Síldarvinnslan í Neskaupstað var ekki að kaupa Vísi. Samherji var að kaupa Vísi, í kompaníi við hóp sem fyrrverandi forstjóri Samherja tilheyrir og rekur útgerðarfélagið Gjögur á Grenivík.
Samanlögð kvótaeign þessara tveggja hópa, fyrir Vísiskaupin, var þannig, að fyrir tæpu ári voru yfirráð og afsal eins af hverjum fimm óveiddum fiskum á Íslandsmiðum, geymd á forstjóraskrifstofu Samherja, sem þeir deildu þá tveir, Þorsteinn Már Baldvinsson og Björgólfur Jóhannsson.
Engu breytti þó að á Íslandi séu í gildi lög sem segja að enginn hópur tengdra aðila megi hafa yfirráð yfir meira en sem nemur 12% af öllum aflaheimildum við Ísland. Lögin voru sett gagngert til að tryggja að kvóti safnaðist ekki á hendur of fárra. Og þar sem markmiðið með þeim var nákvæmlega það, var sérstaklega rætt um það af nefndinni sem skrifaði lögin að túlka ætti þau þröngt.
Þessi lög voru ekki sett af andstæðingum kvótakerfisins eða ímynduðum fjandmönnum útgerðarinnar. Nefnd undir forystu Baldurs Guðlaugssonar, sem í sat meðal annars Einar K. Guðfinnsson, seinna ráðherra sjávarútvegsmála, skrifaði lögin, sem voru sett undir ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.
Fiskistofu var falið að sjá til þess að lögin yrðu virt. En eins og nú er vitað gerði hún það aldrei. Og samkvæmt svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Fiskistofu, lét stofnunin sér nægja að taka við og birta tilkynningar útgerðanna sjálfra um stöðuna, ár eftir ár. Og sýndi hvorki frumkvæði að því að kanna eða grípa inn í, í samræmi við skyldur sínar. Stofnunin bar fyrir sig að lögin væru óskýr.
Hugtakið tengdur aðili virðist einhverra hluta vegna hvergi í víðri veröld vera óskýrara en í landi þar sem allir eru tengdir öllum og hafa því til staðfestingar aðgang að appi í símanum sínum.
Raunar er það enn þannig, öllum þessum árum eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út, að Fiskistofa er enn að birta árlegan lista sinn yfir kvótahæstu útgerðir, án þess að svo mikið sem að gúggla fyrirtækin sem þar eru listuð upp. Þetta sést vel á því að enn þann dag í dag eru fyrirtæki sem jafnvel eru alfarið í eigu stærri fyrirtækja, listuð upp sem sjálfstæðir kvótahafar. Þess vegna eru tölurnar sem Fiskistofa birtir samviskusamlega einu sinni á ári, undir því yfirskini að vera að vakta „Samþjöppun aflaheimilda“, beinlínis villandi og rangar.
Þetta vita stjórnmálamenn. Þess vegna var það eiginlega meira fyndið en ósvífið þegar nýr matvælaráðherra lét þau boð út ganga, nýtekin við embættinu og málaflokki sjávarútvegsins, að hún vildi að Fiskistofa efldi eftirlit með samþjöppun aflaheimilda, nú í byrjun árs. Forsvarsmenn Fiskistofu birtu af því tilefni frétt á vefsvæði stofnunarinnar, undir mynd af togara að sigla út úr blóðrauðu sólarlagi í geri sjófugla, þar sem sagði:
„Fiskistofa mun bregðast við tilmælum ráðherra með þeim úrræðum sem stofnunin býr yfir. Eftirlit með samþjöppun aflaheimilda er vandasamt, einkum vegna óskýrra lagaákvæða og ófullnægjandi aðgangs að rauntíma upplýsingum um eignarhald og tengsl.“
Síldarvinnslan er deild í Samherja. Skráning félagsins á markað í fyrra og lækkandi eignarhlutur Samherja, breytir þar í raun engu. Nærtækast er að spyrja Samherjamenn sjálfa sem kynnt hafa Síldarvinnsluna sem uppsjávardeild Samherja og útibú, þegar Íslendingar hafa ekki séð til eða heyrt. Í uppgjöri Síldarvinnslunnar eru viðskipti við Samherja sérstaklega tilgreind sem viðskipti tengdra aðila. Á sama tíma hefur deildarstjórinn í Neskaupstað brugðist reiður við því þegar bent var á hið augljósa, að Samherji og Síldarvinnslan væru tengd fyrirtæki, en ekki ótengd eins og eigendurnir héldu fram og yfirvöld skrifuðu upp á. Dylgjur, kallaði hann það. Og stofnanir samfélagsins kinkuðu kolli.
Samkeppniseftirlitið hefur í tvígang listað upp augljósar ástæður fyrir því að hefja rannsókn á því hvort stofnanir og löggjafinn hafi í raun verið blekktar þegar haldið var fram að Síldarvinnslan og Samherji væru ótengdir aðilar. Í fyrra skiptið hætti rannsóknin áður en hún byrjaði. Það var bara ekki tími, eða mannskapur tiltækur. Þá hafði Samkeppniseftirlitið þegar séð skýrar vísbendingar um að Samherji hefði meira yfir Síldarvinnslunni að segja en gefið var til kynna.
Og fyrir ári síðan gerðist það aftur að Samkeppniseftirlitið gaf til kynna að enn hefðu komið fram upplýsingar sem bentu til þess sama og nú væri líka til skoðunar hvort forsvarsmenn þessara fyrirtækja hefðu veitt rangar upplýsingar, þegar þeir reyndu að sverja af sér yfirráðin áður. Síðan er liðið ár. Og nú ári seinna er Samkeppniseftirlitið enn að ákveða sig.
Samanlagt er að verða áratugur síðan Samkeppniseftirlitið varð þess fyrst vart, að eigin sögn, að ekki færi saman að Samherji hefði meirihlutavald í stjórn Síldarvinnslunnar, seldi afurðir Síldarvinnslunnar og hefði annars konar samstarf um reksturinn sem benti ekki til þess að félögin væru ótengd.
Þetta allt og sú einfalda staðreynd að forstjóri Samherja hefur stærstan hluta þessa tíma verið, og er enn, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, hafði fyrir löngu hringt bjöllum í höfði allra sem vildu sjá. En ekki þeirra sem fara með vald í og yfir eftirlitsstofnunum á Íslandi.
Og nú þegar Samherji og frændur þeirra hafa tekið yfir Vísi hf. í Grindavík, gerist það auðvitað að stjórnmálamenn fara að viðra áhyggjur sínar af samþjöppun aflaheimilda. En kaupa sér tíma með því að vísa til þess að Samkeppniseftirlitið eigi nú eftir að blessa samrunann.
Á meðan fáum við að heyra grútskýringar deildarstjórans austur í Neskaupstað, um að það sé nú bara dulítið sérstakt að líta á það sem einhverja samþjöppun þegar Vísisfjölskyldan gangi inn í fimm þúsund manna hluthafahóp Síldarvinnslunnar. Hóp sem hefur, ef að líkum lætur, allur sem einn, hnífjafnt húsbóndavald yfir honum og fyrirtækinu. Alls ótengdur innbyrðis.
VIÐ lifum í landi sem er í dag lokað fyrir upplýsingum á erlendum mótmælum almennings gegn spillingu stjórnvada í viðkomandi löndum, og breiðist hratt út. Varðandi sorteringu á fréttum til almennings hérlendis þá, Kína og Rússland hvað. Hafðu þökk fyrir að berjast áfram og upplýsa hvað er raunverulega að gerast leynt og ljóst í besta landi í heimi Helgi. Áfram svona. Vona að fleiri þori að tjá sig. Horfðu samt um öxl og hafðu varan á..
Fólk þarf að hætta meðvirkni og nota atkvæði sitt til að gera sitt líf betra .
Eða á að halda áfram að stating the obivious ?
Að kerfið er spillt er augljóst.. hvort það eru fólkið eða kerfið er ekki jafn ljóst... en orð og umræða hefur öngva þýðingu nema það valdi hvatamyndun og það þýðir að við þurfum að refsa samstarfsmönnum spillingar harðlega... ekki bara þeim sem í "hinum" hópnum.
Því lög án viðurlaga ( nógu harðra til að valda nægjanlega sterkum hvata til að brjóta þau ekki ) og reglur án viðurlaga... eru bara lög til leiðbeininga og reglur til ráðlegginga því heiðarlegt fólk þarf ekki lögin... þau eru bara sett til að taka á brotum ... svo já flest lögin okkar eru bara sýndarlög... enda eigum við ekkert skattrannsóknarembætti lengur né fjármálaeftirlit... þau eru bara skúffur hjá öðrum.... og fjölmiðlar þegja þunnu hljóði.