Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Elísabet drottning er VÍST úr Víðidalnum!

Elísabet drottning er VÍST úr Víðidalnum!
Elísabet frænka með íslensku fálkaorðuna

Vart hefur farið framhjá neinum að undanfarna daga hefur verið haldið upp á það í Bretlandi — og jafnvel víðar — að 70 ár eru síðan Elísabet 2. settist í hásæti sem drottning Bretlands. („Settist að völdum“ og „valdaafmæli“ er eiginlega vitlaust orðalag því raunveruleg völd hennar eru næstum engin.)

Af þessu tilefni var einhvers staðar rifjuð upp í glensi sagan af því þegar Erlendur Einarsson forstjóri SÍS 1955-1986 lét eitt sinn útbúa ættartölu sem átti að sýna fram á frændsemi hans við Elísabetu en sá oflátungsháttur þótti harla fyndinn hér á landi.

Frændsemin átti að vera gegnum Auðun skökul landnámsmann í Víðidal í Húnavatnssýslu.

Það þótti sérlega fyndið að viðurnefni Auðuns, skökull, þýðir auðvitað ekkert annað en typpi á graðhesti.

En sannleikurinn er reyndar sá að ef tekið er mark á þeim heimildum sem til eru, þá er þessi ættfærsla vissulega rétt.

Ég skal nú rekja ætt Elísabetar allt aftur í Víðidalinn. Og athugið að hér er ekki farið með fleipur íslenskra ættfræðinörda. Allar ættfærslur til og með árinu 1000 eru samkvæmt nýjustu upplýsingum af Wikipediu, og ef það er eitthvað sem Wikipedia er góð í, þá eru það ættir „hefðarfólks“.

Þið getið sjálf rakið ykkur á alfræðisíðunni aftur til ársins 1000.

Rétt er að vekja athygli á að í listanum hér á eftir eru innan sviga við nöfnin til 1700 valdatími konunga og drottninga, en eftir það eru í svigunum fæðingar- og dánarár eftir því sem best er vitað.

Faðir Elísabetar var Georg 6. konungur Breta (1936-1952).

Faðir hans var Georg 5. konungur (1910-1936).

Faðir hans var Játvarður 7. konungur (1901-1910).

Móðir hans var Viktoría drottning (1837-1901).

Faðir hennar var Játvarður hertogi af Kent.

Faðir hans var Georg 3. konungur (1760-1820).

Faðir hans var Friðrik prins af Veils.

Faðir hans var Georg 2. konungur (1727-1760).

Faðir hans var Georg 1. konungur (1714-1727).

Faðir hans var Ernest Augustus hertogi af Hanover (f.1629-d.1698).

Faðir hans var Georg hertogi af Brúnsvík (1582-1641).

Faðir hans var Vilhjálmur hertogi af Brúnsvík (1535-1592).

Faðir hans var Ernest hertogi af Brúnsvík (1497-1546).

Faðir hans var Hinrik hertogi af Brúnsvík (1468-1532).

Faðir hans Ottó veglyndi hertogi af Brúnsvík (1439-1471).

Faðir hans var Friðrik guðhræddi hertogi af Brúnsvík (1418-1478).

Faðir hans var Bernharður hertogi af Brúnsvík (1360-1434).

Faðir hans var Magnús „með hálskeðjuna“ hertogi af Brúnsvík (1324-1374).

Faðir hans var Magnús guðhræddi hertogi af Brúnsvík (1304-1369).

Faðir hans var Albert feiti hertogi af Brúnsvík (1268-1318).

Faðir hans var Albert stóri hertogi af Brúnsvík (1236-1279).

Faðir hans var Ottó barn hertogi af Brúnsvík (1204-1252).

Faðir hans var Vilhjálmur lávarður af Luneburg (1184-1213).

Faðir hans var Hinrik ljón hertogi af Saxlandi (1130-1195).

Faðir hans var Hinrik drambláti hertogi af Bæjaralandi (1108-1139).

Móðir hans var Úlfhildur af Saxlandi (1072-1126).

Faðir hennar var Magnús hertogi af Saxlandi (1045-1106).

Móðir hans var Úlfhildur hin norska (1020-1071).

Faðir hennar var Ólafur digri Noregskonunugur (995-1030).

Móðir hans var Ásta Guðbrandsdóttir (975-1025).

Móðir hennar var Úlfhildur, væntanlega fædd um 950.

Móðir hennar var Þóra mosháls, væntanlega fædd um 920.

Faðir hennar var Auðun skökull, væntanlega fæddur um 860-870, ef hann var í rauninni til.

Í 400 ár voru forfeður og -mæður Elísabetar valdafólk í Brúnsvík.Þótt íslenskun á nafninu virðist gefa til kynna vík við sjó, þá er Brúnsvík (Braunschweig) langt inni í landi, þar sem bláa táknið er. „Vík“ þýðir í þessu tilfelli sennilega áfanga- eða hvíldarstað.

Um Auðun skökul (hafi hann verið til) er fátt vitað, nema Landnámabók segir að faðir hans hafi heitið Björn einhver, en sá hafi verið sonur Hunda-Steinars, jarls á Englandi, og Álöfar, dóttur Ragnars loðbrókar.

Ragnar loðbrók var þjóðsagnapersóna á Norðurlöndum, sem gerði hervirki á Englandi í upphafi víkingaaldar, en óvíst er hvort hann var tómur tilbúningur eða átti sér einhvers konar fyrirmynd.

Eins og ég sagði hér fremst: Heimildir eru ætt Elísabetar allt frá henni og til Ólafs digra eru svona þokkalega áreiðanlegar, með öllum hugsanlegum fyrirvörum þó.

Þetta gæti að minnsta kosti verið svona!

Heimild að þremur elstu ættliðunum — frá móður Ástu Guðbrandsdóttur til Auðuns skökuls — hún er aftur á móti aðeins ein: Landnámabók sem upphaflega er talin hafa verið skrifuð á fyrri hluta 12. aldar. Þar segir:

„Auðun skökull fór til Íslands og nam Víðidal og bjó á Auðunarstöðum. […] Auðun skökull var faðir Þóru mosháls, móður Úlfhildar, móður Ástu, móður Óláfs konungs hins helga [eða digra].“

Meira er það nú ekki.

Þegar Snorri Sturluson skrifaði sögu konunganna Ólafs Tryggvasonar og Ólafs digra um það bil eftir að fyrsta gerð Landnámu var skrifuð, þá getur hann um Ástu Guðbrandsdóttur móður Ólafs digra en nefnir ekki hver móðir hennar hafi verið. Samkvæmt því treystir Norsk biografisk leksikon sér ekki til að slá því föstu — hvað sem Landnáma segir — að móðir Ástu Guðbrandsdóttur hafi verið Úlfhildur dótturdóttir Auðuns skökuls, því „morens navn er ikke kjent“ segir þar aðeins.

Það breytir því þó ekki að samkvæmt ÞEIRRI EINU HEIMILD SEM TIL ER, þá var Ásta Guðbrandsdóttir ættuð úr Víðidal.

Hér verðum við að vísu að líta framhjá því að flestir seinni tíma fræðimenn telja heimildagildi Landnámu lítið, og jafnvel afar lítið, en það er sama:

Þetta segir samt eina heimildin sem er til!

Og samkvæmt því þá ER Elísabet 2. Bretadrottning ættuð úr Víðidalnum.

En svo er náttúrlega spurning hvort einhverjir maðkar kunni að leynast víðar á ættartrénu. Hélt einhver framhjá einhverjum einhvern tíma?

Hefur slíkt einhvern tíma gerst í þessum prúðu ættum fyrirfólksins?

En það, eins og sagt er, er önnur saga.

Auðunarstaðir í VíðidalMyndin er af Sarpi Þjóðminjasafnsins.
Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Júlíus Guðni Antonsson skrifaði
    Takk fyrir þessa samantekt, ég sem fyrrum bóndi á Auðunarstöðum og afkomandi Auðuns Skökuls í 32. lið eins og Beta frænka, hef gaman af þessu en vil samt benda á að Elísabet getur varla talist vera ættuð úr Víðidalnum þar sem Þóra Moðháls var fædd útií Noregi og fór aldrei til Íslands. Það er síðan gaman af því að seigja frá því að þegar ég rek ættir mínar til Auðuns Skökuls þá er það í gegnum fyrstu biskupsfrú landsins Döllu Þorvaldsdóttur sem og Steinunni fylgikonu Jóns Arasonar biskups. Ótrúlegt en satt að hátt í 1/3 þeirra sem eru í þessari 32 ættliða keðju hafa búið á Auðunarstöðum.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Árásin á Bastilluna: Franska byltingin hófst með því að geðveikir kynferðisglæpamenn og falsarar voru frelsaðir
Flækjusagan

Árás­in á Bastill­una: Franska bylt­ing­in hófst með því að geð­veik­ir kyn­ferð­is­glæpa­menn og fals­ar­ar voru frels­að­ir

Í dag, 14. júlí, er Bastillu­dag­ur­inn svo­kall­aði í Frakklandi og er þá æv­in­lega mik­ið um dýrð­ir. Dag­ur­inn er yf­ir­leitt tal­inn marka upp­haf frönsku bylt­ing­ar­inn­ar ár­ið 1789 þeg­ar feyskinni ein­valds­stjórn Bour­bon-ætt­ar­inn­ar sem hrund­ið frá völd­um. Bylt­ing­in var gerð í nokkr­um áföng­um en vel má segja að eft­ir 14. júlí hafi ekki ver­ið aft­ur snú­ið. Basill­an var virki í Par­ís­ar­borg sem hýsti...
Saga Írans 5: Kameldýrakarl frá Baktríu, frumlegasti trúarhöfundur sögunnar
Flækjusagan

Saga Ír­ans 5: Kam­eldýra­karl frá Baktríu, frum­leg­asti trú­ar­höf­und­ur sög­unn­ar

Í síð­ustu grein (sjá hana hér) var þar kom­ið sögu að stofn­andi Persa­veld­is, Kýrus hinn mikli, var horf­inn úr heimi. Það gerð­ist ár­ið 530 FT en áhrifa hans átti eft­ir að gæta mjög lengi enn og má vel segja að Kýrus sé enn af­ar vold­ug­ur í hug­ar­heimi Ír­ana. En nú spóla ég að­eins aft­ur í tím­ann og dreg fram ann­an...

Mest lesið

Einn á skútunni í 312 daga: „Ég er minn eigin herra“
4
Viðtal

Einn á skút­unni í 312 daga: „Ég er minn eig­in herra“

„Ég er nú meira fífl­ið, hvað er ég eig­in­lega að gera hér?“ hugs­aði sir Robin Knox Johnst­on með sér þeg­ar hann var að sigla und­an strönd­um Ástr­al­íu og heyrði tón­list­ina óma frá landi. Sú hugs­un varði ekki lengi og hann hefði aldrei vilj­að sleppa þeirri reynslu að sigla einn um­hverf­is jörð­ina. Nú hvet­ur hann aðra til að láta drauma sína ræt­ast, áð­ur en það verð­ur of seint.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hann var búinn að öskra á hjálp
2
Viðtal

Hann var bú­inn að öskra á hjálp

Hjalti Snær Árna­son hvarf laug­ar­dag­inn 22. mars. For­eldr­ar hans lásu fyrst um það í frétt­um að hans væri leit­að í sjón­um, fyr­ir það héldu þau að hann væri bara í göngu­túr. En hann hafði lið­ið sál­ar­kval­ir, það vissu þau. Móð­ir Hjalta, Gerð­ur Ósk Hjalta­dótt­ir, lýs­ir því hvernig ein­hverf­ur son­ur henn­ar gekk á veggi allt sitt líf, og hvernig hann veikt­ist svo mik­ið and­lega að þau voru byrj­uð að syrgja hann löngu áð­ur en hann var dá­inn.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár