Fyrir 250 milljónum ára voru öll meginlönd Jarðar samankomin í einni tröllaukinni heimsálfu sem við köllum Pangeu. Sú hafði verið við lýði í tæp 100 milljón ár og var reyndar byrjuð að trosna svolítið í sundur. Enn liðu þó tugir milljóna ára áður en Pangea klofnaði endanlega í tvær minni risaálfur, Lárasíu og Gondwanaland, sem löngu síðar leystust upp í þær dreifðu heimsálfur sem við þekkjum nú.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/W_WGH1ZBUIlQ_500x994_pORwroJU.png)
Einhverjar miklar náttúruhamfarir urðu á þessum tíma — við lokin á hinu svonefnda Permtímabili — og meirihluti allra lífvera á Jörðinni dó út í þeim hamförum, en nægilega margar tegundir lifðu til að lífið náði sér aftur á strik, risaeðlurnar tóku þá fljótlega að þróast og löngu seinna (eftir aðra fjöldaútrýmingu) við spendýrin og við sjálf.
Þegar Jörðin hafði tekið á sig núverandi mynd.
En hvernig mun Jörðin líta út eftir önnur 250 milljón ár?
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og vísindamenn eru nú að leggja síðustu hönd á kort af Jörðinni eins og hún mun líta út þá. Og sjá — þeir boða ykkur heilmiklar breytingar.
Í fyrsta lagi verður þá orðin til ný risaheimsálfa. Öll meginlöndin munu þá hafa safnast saman í eitt og ný Pangea verður til orðin. Þið skuluð líta á hana á meðfylgjandi korti en helstu breytingarnar verða á þennan hátt.
Atlantshafið heldur áfram að víkka og lokum verður það orðið svo vítt að sjálf Afríka smeygir sér inn á það og tekur á „rás“ norður eftir uns Afríka fyllir upp í Norður-Atlantshafið og Atlantshafið skreppur þá saman uns það verður ekki annað en stöðuvatn.
Býsna stórt stöðuvatn vissulega en bara stöðuvatn samt.
Á jöðrum Norður-Ameríku og syðsta hluta Afríku verður núningur mikill og þar mun hlaðast upp mikill fjallgarður og eflaust verður nýr hátindur Jarðar á þeim slóðum.
Því þá verða Himalæja-fjöllin fyrir löngu farin að molast ansi mikið niður og gætu verið orðin frekur lágreistur fjallgarður líkt og kannski Úralfjöllin í Rússlandi eru núna.
Antartíka verður á meðan runnin saman við Suður-Ameríku og mynda þær í sameiningu suðvesturhluta risaálfunnar. Austar hefur Ástralía farið á sannkölluðu spani norður á bóginn og rekist á Asíu. Ástralía og Suðaustur-Asía verða þá í sameiningu mikið landflæmi en milli þeirra og Suður-Ameríku/Antartíku heldur Indlandshafið enn velli sem geysimikið innhaf.
Það gæti verið orðið nokkuð þröngt allra syðst en ætti þó enn að ná saman við úthafið umhverfis, Kyrrahafið í æðra veldi.
Í norðurátt frá Indlandshai verður Miðjarðarhafið orðið að nokkrum stöðuvötnum inni í miklu flæmi.
Asíuflæmið mikla verður nefnilega runnið saman við Afríku í norðri og Ástralíu í suðri. Japan verður vafalaust orðið hluti af meginlandi þegar hleðst upp nýr fjallgarður í kjölfar áreksturs Ástralíu við Asíu.
Hvað með Ísland? Fyrir 250 milljónum ára var Ísland ekki til, heldur fór það að hlaðast upp á flekaskilum þar sem Norður-Ameríka sagði skilið við Evrópu/Asíu þegar Pangea fór að klofna.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/Q8wgevlIYimt_500x974_1DbolfU8.png)
Eftir önnur 250 milljón ár gæti Ísland hafa malast niður í sjóinn á ný en líklegra verður þó að telja að Ísland — eða að minnsta kosti vesturhluti landsins — skrimti enn einhvers staðar langt inni í landi þar sem Norður-Ameríka og Afríka hafa runnið saman.
Fari svo verður Reykjavík — eða sá staður sem eitt sinn var Reykjavík — mjög sennilega í ekki nema 100 kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem Dakar höfuðborg Senegals er núna.
Og kannski varla það.
Þessa stundina telst Dakar vera 5.515 kílómetra frá Reykjavík.
Hugsanlega mun austurhluti Íslands á hinn bóginn fylgja Evrópu/Asíu-flekanum þegar hann þrýstist austur á bóginn undan ásókn Afríku. Ein eða fleiri smáeyjar norður af Evrópu gætu þá verið leifar Austurlands.
Þær verða þó ekki nógu norðarlega til að ná inn á raunverulegt pólsvæði og á þessari Jörð verður heimskautaís óþekkt og væntanlega óskiljanlegt fyrirbæri.
En hver verða íbúar þessarar nýju Pangeu eftir 250 milljón ár? Það er engin leið að segja en svo mikið er þó víst að mennirnir verða ekki til lengur. Þeir verða löngu horfnir, hvort sem þeir hafa einfaldlega orðið útdauðir eða þróast yfir í eitthvað annað — og hugsanlega allt öðruvísi lífverur.
Allt dýralíf hefur umturnast svo gjörsamlega síðustu 250 milljón árin að það er einfaldlega útilokað að spá hvað muni hafa þróast hér á jörð næstu 250 milljón árin.
Við munum aldrei sjá þau dýr, ekki frekar en það áreiðanlega ótrúlega tilkomumikla landslag sem í boði verður í þessari nýju Pangeu eftir 250 milljón ár.
Og heldur ekki jurtirnar sem þá verða á dögum. Fyrir 250 milljónum ára voru blómjurtir ekki til. Svo næstu 250 milljón árin gætu þróast einhverjar alveg splunkunýjar jurtategundir sem við getum ekki einu sinni ímyndað okkur núna.
Næstum synd að fá ekki að njóta þess.
En við höfum nóg að njóta hér og nú.
Ef við skemmum ekki of mikið í kringum okkur — og gætum þess að skrimta enn um sinn.
Hér er svo kortið yfir Jörðina eftir 250 ár sem ég tók traustataki á síðunni Simon shows you maps en ég breytti örlítið.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/TBJXYKoUY58Z_1600x1616_TSYEW7Qt.png)
Athugasemdir (1)