„Það er skammt stórra högga á milli, en það þýðir ekkert að hengja haus. Við munum ganga í þetta mál af festu og gefumst ekki upp fyrr en við höfum upprætt þessa déskotans flensuveiru úr umhverfinu þarna fyrir austan,“ sagði Gísli Jónsson, yfirlæknir fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun Íslands, í tölvupósti til meðlima fiskisjúkdómanefndar í lok maí. Í tölvupóstinum ræddi hann um fiskisjúkdóminn ISA-veiru sem kom upp í sjókvíum laxeldisfyrirtækisins Fiskeldi Austfjarða í Berufirði.
ISA-veiran getur valdið sjúkdómnum blóðþorra. Sá sjúkdómur getur valdið innvortis blæðingum í löxum og dregið þá til dauða. Sjúkdómurinn getur smitast á milli laxa en einnig með búnaði sem notaður er í laxeldi ef hann kemst í návígi við ósýkta laxa. Að öllum líkindum er það hið síðarnefnda sem hefur gerst hér á landi: ISA-veiran hefur borist á milli laxeldisstöðva á Austurlandi með tækjum eða búnaði frekar en með eldislöxum.
Athugasemdir