Héraðsdómur mun taka mál Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, til efnismeðferðar. Landsréttur felldi á föstudag úr gildi frávísunarúrskurð héraðsdóms í málinu.
Jóni Baldvini er gefið að sök að hafa laugardaginn 16. júní 2018 á heimili sínu í Salobreña á Spáni strokið utanklæða rass Carmenar, sem var gestur á heimili hans. Greindi Stundin í upphafi árs 2019 frá framburði hennar og fleiri kvenna um kynferðislega áreitni. Krefur hún Jón Baldvin um eina milljón í miskabætur, en hann krafðist frávísunar og málsvarnalauna úr ríkissjóði.
Héraðsdómur vísaði málinu frá í byrjun árs. Í munnlegum málflutningi hafði Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Jóns Baldvins, talið þýðingu á spænskri lagagrein gefa það í skyn að ákvæðið ætti ekki við um þann verknað sem Jón Baldvin er sakaður um. Ekki lægi fyrir „gild yfirlýsing frá þar til bærum spænskum yfirvöldum“ um að háttsemin væri refsiverð samkvæmt spænskum lögum, en refsa skal íslenskum ríkisborgara eftir íslenskum hegningarlögum fyrir verknað framinn erlendis ef brotið er framið á stað sem refsivald annars ríkis nær til að þjóðarétti og var þá jafnframt refsivert eftir lögum þess ríkis. Héraðssaksóknari kærði frávísunarúrskurðinn til Landsréttar.
Þrír dómarar Landsréttar úrskurðuðu í málinu á föstudag og felldu frávísun héraðsdóms úr gildi. „Þótt íslensk þýðing hins spænska lagaákvæðis sem liggur fyrir í málinu sé ekki hnökralaus verður af orðalagi þess ráðið að það taki til kynferðislegrar áreitni í skilningi 1. mgr. 199. gr. almennra hegningarlaga, sem samkvæmt lögskýringargögnum felst meðal annars í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem er andstæð góðum siðum og samskiptaháttum,“ segir í úrskurði Landsréttar.
Málið fer því aftur til héraðsdóms, sem tekur málið til efnismeðferðar.
Athugasemdir