Stjórnendur Ríkisútvarpsins segja niðurstöðu siðanefndar RÚV um alvarlegt brot Helga Seljan á siðareglum stofnunarinnar ekki hafa áhrif á störf Helga. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef RÚV.
Í samtali við Stundina segist Helgi vera að kynna sér úrskurð siðanefndar og að hann muni tjá sig um hann í kjölfarið.
Siðanefndin, sem var endurreist vegna kæru Samherja gegn ellefu starfsmönnum, birti úrskurð sinn í dag þess efnis að Helgi, fréttamaður Kveiks, hafi brotið „alvarlega“ gegn siðareglum með því að gefa upp persónulega afstöðu sína í afmörkuðum álitamálum á samfélagsmiðlum, meðal annars með því að svara stjórnendum Samherja. Aðrir starfsmenn sem sjávarútvegsfyrirtækið kærði vegna voru ekki taldir hafa brotið af sér eða málum þeirra vísað frá.
„Niðurstaða nefndarinnar er skýr og ótvíræð varðandi 10 af 11 starfsmönnum RÚV, en þar er kærum ýmist vísað frá nefndinni eða niðurstaðan er að ummælin teljist ekki brot á siðareglum RÚV,“ segir í yfirlýsingunni. „Að mati siðanefndarinnar hefur einn starfsmaður, Helgi Seljan fréttamaður, brotið siðareglur RÚV með nánar tilgreindum ummælum á samfélagsmiðlum. Samkvæmt 9. gr. reglna um siðanefnd Ríkisútvarpsins segir að ef niðurstaða nefndarinnar bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli nefndin vekja athygli útvarpsstjóra á því. Ekkert kemur fram um það í niðurstöðu nefndarinnar að það eigi við í umræddu tilviki. Niðurstaðan hefur því ekki áhrif á störf Helga Seljan hjá RÚV.“
„Fréttastofa RÚV stendur við allan fréttaflutning af málefnum Samherja“
Þá kemur fram í yfirlýsingunni að farið verði nánar yfir úrskurðinn af hálfu stjórnenda RÚV og fréttastofu. „Rétt er að taka fram að kærur Samherja til siðanefndar RÚV snúast ekki um hvað er satt og rétt í fréttaflutningi RÚV um Samherja heldur hvort skrif fréttamanna á samfélagsmiðla eru smekkleg eða ekki,“ segir einnig. „Siðanefndin fjallaði ekki um fréttir eða fréttaskýringar RÚV, efni þeirra eða vinnslu. Niðurstaða nefndarinnar felur ekki í sér neina afstöðu til fréttanna. Fréttastofa RÚV stendur við allan fréttaflutning af málefnum Samherja og mun halda áfram að fjalla um fyrirtækið eins og tilefni er til.“
Athugasemdir