Sjávarútvegsráðherrann Kristján Þór Júlíusson staðfestir í samtali við RÚV að hann hafi átt í samskiptum við Pál Steingrímsson, skipstjóra Samherja. Hann neitar því þó að hafa verið í sambandi við hina svokölluðu „skæruliðadeild“ fyrirtækisins, sem Páll þó tilheyrði.
Stundin greindi frá því á þriðjudag að skæruliðadeildin hafi talað um Kristján Þór sem sinn mann og að Páll hafi leitað hjá honum ráða.
Stundin og Kjarninn hafa undanfarna viku fjallað um og afhjúpað starfsemi þessarar skæruliðadeildar Samherja, sem samanstóð af Páli, Þorbirni Þórðarsyni, almannatengslaráðgjafa útgerðarinnar, og Örnu McClure, innanhúslögmanni fyrirtækisins.
Þau voru lykilfólk í þeirri áróðursvél sem stjórnendur útgerðarinnar Samherja ræstu eftir uppljóstranir um mútugreiðslur til namibískra stjórnmálamanna.
„Ég hef aldrei verið í samskiptum við neina skæruliðadeild og hef ekki hugsað mér að taka upp slíkt verklag“
„Ég hef verið í samskiptum við Pál Steingrímsson sem ég þekki bara frá því að hann var nemandi í Stýrimannaskólanum á Dalvík eins og aðra íbúa í Norðausturkjördæmi. Ég hef aldrei verið í samskiptum við neina skæruliðadeild og hef ekki hugsað mér að taka upp slíkt verklag,“ segir Kristján Þór í samtali við RÚV.
Stundin leitaði viðbragða Kristjáns Þórs á þriðjudag, áður en fjallað var um samskipti hans og Páls. Þeim spurningum sem beint var til ráðherrans hefur ekki enn verið svarað.
Athugasemdir