Norskur eigandi laxeldisfyrirtækisins Arnarlax á Bíldudal ætlar að kaupa norska fyrirtækið sem á Arctic Fish á Ísafirði. Um er að ræða tvö stærstu laxeldisfyrirtæki Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu og kynningu um samrunann til norsku kauphallarinnar í morgun. Fyrir vikið verður til einn mjög stór aðili í laxeldi á Íslandi en í fréttatilkynningunni er talað um þau verulegu samlegðaráhrif sem fyrirsjáanlegt er að verði í rekstri fyrirtækjanna tveggja hér á landi. Samruninn hefur verið til umræðu um nokkurt skeið en nú liggur hann fyrir.
„Í sameiningu geta þessir aðilar náð fram verulegum samlegðaráhrifum“
Í tilkynningunni til kauphallarinnar í Noregi segir meðal annars um samlegðaráhrifin á Íslandi: „Báðir aðilar eru með starfsemi á Vestfjörðum á Íslandi í gegnum fyrirtækin Icelandic Salmon (sem SalMar á) og Arctic Fish (sem NRS á). Í sameiningu geta þessir aðilar náð fram verulegum samlegðaráhrifum í gegnum bættan rekstur á sjó auk verulegrar bætingar í virðiskeðjunni í landi, meðal annars í seiðaeldi, vinnslu og sölu.“
Samanlögð framleiðsla áætluð tæp 27 þúsund tonn
Í kynningunni á samrunanum er rakið hvernig áætluð framleiðsla Arnarlax í ár er 16.000 tonn og framleiðsla Arctic Fish er áætluð 10.600 tonn. Svo segir að möguleg heildarframleiðsla fyrirtækjanna tveggja eftir samneiningu þeirra geti orðið 50 þúsund tonn ef leyfin til framleiðslu, það er að segja kvóti í laxeldi, sem bæði fyrirtækin eiga verður nýttur.
Framleiddu rúman helming í fyrra
Til að setja stærð þessara tveggja fyrirtækja í samhengi þá voru framleidd 44.504 tonn af eldislaxi í íslenskum sjókvíum í fyrra. Af þessum tonn framleiddi Arnarlax 11.563 tonn og Arctic Fish 11.500 tonn. Um er að ræða rúmlega 53 prósent af allri framleiðslu á eldislaxi í sjókvíum á Íslandi í fyrra. Sé horft til framleiðslunnar á Vestfjörðum þá er um að ræða 87,5 prósent af þeim eldislaxi sem framleiddur var í þeim landshluta í fyrra.
Rúmur helmingur af framleiðslunni í íslensku laxeldi, miðað við tölur fyrir árið í fyrra, verður því í eigu eins og sama norska aðilans.
Í tilkynningunni er talað um að eftir samrunann verði heiti félagsins Salmar AS en ekki er tekið fram hvort Arnarlax og Arctic Fish muni renna undir einn hatt og nafn þó samvinna verði milli fyrirtækjanna.
Athugasemdir (1)