Píratar kynntu kosningastefnu sína í dag undir yfirskriftinni „Lýðræði - ekkert kjaftæði“ og boða þar að skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku flokksins sé „ný stjórnarskrá á grundvelli vinnu stjórnlagaráðs“ og „þjóðaratkvæðagreiðsla samhliða þarnæstu kosningum“.
Í nýrri ítarlegri kosningastefnu Pírata, sem telur yfir 13 þúsund orð og ótilgreindan milljarða króna í útgjaldaaukningu, eru áform um að endurskoða „öll opinber útgjöld“ og uppræta fátækt með „skilyrðislausri grunnframfærslu“.
Píratar flokka stefnu sína eftir innleiðingartíma í fyrstu skref, á kjörtímabilinu og til framtíðar. Boðuð er skattalækkun til framtíðar, en strax í fyrstu skrefum vilji Píratar „stigvaxandi skattkerfi þar sem lægstu skattar lækka og hæstu skattar hækka“.
Boða „velsældarhagkerfi“
Líkt og vinstri flokkarnir vilja Píratar fjármagna aukin útgjöld með því að skattleggja þá ríku.
Ólíkt hefðbundinni vinstri stefnu boða þau hins vegar skattalækkanir á laun og neyslu til langs tíma. „Við viljum skattleggja meira af auði og arði en minna af launum og eðlilegri neyslu. Þá verður öll mengun skattlögð í rauntíma.“
Samtímis segjast Píratar ætla að endurskoða öll útgjöld, án þess að það sé útfært nánar í lýsingu á stefnunni. „Við viljum víðtæka endurskoðun á opinberum útgjöldum til að skapa rými til nýrra útgjalda,“ segja þau.
Eitt af lykilkosningaloforðum Pírata er að persónuafsláttur verði greiddur út til þeirra sem nýta hann ekki, en fram að þessu hefur hann aðeins virkað í þá átt að lækka skatta fólks af launagreiðslum þess. Að auki verði barnabætur ekki lengur tekjutengdar, heldur fylgi þær barninu en „ekki tekjusögu foreldra“. Einnig verði frítekjumark öryrkja hækkað og þeir þar með látnir borga minni skatta af aukatekjum sem þeir vinna sér inn.
Hvað varðar aðrar fjármögnunarleiðir til að tryggja skilyrðislausa lágmarksframfærslu og skattalækkanir, er ekki að sjá tæmandi eða útreiknaða útlistun í stefnu Pírata. Þeir boða hins vegar almennt að „mengandi og auðugir bera byrðarnar“.
Ólíkt vinstri flokkunum, sem boða velferðarsamfélag, boða Píratar „velsældarhagkerfi“.
Eldri stefnumál Pírata eru áfram í sjávarútvegsstefnunni, meðal annars uppboð á kvóta og að allur afli fari í gegnum innlendan markað.
Hverfa frá Hálendisþjóðgarði
Í síðustu kosningastefnu, árið 2017, lögðu Píratar áherslu á Miðhálendisþjóðgarð, sem á endanum varð hluti af stefnuskrá sitjandi ríkisstjórnar, en náði ekki fram að ganga vegna andstöðu innan ríkisstjórnarinnar. Þótt ekki sé rætt um hálendisþjóðgarð segjast þeir „vilja vernd miðhálendisins í lýðræðislegt ferli svo hægt sé að tryggja vernd hálendisins í þágu komandi kynslóða“.
Græn stefnumál eru áberandi hjá Pírötum að þessu sinni. Árið 2017 vildu þau rafbílavæðingu, en nú er áhersla á „grænvæðingu atvinnulífsins“ og langtímastefna fyrir „vistvæna og kolefnishlutlausa matvælaframleiðslu“, „auk þess að girða fyrir sjálfseftirlit mengandi fyrirtækja“, svo og hringrásarhagkerfi og aðgerðir gegn mengun hafsins, auk annars.
Þjóðaratkvæði skilyrði
Þá er forsenda viðræðna við Evrópusambandið um aðild sú að fyrirfram verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla, en ekki eftir á, eins og var gert í vinstri stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna á sínum tíma.
Skilyrði um nýju stjórnarskrána, sem er úrslitaatriði fyrir stjórnarsamstarfi, byggir á málefnavinnu frá því í júlí. „Píratar munu einungis taka þátt í myndun ríkisstjórnar sem skuldbindur sig til þess að kjósa um nýju stjórnarskrána á næsta kjörtímabili,“ segir í kosningastefnunni.
Ekki sami samhljómur með VG
Á sama tíma og Píratar setju nýju stjórnarskrána sem skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi hafa Vinstri græn horfið frá fyrirætlunum um að taka upp nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs. VG stefni árið 2017 að því að „ljúka vinnu“ við að klára „nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs“. Í stjórnmálaályktun nýafstaðins landsfundar var breytt stefna gagnvart stjórnarskránni, þar sem áherslan var á endurskoðun hennar í þrepum. „Halda þarf áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar. Löngu er tímabært að ný ákvæði um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd hljóti afgreiðslu Alþingis en einnig þarf að ráðast í tímabærar breytingar á öðrum köflum.“
Því gæti þetta stefnumál Pírata sett ríkisstjórnarmyndun samkvæmt Reykjavíkurmódelinu, með Vinstri grænum, Samfylkingu og Viðreisn, í uppnám fremur en að virka til sameiningar.
Leggja niður Útlendingastofnun
Meðal annarra stefnumála eru „færri próf og minni páfagaukalærdómur“ í skólum, launahækkanir kennara og að breyta námslánum í styrki í vaxandi mæli. Þá vilja Píratar „leggja niður Útlendingastofnun í núverandi mynd og fela verkefni stofnunarinnar öðrum embættum, svo sem Þjóðskrá og sýslumönnum“ til þess að leggja áherslu á hraðari, einfaldari og notendavænni meðferð umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt.
Kosningastefna Pírata 2021 inniheldur önnur klassísk stefnumál flokksins, svo sem aukið gagnsæi, sjálfvirknivæðingu, áherslu á stuðning við nýsköpun og styrking eftirlitsstofnana.
Á endanum segjast Píratar ætla að „skapa rými til nýrra útgjalda án þess að hækka þurfi heildarskatta eða að ríkisútgjöld vaxi óstjórnlega“ með því að „kafa ofan í opinber útgjöld og varpa ljósi á það hvort vel sé farið með peninga almennings“. Ekki er því ljóst hvað kæmi út úr slíkri endurskoðun og hvar eða hvernig næðist að hagræða á móti í þjónustu og útgjöldum ríkisins.
Athugasemdir