Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Í dag eru 80 ár frá fundi í Kreml sem réði úrslitum í orrustunni um Stalíngrad

Í dag eru 80 ár frá fundi í Kreml sem réði úrslitum í orrustunni um Stalíngrad
Þeir hittust í Kreml: Vasilévskí, Stalín, Sjúkov. „Enginn, fyrir utan okkur þrjá, má vita af þessu í bili,“ sagði Stalín

Í dag, 13. september, eru rétt 80 ár frá því fundur var haldinn í Kreml þar sem segja má að örlög hafi ráðist í einni gríðarlegustu orrustu seinni heimsstyrjaldar en sú var þá nýhafin við Stalíngrad í Suður-Rússlandi.

Þjóðverjar og bandamenn þeirra höfðu að skipan Adolfs Hitlers ráðist inn í Sovétríkin í júní 1941. Markmið þeirra var að gersigra hinn Rauða her Sovétríkjanna í einu vetfangi og knýja Stalín leiðtoga þeirra til uppgjafar. Í fyrstu virtist allt ganga Þjóðverjum í hag. Þeir unnu gríðarleg landsvæði og drápu eða tóku höndum milljónir sovéskra hermanna.

Illskeyttur vetur

Í desember voru þýskir skriðdrekar komnir að borgarmörkum Moskvu, þeir sátu um Leníngrad (Pétursborg) og höfðu náð undir sig Kyiv.

En þá stöðvaðist sóknin, meðal annars vegna þess að illskeyttur vetur fór í hönd. Þá var mótspyrna Rauða hersins — þrátt fyrir alla ósigrana — miklu meiri en Hitler og nótar hans höfðu ímyndað sér, og sömuleiðis framleiðslugeta hergagnaiðnaðarins í Sovétríkjunum.

Vorið eftir réðu Þjóðverjar enn stórum svæðum Sovétríkjanna en nú ákvað Hitler að næsta stórsókn skyldi ekki beinast að Moskvu — eins og Stalín var þó lengi viss um — heldur skyldi stefnt suður til Kákasus og olíulindanna miklu í Bakú í Aserbædjan.

Málið var að þýska hernaðarvélin stóð frammi fyrir sívaxandi eldsneytisskorti og brýnt að útvega nýjar olíulindir.

Hitler beinir sjónum að Stalíngrad

Sókn Þjóðverja í átt til Kákasus hófst um mitt sumar 1942 og virtist ganga vel til að byrja með. Eftir því sem leið á sumarið varð Hitler hins vegar uppteknari af borginni Stalíngrad við Volgu, sem var þó eiginlega í útjaðri þess svæðis sem þýska hernum var ætlað að ná í þessum áfanga.

Stalíngrad var vissulega mikilvæg iðnaðarborg og samgöngumiðstöð við Volgu neðanverða en í hinu stóra samhengi skipti hún Þjóðverja þó nánast engu máli. Það myndi ekki ráða neinu um framgang stríðsrekstursins í fyrirsjáanlegri framtíð hvort Þjóðverjar réðu Stalíngrad eða ekki.

Fyrir Hitler var stríðið hins vegar í ótrúlega miklum mæli persónulegt uppgjör hans við heiminn og hann afréð því að niðurlægja Stalín með því að leggja undir sig borgina sem við hann var kennd.

Heilum þýskum her, 6. hernum, var því snúið frá sókninni til Kákasus og beint til Stalíngrad.

Afleiðingin var sú að sóknin til olíulindanna í Bakú rann út í sandinn.

En framan af virtist allt ganga Þjóðverjum í hag við Stalíngrad. Í byrjun september var þýski herinn kominn inn í úthverfi borgarinnar, en hún stóð þá fyrst og fremst á vestari bakka Volgu. Rauði herinn reyndi gagnsókn en hún fór út um þúfur. Örlög borgarinnar virtust ráðin.

Tíu dagar eftir

Þann 12. september var haldinn fundur Hitlers með Paulusi yfirmanni 6. hersins, Halder yfirmanni þýska hersráðs og fleiri pótintátum þýska hersins.

Fundurinn fór fram í borginni Vinnitsa í miðri Úkraínu, sem Þjóðverjar héldu þá, og þýsku herforingjunum varð fljótt ljóst að Hitler hafði ekki áhuga á neinu nema að taka Stalíngrad.

Hann spurði hreint út hve langt yrði þangað til borgin félli.

Paulus svaraði að hann þyrfti tíu daga til viðbótar til að hrekja Rauða herinn burt úr borginni og svo tvær vikur til að „hreinsa til“.

Í byrjun október yrði borgin sem sé tryggilega á valdi Þjóðverja.

En sama dag var líka haldinn fundur í Kreml þar sem helstu herforingjar Rauða hersins, þeir Georgí Sjúkov og Alexander Vasilévskí, gengu á fund Stalíns.

Einræðisherrrann krafðist þess að fá að vita hvers vegna gagnsóknin fyrrnefnda hefði ekki gengið. Sjúkov svaraði því til að það hefði einfaldlega vantað bæði hergögn og mannskap og stuðning úr lofti.

„Hvað þýðir „önnur lausn“?“

Stalín fór að rannsaka kort en þeir Sjúkov og Vasilévskí fóru saman út í horn á herberginu í Kreml og ræddu í hálfum hljóðum um hvað hægt væri að gera. Þeir voru báðir sammála að það yrði að finna aðra lausn en bara að henda sífellt meiri mannskap og hergögnum inn í Stalíngrad.

Stalín hafði næma heyrn og kallaði allt í einu til þeirra:

„Og hvað þýðir „önnur lausn“?“

Þeir hrukku í kút en höfðu ekki svör á reiðum höndum. Stalín sagði þeim þá að fara í aðalstöðvar herráðsins og finna lausn sem dygði. Þeir gerðu það og næsta sólarhringinn skoðuðu þeir alla kosti gaumgæfilega.

Og undir kvöld þann 13. september 1942 voru þeir komnir aftur á fund Stalíns.

Stalín heilsaði þeim með handabandi sem var óvenjulegt að sögn Antony Beevors sem rannsakað hefur orrustuna við Stalíngrad flestum betur.

„Við erum sammála“

„Hvað lausn hafið þið fundið?“ spurði Stalín svo. „Hvor ykkar ætlar að gefa mér skýrslu?“

„Skiptir ekki máli,“ sögðu þeir, „við erum sammála.“

Og svo sýndu þeir Stalín áætlunina sem þeir höfðu sett saman.

Í mjög stuttu máli gekk hún út á að spenna Stalíngrad sem gríðarlega gildru fyrir 6. þýska herinn. Rauði herinn skyldi hopa inn í borgina, verjast af öllum sínum mætti og berjast um hvert hús, en samt gera í rauninni ekki alvöru tilraun til að stöðva sókn Þjóðverja inn í borgina.

Planið var að draga orrustuna á langinn.

Ef tækist að tefja fyrir Þjóðverjum í tvo mánuði, og halda þeim uppteknum við götubardaga í Stalíngrad, þá mætti á meðan safna ógrynni liðs og hergagna beggja megin við víglínuna við borgina og sækja svo fram í skyndingu og umkringja Stalíngrad og 6. herinn einmitt þegar Hitler héldi að borgin væri endanlega að falla.

Áætlun Úranus

Stalín var ekki ánægður. Hann var hræddur um að Stalíngrad myndi falla löngu áður en tækist að safna nægum herafla til að hefja tangarsóknina óvæntu. 

En þeim Sjúkov og Vasilévskí tókst að sannfæra hann og þennan 13. september fyrir 80 árum varð ætlun Úranus til.

Skemmst er frá því að segja að allt gekk nákvæmlega eins og Sjúkov og Vasilévskí ætluðu. Bardagar í Stalíngrad urðu gríðarlega grimmir og mannskæðir en Rauði herinn hélt velli þangað til 19. nóvember þegar Úranus brast á— sókn úr norðri töluvert handan við Stalíngrad. Þann 25. nóvember hófst svo sókn úr suðri.

Áætlun Mars var sú sókn kölluð.

Þýski herinn lokaðist inn í Stalíngrad eins og Sjúkov og Vasilévskí höfðu séð fyrir og í byrjun febrúar 1943 gáfust örmagna leifar hans upp. 

Svo fundurinn í Kreml fyrir 80 árum var heldur betur örlagaríkur.

Því ef Rauði herinn hefði farið þá leið sem Stalín vildi fyrst — og sótt strax fram við Stalíngrad — hefði orrustan orðið jafnvel enn blóðugri en raun bar vitni og hefði getað endað allavega. Og þýski herinn hefði altént áreiðanlega ekki beðið jafn afdráttarlausan ósigur og raun varð á.

Stríðið hefði eflaust dregist á langinn.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Kýs svo ekki verði farið með dæturnar eins og föður þeirra
3
FréttirUm hvað er kosið?

Kýs svo ekki verði far­ið með dæt­urn­ar eins og föð­ur þeirra

Þrátt fyr­ir að hafa ver­ið ís­lensk­ur rík­is­borg­ari í 12 ár hef­ur Patience Afrah Antwi ein­ung­is einu sinni kos­ið hér á landi. Nú ætl­ar hún að ganga að kjör­kass­an­um fyr­ir dæt­ur sín­ar. Mæðg­urn­ar hafa mætt for­dóm­um og seg­ist Patience upp­lifa sig sem fjórða flokks vegna brúns húðlitar. Hún fann skýrt fyr­ir því þeg­ar eig­in­mað­ur henn­ar, og fað­ir stúlkn­anna, veikt­ist al­var­lega fyr­ir sjö ár­um síð­an. Hann lést í fyrra.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
2
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár