Fyrir 85 árum samþykkti Alþingi lög sem venjulega er vísað til sem laga um afkynjanir og vananir (nr. 16/1938). Þar segir í fyrstu grein: „Heimilar eru aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt, ef fengið er til þess sérstakt leyfi samkvæmt ákvæðum laga þessara […].“ Í annarri grein laganna er lýst þeim þrenns konar aðgerðum sem um var að ræða. Það voru í fyrsta lagi afkynjanir: „Er kynkirtlar karla eða kvenna eru numdir í burtu eða þeim eytt þannig, að starfsemi þeirra ljúki að fullu. Í öðru lagi voru vananir: „Ef sáðgangar karla eða eggvegir kvenna eru hlutaðir í sundur eða þeim á annan hátt lokað varanlega þannig, að slitið sé sambandi milli kynkirtlanna og hinna ytri getnaðarfæra.“ Í þriðja lagi voru fóstureyðingar.
Í lögunum kemur fram að afkynjun skuli „því aðeins leyfa, að gild rök liggi til þess, að óeðlilegar kynhvatir viðkomanda séu líklegar til að leiða til kynferðisglæpa eða annarra hættulegra óbótaverka, enda verði ekki úr bætt á annan hátt“ en vönun skuli því aðeins leyfa: „Að gild rök liggi til þess, að viðkomandi beri í sér að kynfylgju það, er mikil líkindi séu til, að komi fram á afkvæmi hans sem alvarlegur vanskapnaður, hættulegur sjúkdómur, andlegur eða líkamlegur, fávitaháttur eða hneigð til glæpa, eða að afkvæmi hans sé í tilsvarandi hættu af öðrum ástæðum, enda verði þá ekki úr bætt á annan hátt“, eða „Að viðkomandi sé fáviti eða varanlega geðveikur eða haldinn öðrum alvarlegum langvarandi sjúkdómi […]“.
Almenna reglan var sú að leyfi til aðgerðanna væri einungis veitt eftir umsókn frá aðgerðarþola, en frá því voru þó mikilvægar undantekningar. Ef aðgerðarþoli var undir 16 ára aldri eða hafði verið sviptur sjálfræði gat umsókn komið frá foreldrum eða lögráðamanni, en frá sérstaklega skipuðum tilsjónarmanni ef aðgerðarþoli var „geðveikur eða fáviti“. Auk þess gat leyfisumsókn komið frá lögreglustjóra, „ef hann telur óeðlilegar kynhvatir viðkomanda munu geta leitt til glæpaverka“. Þessi lög voru samþykkt samhljóða á þingi 1938 en þegar frá leið fóru þau að misbjóða réttlætiskennd og siðferðisvitund fólks. Þau voru þó í gildi til 1975, nema ákvæði um afkynjanir sem var ekki fellt úr lögum fyrr en árið 2010 þótt ótrúlegt megi virðast.
Endurvakin orð
Þótt þessum aðgerðum sé hætt hafa orðin um þær gengið í endurnýjun lífdaga í málflutningi andstæðinga málbreytinga í átt til kynhlutleysis – sem leggja þó áherslu á að málfræðilegt kyn og kynferði fólks sé tvennt óskylt. Það sé misskilningur að málfræðilegt karlkyn tengist körlum sérstaklega og því sé engin ástæða til að amast við notkun þess í almennri vísun, í samböndum eins og allir velkomnir. Þar sé karlkynið aðeins ákveðið form, en hafi engin tengsl við karlmenn umfram önnur kyn. Það er auðvitað rétt að það er ekki hægt að setja samasemmerki milli málfræðilegs kyns og kynferðis fólks, þótt tæpast sé heldur hægt að neita því að málfræðilegt karlkyn skapi iðulega hugrenningatengsl við karlmenn, a.m.k. hjá sumum málnotendum.
Í ljósi þessarar afneitunar á tengslum málfræðikyns og kynferðis fólks er það mjög sérkennilegt, svo að ekki sé meira sagt, að í baráttu gegn breytingum í átt til kynhlutleysis skuli gripið til orða eins og afkynjun, gelding og (mál)vönun. Það eru orð sem eiga við sviptingu líffræðilegra kyneinkenna eða kynhvatar og með notkun þeirra verður ekki betur séð en einmitt sé verið að viðurkenna tengsl málfræðilegs kyns og kynferðis. En að því slepptu er notkun þessara orða um breytingar á tungumálinu í átt til kynhlutleysis óheppileg og óviðeigandi af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að hún gefur ranga mynd af þeim breytingum sem um er að ræða, og hins vegar vegna þeirra neikvæðu hughrifa sem þessi orð vekja hjá flestum.
Í grein sem nefnist „Í Geldingadölum íslenskunnar“ er talað um „orðbragð á borð við stuðningsfólk, hestafólk, björgunarfólk, lögreglufólk og aðila í alls kyns samsetningum, í stað stuðnings-, hesta-, björgunarsveitar- og lögreglumanna“. Það eru samt yfir 600 dæmi um björgunarfólk á tímarit.is, nærri 2000 um hestafólk, og á fimmta þúsund um stuðningsfólk – og þessi orð eru á bilinu 60-90 ára gömul. Í fornmáli og fram eftir 20. öld var iðulega talað um landsfólk, það er löng hefð fyrir því að tala um verkafólk, verslunarfólk og vinnufólk, orðið iðnaðarfólk var notað á 19. öld, og þótt orðið sjófólk hljómi kannski ókunnuglega er það a.m.k. síðan á 16. öld og var töluvert notað fram á 20. öld. Samsetningar með fólk eru sannarlega engin nýjung.
Heiti greinarinnar á vitaskuld að gefa til kynna að þær breytingar sem þar er fjallað um stuðli að „geldingu“ málsins, bæði áðurnefnd notkun samsetninga með -fólk í stað -maður og notkun hvorugkyns í almennri vísun í stað karlkyns. Í greininni „Afkynjun íslenskunnar“ eru notuð orðin „afkynjun“ og „málvönun“ sem sögð eru koma fram í því m.a. að forðast sé að nota orðið maður. „Við erum orðin dauðhrædd við að taka okkur orðið „maður“ í munn. Það er að verða eitt ferlegasta bannorðið. Ég tek t.d. eftir því að fréttamenn byrja stundum á „mað“ eða „me“, þagna síðan augnablik en segja svo: manneskja/manneskjur, einstaklingur/einstaklingar eða aðili/aðilar.“ Í þessu samhengi er einnig talað um „kynjalausa íslensku“. Allt er þetta rangt.
Fólk sem er svipt kynfærum, kyngetu eða kynhvöt með áðurnefndum aðgerðum hvorki missir kyn sitt né breytir um kyn – karlar halda áfram að vera karlar og konur halda áfram að vera konur. Breytingar á máli í átt til kynhlutleysis eru hins vegar allt annars eðlis. Þær felast stundum í því að í stað orðs í málfræðilegu karlkyni er notað orð í öðru málfræðilegu kyni – í staðinn fyrir karlkynsorðið maður er t.d. notað kvenkynsorðið manneskja eða hvorugkynsorðið man. En við notum málfræðilegt kyn eftir sem áður – kvenkyn og hvorugkyn eru ekkert minni kyn en karlkynið. Stundum helst karlkynið meira að segja þótt breytt sé um orð – aðili og einstaklingur (og fiskari) eru karlkyns. Vandséð er hvernig þetta er afkynjun, gelding eða vönun.
Notkun hvorugkyns sem hlutlauss kyns í dæmum eins og öll velkomin í stað allir velkomnir stríðir gegn máltilfinningu margra enda erum við flest alin upp við að nota karlkyn í þessu hlutverki. Slík breyting er fjarri því að vera einföld í framkvæmd og það er skiljanlegt að hún mæti andstöðu. En það er fráleitt að halda því fram að einhver „afkynjun“ felist í henni. Þótt heitið hvorugkyn geti bent til kyn(hlut)leysis stendur hvorugkynið hinum kynjunum alveg jafnfætis – fornöfn og lýsingarorð í hvorugkyni beygjast í fjórum föllum og tveimur tölum í hvorugkyni eins og þau gera í karlkyni og kvenkyni, og lýsingarorðin hafa auk þess bæði veika og sterka beygingu og þrjú stig í öllum þremur kynjum. Hvorugkyn er jafnmikið kyn og hin tvö.
Ógeðfelld samlíking
Auk þess sem afkynjun, geldingu og vönun var beitt sem fyrirbyggjandi aðgerðum hér á landi á síðustu öld er geldingu og vönun iðulega beitt sem sérlega ógeðfelldum, grimmilegum og niðurlægjandi refsingum eða hefndaraðgerðum í þjóðfélögum þar sem mannréttindi eru ekki á háu stigi – t.d. á Íslandi á Sturlungaöld. En í huga flestra nútímamálnotenda vekja þessi orð sennilega hrylling og ógeð. Augljóslega er það ástæðan fyrir því að sumir andstæðingar breytinga í átt til kynhlutlausrar málnotkunar nota þau – þeim er í mun að tengja þessar breytingar við eitthvað sem málnotendum býður við. Þeim er það auðvitað í sjálfsvald sett, en þessi orðanotkun er einkar ósmekkleg og ómálefnaleg og óvíst að hún sé málstaðnum til framdráttar.
Höfundur er málfræðingur og málfarslegur aðgerðasinni
Athugasemdir