Margir eru ringlaðir og jafnvel hræddir yfir þjóðfélagsumræðunni síðustu mánuði. Allir hafa gert eitthvað af sér og brotið einhvern veginn gegn öðrum á einhverjum tímapunkti, en mörgum sýnast mörkin vera að þynnast og áskanir eða aflýsingar að dreifast á stærri og stærri hóp. Það er hins vegar ekki allt sem sýnist.
Allt þetta er drifið áfram af því að tækninýjungar eru að hafa mótandi áhrif á samfélagið félagslega. Þær hafa hrundið af stað menningarstríði, þar sem orrusturnar snúast um frelsi, vald, eftirlit, sannleika og skömm.
Síðustu vikur hafa nokkrir áberandi og dáðir menn úr þjóðlífinu verið til umræðu og aflýsingar: Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður, Auðunn Lúthersson tónlistarmaður og Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarlandsliðsþjálfari. Þessi mál eiga það sammerkt að þau öðlast sitt eigið líf og komast á dagskrá án þess að nokkur einn aðili að málinu segist telja að það hafi átt að gerast.
Eftirlitssamfélag: Eiður Smári
Nýjasta tilfellið sneri að farsælasta fótboltamanni Íslands, Eiði Smára Guðjohnsen, sem var tekinn upp á myndband í miðbænum við að sletta úr klaufunum með óviðeigandi hætti. Margir hafa stigið fram og sagt að þeir hafi á einhverjum tímapunkti kastað þvagi í almannarými undir áhrifum áfengis. Því geta fjölmargir ímyndað sér að lenda í þeim fótsporum að verða „aflýst“, eða missa vinnuna, vegna slíkrar hegðunar. Komið hefur fram að konan sem tók myndbandið segist aðeins hafa sent það á tvo vini og sé miður sín yfir því að hann sé að þola afleiðingar af athæfi sem margir hafa ástundað. „Ég ætlaði aldrei að birta þetta myndband opinberlega,“ sagði hún.
Auðvitað hefur áhrif að hann hafði áður komið fram í sjónvarpsviðtali og varð þar einhver fótaskortur á tungunni því hann var með í tánni, og svo framvegis. En myndbandið af athæfi sem margir kannast við markaði þau skil að Eiður fór í leyfi frá störfum.
Aukið eftirlit er lykilatriði, því tækniframfarir hafa gert öllum mögulegt að taka myndbönd af öðrum, hvar sem er og hvenær sem er, og samskipti eru að miklu leyti orðin rafræn og skráð.
Dreifing ásakana: Sölvi
Tilfellið sem hrinti af stað annarri metoo-bylgju á Íslandi snýr að fjölmiðlamanninum Sölva Tryggvasyni, sem var nafnlaust ásakaður í samfélagsmiðlafærslu konu sem vissi lítið sem ekkert um málið, en hafði heyrt sögur af Sölva. Einn fjölmiðill sagði frétt um sögusögnina sem konan miðlaði með hvatningu til fjölmiðla um umfjöllun. Til að gera langa sögu stutta hafði Sölvi sannarlega komið við sögu lögreglu, en út af allt öðru, og í tengslum við samskipti í sambandi.
Sölvi nýtti hins vegar valdastöðu sína og vettvang, vinsælt podcast sitt, til þess að færa skömmina og ábyrgðina yfir á konu sem hafði raunverulega undan honum að kvarta en hafði verið þögul fram að því. Hann beitti þar sumum aðferðum tilfinningakúgunar, hótaði í reynd undirliggjandi sjálfsvígi, sem er skilgreindur hluti andlegs ofbeldis. Hann staðfesti þar að miklu leyti með atferli sínu að hann nýtti þvingandi samskiptahætti. Hann glímdi við spurninguna um hvort hann væri „góður strákur“ og hvernig ásökun um ofbeldisfulla framkomu samræmdist við það. Hann hefur nú látið sig hverfa úr þjóðfélagsumræðunni.
Aflýsingin: Auður
Einn vinsælasti og efnilegasti tónlistarmaður Íslands síðustu tvö árin, Auður, er kominn í aflýsingu eftir að ung kona steig fram á Instagram og sakaði hann meðal annars um að hafa meinað henni aðgengi að símanum sínum og reynt að afklæða hana gegn neitun hennar. Hún birti samskipti við hann á Instagram þar sem hann staðfesti hluta af þessu og baðst afsökunar. Síðan þá hafa tvær komið fram undir nafni með sambærilegar eða alvarlegri frásagnir og sú fyrsta miðlað beinum eða óbeinum frásögnum af því að hann hafi verið sjúklega ágengur við eða brotið gegn konum. Að lokum sendi Auður frá sér yfirlýsingu þar sem hann viðurkenndi að „hafa farið yfir mörk“ einnar konu árið 2019.
Hann hafði tekið þátt í herferð til stuðnings kvenréttindum, sem var fjarlægð, átti að taka þátt í uppfærslu Þjóðleikhússins á Rómeó og Júlíu og koma fram á tónleikum með Bubba Morthens en sagði sig sjálfur frá því. Nú hafa helstu útvarpsstöðvar tekið efni frá honum úr spilun.
Unga konan telur sig ekki þurfa að fara með málið í aðra farvegi en umræðu á samfélagsmiðlum, enda hafi hún ekki ætlað að nafngreina hann, þótt hún hafi vísað í texta hans. „Við skuldum engum það að ganga í gegnum dómstóla. Við skuldum engum það að fjalla um málið í fjölmiðlum. Við ætluðum ekki að nafngreina, hann gerði það sjálfur,“ sagði hún á Facebook.
Síðar hefur hún miðlað frásögnum annarra kvenna nafnlaust. Hvorki þær né hún hefðu haft þennan farveg til að miðla reynslu sinni fyrir nokkrum árum. Tæknin hefur því dreift valdi til þeirra.
Afleiðingar aflýsinga
Fjölmargir hafa misst stöðu sína eftir að samfélagsmiðlar og snjallsímar komust í almenna notkun.
Kristinn Sigurjónsson, lektor við HR, sem sagði í Facebook-spjalli að konur eyðilegðu vinnustaði var rekinn úr starfi, en tapaði dómsmáli. Boðskapur Kristins sem kom fram á Facebook var: „Það á að aðgreina vinnustaði karla og kvenna. Vandinn er bara að konur reyna alltaf að troða sér þar sem karlmenn vinna, og um leið og þær eru komnar inn, þá byrja þær að eyðileggja hann, því allir kalmennirnir eiga þá að fara að tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti og ef sagður en neðanbeltisbrandari, svo ég nefni ekki klámbrandari, þá er það kynferðisofbeldi“. Að auki sögðu skólayfirvöld að hann færi með óþægileg „gamanmál“ í kennslustundum og að starfsmenn segðu hann hafa neikvæð áhrif á vinnuumhverfið.
Hann hefur haldið áfram svipaðri umræðu á samfélagsmiðlum en fékk síðan vinnu hjá Háskóla Íslands, enda sérfræðingur á sínu sviði þótt hann sækti stundum niður í botn viskubrunna sína.
Stjórnmálahreyfingin Miðflokkurinn var staðin að gildismati og athæfi sem gengur gegn siðferði langflestra Íslendinga í drykkju á bar við hlið Alþingis. Afleiðingin var sú að flokkurinn missti nánast ekkert fylgi til lengri tíma og þeir þingmenn í öðrum flokki sem þar sátu gengu til liðs við hann. Í framhaldinu fóru þeir í mál við Báru Halldórsdóttur, öryrkja sem tók samtalið upp og miðlaði því.
Egill Gillzenegger Einarsson, sem var tvisvar sakaður um og kærður fyrir nauðgun, hefur haldið áfram að gefa út tónlist, stunda fjarþjálfun og verið með útvarpsþátt á FM-957 og X-inu 977. Hann sneri vörn í sókn og fór í röð málsókna gegn fólki fyrir að tjá sig um hann, alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem hann vann sigur í einu mála sinna.
Grínistinn Björn Bragi Arnarsson nýtti sér umræðu um það þegar myndband birtist af honum þuklandi á sautján ára stúlku í biðröð, í uppistandinu Björn Bragi Djöfulsson, sem hlaut góðar viðtökur. Hann hafði íhugað að flytja úr landi þegar myndbandið birtist, en baðst afsökunar og náði fullri sátt við stúlkuna og fjölskyldu hennar. „Fyrstu dagana vildi maður ekkert láta sjá sig og maður fer svona pínu í felur. Auðvitað hefur svona atvik svakaleg áhrif á mann og ég tók því mjög alvarlega. Maður lærir svakalega mikið af því og þetta breytir manni til góðs,“ sagði hann síðar.
Afleiðingar aflýsinganna hafa því ekki verið eins afgerandi og umræðan sýnir þær.
Fólk sem verður fyrir ofbeldi – sem sannarlega er misjafns eðlis – getur hins vegar lifað með áhrifin á hugsanaferla ævilangt.
Menningarstríðið
Allt það sem hér fer saman tengist því sem kallað hefur verið menningarstríðið og teygir sig yfir öll Vesturlönd. Samkvæmt því er „liberal“ eða vinstri sinnað fólk að reyna að bannfæra einstaklinga sem eru ekki fullnuma í pólitískri rétthugsun. Fólk sé þannig svipt frelsi til tjáningar, vegna þess að því verði aflýst.
Einn af þeim íhaldsmönnum sem hefur varað mest við aflýsingarstefnu á forsendum frelsis er kanadíski sálfræðingurinn Jordan Peterson, sem var fluttur til Íslands í júní 2018 af einum helsta forsprakka frjálshyggju hér á landi. Eitt af því sem Peterson varar við er fórnarlambavæðing fólks. Hann óttast svokallaðan nýmarxisma, meðal annars á þeim forsendum að verið sé
að neyða fólk lagalega til að nota nýtt orðfæri um kyn transfólks. Skáldið Kristján Hreinsson skrifaði á svipuðum nótum nýlega þegar hann varaði við nýfemínisma sem jaðarsetti karla í orði og á borði og kvartaði undan „aumingjavæðingu og fórnarlambamenningu“.
Nýmarxismi og nýfemínismi
Jordan Peterson horfir fram hjá þeim eðlismun að valdið í því tilfelli er ekki miðstýrt og fast, heldur dreifstýrt og fljótandi. Þetta er ekki nýmarxismi, vegna þess að marxismi – eins og hann reyndist í framkvæmd en ekki í fræði – reyndist vera samþjöppun valds en ekki dreifing þess eins og markaðssetning hans gekk út á. Málflutningur Petersons um að valdalítill minnihlutahópur, transfólk – sem verður fyrir flestum morðum allra minnihlutahópa í heiminum – sé að kúga samfélag hvítra karlmanna, er skiljanlegur út frá ótta við breytingar og skertan rétt til að móðga án afleiðinga eða aflýsinga, en gallaður út frá rökfræði og raunveruleika.
Að sama skapi snýst menningarstríðið á endanum um sjálfsmyndir. Má transfólk hafa yfirráð yfir skilgreiningum á þess eigin sjálfi og kyni, eða á það að falla að fyrirfram gefnum og jafnvel fordómafullum staðalmyndum sem eru fóðraðar af tjáningu annarra?
Nýmarxismi eða nýfemínismi eru í þessum tilfellum látin ná yfir kröfuna um að tungumálið spegli líka sjálfsmynd annarra en hvítra karlmanna, að það rúmi aðra. Þar sem tungumálið er, eins og peningar, samkomulag okkar um sameiginlegan miðil, en ekki miðlægt og algilt, skiptir máli hvernig því er beitt.
Sama með fólk sem verður fyrir ofbeldi, sem byrjar að skilgreina sig ómeðvitað út frá ofbeldinu og takmarka sig eða gera ráð fyrir möguleikanum á áframhaldandi ofbeldi. Má þetta fólk skila skömminni yfir til geranda án þess að falla að vonlitlum ferlum lögreglu og dómstóla? Það öfugsnúna er að umræðan um fórnarlambamenningu sprettur helst upp þegar þolendur taka sér opinberlega það hlutverk að verða gerendur í eigin lífi og bregðast við brotum gegn sér.
Til að skilgreina þetta þurfum við hins vegar að taka mið af því að umræðan er fjölkjarna.
Kjarni 1: Eðli eða breytni
Með umræðunni um „góðan strák“ í viðtali við lögfræðing sinn færði Sölvi Tryggvason umræðuna úr breytni yfir í eðli. Þar liggur kjarni umræðunnar að hluta. Er maður það sem maður gerir? Eða er maður kannski oft betri en það sem maður gerir? Það veltur í raun á fortíðinni, framtíðinni og ákvörðunum í aðstæðunum. Fólk getur gert eitthvað rangt en risið fyrir ofan það og upp úr því með viðbrögðum sínum og framtíðarákvörðunum. Hann gerði það ekki daginn sem hann misnotaði vettvang sinn til að fara í varnarárásarviðtal, en á framtíðina fyrir sér.
Kjarni 2: Skilgreiningar hugtaka
Fólk upplifir aðstæður með mismunandi hætti. Gerendur geta verið firrtir. Ágengni sem fer yfir mörk er ekki það sama og nauðgun, en getur leitt til þess sama. Orðalagið „að brjóta gegn“ einhverjum getur rúmað margs konar misalvarlegar tegundir ofbeldis. Eins og nýtt átak Stígamóta, sjúk ást, sýnir getur ofbeldi í sambandi spannað allt frá líkamsárásum yfir í stjórnsemi, ásakanir, að öskra á fólk, uppnefna og „að hóta að fremja sjálfsvíg til að koma í veg fyrir að þú slítir sambandinu“. Á sama tíma þarf að horfa á samhengi athæfis manneskjunnar, hvort hún er í valdastöðu, hvort um kerfisbundið niðurbrot er að ræða, og svo framvegis. Þegar umræðan snýst um ofbeldi einhvers getur skilningur fólks farið alla þessa spönn.
Kjarni 3: Sannleikurinn
Það þegar fólk endurflytur frásagnir aðila sem það jafnvel þekkir ekki, notar óbeinar heimildir, og ásakar aðra, er eðlisólíkt því að manneskja segi sína eigin reynslu. Og það er um leið takmarkaðri sönnun heldur en þegar frásögnin er studd með vitnum, gögnum, skráðum samskiptum og jafnvel játningu. Það sem við getum sagt með vissu er hins vegar að tæknibreytingar leiða ekki bara fram meiri óritskoðaðar ásakanir, heldur líka meiri sannanir. Um leið er ljóst að fólk getur talið sig handan þeirrar skyldu að færa sönnur á mál sitt. Þegar fólkið er orðið tíu talsins, sem færir fram sambærilegar ásakanir á einhvern, er dregið upp mynstur. Þetta mynstur hunsa dómstólar hins vegar algerlega. Fjölmiðlar geta þó hjálpað til með því að sannreyna frásagnir, draga saman mál og forðast að endurflytja einfaldlega. Það breytir því ekki að í kynferðisbrotamálum er sannleikurinn yfirleitt óaðgengilegur þótt hann sé til.
Kjarni 3: Eftirlitið
Eftirlit getur brotið gegn persónuvernd fólks, en reynslan sýnir að það sem fólk getur gert til að auka öryggi verður gert. Nýlega var kallað eftir eftirlitsmyndavélum við alla leikvelli, vegna frásagnar sjö ára stúlku af því að unglingspiltur eða ungur maður hafi reynt að nema hana á brott í Grafarvogi.
Fjöldi fólks er nú kominn með eftirlitsmyndavélar við dyrabjöllur. Erlendis hafa þær verið notaðar af lögreglu sem víðtækt net eftirlits. Í öllum ríkjum Bandaríkjanna nema tveimur hafa lögregluyfirvöld samið við Amazon Ring um að leita til eigenda myndavélanna um að reiða fram myndbönd vegna rannsókna. Augljóslega hafa hins vegar þeir mestu að tapa á eftirliti sem brjóta af sér. Eftirlit hefur þó ekki bara þau áhrif að koma á framfæri röngu athæfi fólks, heldur minnkar það líkurnar á athæfinu. Það hefur fælingarmátt sem öllum ætti að vera ljóst af málunum sem hafa orðið opinber.
Eftirlit er hins vegar eðlisólíkt eftir því hvort um er að ræða miðstýrt eftirlit af hálfu ríkisins eða einum aðila sem hefur mest völd í samfélaginu, eða hvort því sé dreift.
Kjarni 4: Valddreifing
Ein af afleiðingum tæknibreytinganna er valdefling kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Allan þennan tíma hafa konur búið við valdamisvægi, ekki aðeins kerfislægt heldur úti í almanna- og einkarýminu. Núna er að hluta búið að taka myrkrið frá körlunum sem vilja athafna sig í því.
Það er því ekki valdasamþjöppun eins og í einræðisríkjum Sovétríkjanna, heldur andstæðan. Það er annað ef samfélagið beitir sjálfsprottnum þrýstingi á fólk til að bæta hegðun sína, heldur en þegar fólk þarf að óttast að vera fjarlægt með miðstýrðu valdi ef það þóknast því ekki.
Kjarni 5: Frelsi og ófullkomleiki
Með auknu eftirliti og aðhaldi samfélagsins getur myndast sú tilfinning að við höfum ekki svigrúm til að vera ófullkomin.
Ófullkomið fólk sem óttast aflýsingar, er kannski ekki með fulla færni í tjáningu um nýjustu félagslegu strauma, er með kaldhæðinn húmor sem jafnvel tengist fordómafullum staðalmyndum, upplifir sig jaðarsett og ógnað. Fólk hefur einhvern tímann pissað úti. Farið á fyllerí, sagt eitthvað óviðeigandi, jafnvel orðið kynferðislega óviðeigandi á köflum. Þetta fólk upplifir skömm og sér frelsinu ógnað. Jafnvel þótt það ætli sér ekki neitt af þessu. Það vill réttinn til að vera ófullkominn án ytri afleiðinga. Stundum virðist enda eins og við umföðmum alla aðra en dólgana. Það tengist því hins vegar að við skilgreinum fólk ekki lengur út frá óbreytanlegum eiginleikum, eins og uppruna, kyni, húðlit og svo framvegis, heldur út frá breytni. Það er flóknara samfélag en réttlátara og sérsniðnara.
Kjarni 6: Flókið en ekki einfalt
Einn af eðliseiginleikum þessarar umræðu er að hún er flókin og fjölvíð. Það er ekki alltaf rétt að ásaka fólk og það er auðvitað alls ekki alltaf rangt. Ofbeldi er ekki sama og ofbeldi, heldur eru til fjölmargar tegundir þess og samhengi hefur áhrif. „Gott fólk“ getur gert illt og það getur séð að sér. Sannleikurinn er sjaldnast afgerandi einföld dómsniðurstaða. Og jafnvel dómsniðurstöður takmarkast af því að dómstólar eru ófærar um að leiða fram sannleikann og sekt gerenda í langflestum tilfellum kynferðisbrotamála. Engin ein regla er til yfir þetta og oftar en ekki tökum við afstöðu út frá fyrirframgefnum forsendum sem einfalda heimsmyndina, hugsanavillum eins og geislabaugsáhrifunum (halo effect), sem segja okkur að fólk sem geri eitthvað eitt vel sé að öðru leyti gott.
Frelsið er ekki bara þeirra sem eru úr ráðandi þjóðfélagshópum og vilja mega segja dónabrandara, heldur líka þeirra sem verða fyrir áhrifum af því hvernig samfélagið skilgreinir hópa sem þeir falla í fyrir tilviljun. Það að lyfta tímabundið einhverjum ekki upp, vegna þess hvernig hann hegðar sér og jafnvel skaðar aðra, er ekki eins og fangelsisdómur. Niðurstaða um að einhver hafi brotið gegn öðrum þarf ekki að vera dómsniðurstaða, enda þarf ekki alltaf að vera um lögbrot að ræða.
Þau okkar sem óttast breyttan veruleika og eiga erfitt með að aðlagast honum ættu að átta sig á því að það er ekki eðlislægt og þau eru ekki hluti af föstum hóp, því allir gera mistök. Fyrsta skrefið er að sjá hversu mikla kosti það hefur í för með sér að valdefla hvers kyns þolendur. Næsta skref er að sætta sig við að tækniframfarir hverfa ekki til baka. Við höfum ekki vald til að breyta því, en það er aldrei oft seint að nýta frelsi sitt til að gera það sem er rétt og um leið forðast að dæma aðra út frá leti okkar og freistni.
Athugasemdir