„Lítið að frétta og því fátt um svör,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins við Heimildina þegar hún er spurð hvort hún viti hvenær hún muni taka við sem dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarssyni sem nú gegnir því embætti.
Forsagan er sú að þegar ríkisstjórnin var skipuð í lok nóvember 2021 var tilkynnt að Jón Gunnarsson yrði dómsmálaráðherra í mesta lagi í 18 mánuði. Eftir þann tíma ætti Guðrún að taka við af Jóni.
Umdeild ákvörðun
Þetta þótti áhugavert í ljósi þess að Jón var ekki oddviti síns kjördæmis og heldur sat hann í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Kraganum, kjördæmi flokksformannsins Bjarna. Hann var enn fremur eini ráðherrann í ríkisstjórn sem ekki var oddviti. Með því að velja Jón gekk Bjarni framhjá tveimur oddvitum í landsbyggðarkjördæmum, Guðrúnu í Suðurkjördæmi og Njáli Trausta Friðbertssyni í Norðausturkjördæmi.
Bjarni varði valið á Jóni með þeim rökum að Jón kæmi úr stærsta kjördæmi landsins þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins væri mest. Hann hefði verið þingmaður frá árinu 2007 og áður gegnt ráðherraembætti um skamma hríð á árinu 2017. Þá var hann ritari flokksins þegar ríkisstjórnin var mynduð og hefði, að mati Bjarna, sterkt umboð innan Sjálfstæðisflokksins.
Guðrún gerð formaður nýs starfshóps
Varðandi þessa 18 mánuði þá er ekki einhugur um hvenær á að byrja að telja, frá kosningum eða þegar ríkisstjórnin var kynnt. Guðrún sagðist í viðtali í Dagmálum á mbl.is í byrjun árs að hún myndi taka við embættinu í mars á þessu ári, en þá voru 18 mánuðir frá kosningum, en af því varð ekki.
Heimildin greindi frá því þegar hún var gerð formaður starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í lok febrúar þrátt fyrir að fyrir lægi að Guðrún myndi taka við embætti dómsmálaráðherra á vormánuðum.
Í samtali við Heimildina í byrjun mars sagði Guðrún að ráðherraskiptin ættu að eiga sér stað „á næstu vikum“. Ekki lægi fyrir nákvæm dagsetning.
Hún sagði jafnframt að hún hefði haldið sig við sína túlkun á því hvenær hún myndi taka við sem dómsmálaráðherra. „Það er alveg á hreinu að þetta verður, þannig að ég er alveg róleg hvað það varðar. En auðvitað er ég óþreyjufull og vil komast að, því að maður er að upplifa núna hvað kjörtímabilið líður hratt,“ sagði Guðrún í mars.
Þá greindi hún frá því að hún ætlaði að segja skilið við fyrrnefndan starfshóp þegar hún yrði ráðherra.
Ekki hefur náðst í Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra vegna málsins en hann sagði í samtali við Heimildina í mars síðastliðnum að hann hefði enga hugmynd um hvenær ráðherraskiptin ættu að eiga sér stað og að engin svör væru við því. „Enga hugmynd um það og engin svör við því,“ sagði hann.
„Við látum vita þegar þar að kemur, og þá verður eflaust sjálfsagt mál að veita viðtal.“
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er þögull sem gröfin varðandi þetta mál. Heimildin sendi honum og aðstoðarmanni fyrst fyrirspurn um málið þann 1. mars síðastliðinn þar sem hann er spurður hvenær Guðrún muni taka við sem ráðherra. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Bjarni ekki svarað fyrirspurnum eða gefið færi á samtali um málið. „Við látum vita þegar þar að kemur, og þá verður eflaust sjálfsagt mál að veita viðtal,“ segir aðstoðarmaður ráðherra í skriflegu svari.
Jón boðaði frumvarp næsta haust
Formaðurinn tjáði sig um málið í Pallborðinu á Vísi í byrjun nóvember síðastliðins þegar hann var spurður að því hvort það væri alveg á hreinu að Jón Gunnarsson væri á leið úr dómsmálaráðuneytinu í vetur og að Guðrún Hafsteinsdóttir tæki við af honum. „Ég var skýr með það frá upphafi og hef aldrei skipt um skoðun á því,“ svaraði hann.
Bjarni sagði jafnframt að Jón hefði mikið verið í eldlínunni og staðið sig vel. „Og mér fannst bara rangt að það væri stöðugt í umræðunni hvort hann væri ekki örugglega alveg að fara að hætta. Og vildi bara koma því út að það hefur í sjálfu sér ekkert breyst með Guðrúnu Hafsteinsdóttur; hún fer í ríkisstjórn. Getur verið að það breytist eitthvað með Jón Gunnarsson? Nei, það er í sjálfu sér ekkert sem bendir til þess en hver veit hvað gerist í pólitík í sjálfu sér?“ Hann sagði jafnframt að margt gæti breyst og þá eitthvað sem taka þyrfti tillit til en ekkert slíkt væri í kortunum. Það væri löngu tímabært að oddviti Suðurlands tæki sæti í ríkisstjórn.
Þá neitaði hann því að Jón yrði mögulega færður til í annað ráðherraembætti.
Þar sem ekkert bólar á ráðherraskiptum miðað við svarleysi Bjarna og svör frá Guðrúnu þá vekur athygli að Jón hefur boðað nýtt frumvarp næsta haust. Í frétt Morgunblaðsins frá 15. apríl síðastliðnum segir að lög um fjárhættuspil séu í vinnslu í dómsmálaráðuneytinu en í fréttinni var Jón spurður út í vinnu ráðuneytisins er snýr að breytingum á sviði happdrættismála.
Athugasemdir