyrirtækisins segir meðal annars: „Óhætt er að segja að neytendur hafi tekið vel á móti framleiðsluvörum frá Stjörnugrís enda vel til vandað, frábært ferskt íslenskt hráefni ...“
Stjörngrís er hins vegar einnig hvað umfangsmesta fyrirtæki landsins þegar kemur að innflutningi á svínakjöti, nautakjöti og alifuglakjöti. Síðustu misseri hefur fyrirtækið fengið úthlutað tollkvótum fyrir, og flutt inn, hundruð tonna af kjöti erlendis frá. Fyrirtækið flutti þá meðal annars inn um 200 tonn af úkraínskum kjúkling á meðan að bráðabirgðaákvæði um tollfrjálsan innflutning hans var í gildi.
Vill verja vörumerkin
Stjörnugrís hefur hins vegar ekki fengið miklu magni tollkvóta úthlutað það sem af er þessu ári. Ástæðan er sú að félagið LL42 ehf. hefur sótt um, og fengið úthlutað, tollkvótum en félagið er að fullu í eigu Stjörnugríss. Félagið var stofnað árið 2017 og er framkvæmdastjóri þess og stjórnarmaður Sigurður Kári Kristjánsson, lögfræðingur og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Enginn rekstur var í félaginu til ársins 2022.
LL42 er eitt af fimm fyrirtækjum sem hefur heimild til innflutnings á úkraínsku kjúklingakjöti og samkvæmt upplýsingum Geirs Gunnars flutti fyrirtækið hingað til lands um 200 tonn.
„Við vorum fyrst í ákveðnu afneitunarferli“
Spurður hvort að einhver sérstök ástæða liggi að baki því að Stjörnugrís notist nú við félagið LL42 til að flytja inn kjöt og bjóða í tollkvóta svarar Geir Gunnar því til að það sé til að verja vörumerkin, Stjörnugrís, Stjörnunaut og Stjörnufugl. „Við vildum deila rekstrinum upp og hafa vörumerkin sér, þannig ef eitthvað kæmi upp í kringum innflutninginn bæru vörumerkin ekki skaða af. Varðandi innflutninginn erum við að miklu leyti að selja hann áfram óunninn, svo við viljum heldur ekki að fólk haldi, ranglega, að við séum að nota þetta í allar okkar vörur, að það sé bara erlent kjöt í okkar framleiðslu.“ Umræddar innfluttar landbúnaðarvörur eru bæði seldar beint áfram í vinnslu og stóreldhús, þó að fyrirtæki nýti þær einnig að hluta í eigin framleiðslu, segir Geir Gunnar enn fremur. Allt sé þá upprunamerkt frá fyrirtækinu, hvort sem um sé að ræða vörur á smásölumarkaði, vörur sem seldar séu til vinnslu eða í stóreldhús.
Annaðhvort að taka þátt eða tapa
Geir Gunnar segir að fyrirtækið hafi ekki nýtt allan þann innflutningskvóta sem það hafi fengið úthlutað, og eigi það einkum við um kindakjöt. Alla jafna hafi hins vegar nauta-, svína- og alifuglakvótar verið nýttir. Stjörnugrís hafi hins vegar framan af ekki boðið í umrædda kvóta. „Við vorum fyrst í ákveðnu afneitunarferli, tókum ekki þátt í þessu fyrsta áratuginn eða svo, en svo er staðan sú að innanlandsframleiðslan hefur bara staðið í stað. Tollkvótarnir fylla upp í alla umframeftirspurn svo annaðhvort var að taka þátt eða tapa. Við erum ekki að fara að auka framleiðsluna eins og staðan er í íslenskum landbúnaði í dag, og í samkeppni við innflutning er þetta bara Davíð gegn Golíat.“
Fólksfjölgun og aukinn túrismi með meiri neyslu valdi því, segir Geir Gunnar, að aukin eftirspurn sé eftir ákveðnum vöruflokkum á borð við nautalundir, svínasíðum til beikongerðar og kjúklingabringum. Það geti því ekki borgað sig að rækta fleiri svín, með öllum öðrum afurðum sem af þeim koma, til að uppfylla eftirspurn eftir beikoni til að mynda. „Þetta er komið til að vera og það verður alltaf flutt meira og meira inn, það borgar sig ekki að framleiða meira hérna heima á móti þessu því að markaðurinn þarna úti er svo stór að við eigum ekki séns á að keppa við hann.“
Betra að gjöldin renni til ríkisins en í vasa einkaaðila
Spurður hverju hann svari gagnrýni sem ýmsir hafi hent á lofti, að með innflutningi fyrirtækja eins og Stjörnugríss á landbúnaðarafurðum, séu bændur og fyrirtæki í landbúnaði í raun að saga undan sér greinina sem þau sitji á, svarar Geir Gunnar því til að hún sá að sumu leyti rétt. „Þetta er gagnrýni sem á rétt á sér. Við viljum auðvitað helst framleiða sem mest hér á Íslandi en það er bara ógerlegt með þeim aðstæðum sem stjórnvöld skapa með þessum tollasamningum.“
„Neytandinn ber bara skaðann af því ef það verða fleiri milliliðir“
Því hefur jafnframt verið haldið fram að tollvernd til handa íslenskum landbúnaðarvörum sé andstæð hagsmunum neytenda, þeir greiði vegna hennar hærra verð en ef hún væri ekki til staðar. Þessu vísar Geir Gunnar á bug. „Ef maður horfir á þetta hrátt þá er þessi gagnrýni helst komin frá aðilum sem vilja að heildsalar hafi óheftan aðgang að innflutningi, til að selja okkur sem rekum kjötvinnslur, til að við vinnum það áfram fyrir verslanir. Neytandinn ber bara skaðann af því ef það verða fleiri milliliðir. Útboð á tollum, tollum sem við greiðum síðan, renna til ríkissjóðs. Hvað er ríkissjóður? Jú, það erum við öll og þessi gjöld fara vonandi út í samneysluna. Það hlýtur því að vera betra fyrir neytendur, jafnvel þó að vöruverð verði jafnvel eitthvað hærra, að greiðslurnar berist í ríkissjóð heldur en þetta renni til einkaaðila og félaga í Félagi atvinnurekenda.“
Athugasemdir (1)