„Við höfum ekki verið að vinna fyrir Samherja. En ég get sagt þér það að það var haft samband við okkur um helgina og það var leitað ráða hjá okkur og við sögðum okkar skoðun á því, þessu máli. Þetta er það sem við gerum yfirleitt þegar leitað er ráða hjá okkur,“ segir Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri og ráðgjafi hjá almennatengslafyrirtækinu ATON. „Eins og málið er vaxið finnst mér í lagi að segja þetta,“ segir Ingvar sem staðfestir með orðum sínum að félagið hafi unnið fyrir Samherja í tengslum við yfirlýsingu með afsökunarbeiðni frá útgerðinni sem birtist í gær.
Nýr tónn hjá Samherja
Segja má að kveðið hafi við nokkuð nýjan tón hjá Samherja um helgina þegar fyrirtækið baðst afsökunar á umræðu og umfjöllun hinnar svokölluðu „skæruliðadeildar“ útgerðarinnar. Í ljósi þessa nýja tóns hefur þeirri spurningu verið velt upp hvaða almannatengslafyrirtæki hafi aðstoðað Samherja við þessa yfirlýsingu.
Yfirlýsing Samherja hefur vakið talsverða athygli, bæði af því að Samherji baðst afsökunar á einhverju og eins vegna þess að nokkuð óljóst var á hverju Samherji var nákvæmlega að biðjast afsökunar á og hvern félagið var að biðja afsökunar. Þegar Samherji baðst afsökunar í gær var liðin rúm vika frá því að Stundin og Kjarninn fjölluðu um skæruliðadeildina.
„Yfirlýsingin er alfarið á ábyrgð Samherja og þeir verða að svara fyrir hana“
Samherji ber eitt ábyrgð á yfirlýsingunni
Ingvar segir að hann geti ekki farið nákvæmlegaa út í hvers eðlis vinna ATON fyrir Samherja var og að útgerðin beri ein ábyrgð á inntaki yfirlýsingarinnar. „Yfirlýsingin er alfarið á ábyrgð Samherja og þeir verða að svara fyrir hana. […] Eins og ég segi: Þeir hringdu í okkur um helgina. Þetta er í raun það sem ég get sagt,“ segir Ingvar.
Blaðamaður: „Þannig að yfirlýsingin er ekki skrifuð af ykkur?“
Ingvar: „Eins og ég segi þá vil ég ekki tjá mig eitt né neitt um þá ráðgjöf sem við gefum umfram það sem ég hef sagt.“
Athugasemdir