Sjö karlmenn sitja í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar á morðinu á Armando Beqiri um síðustu helgi.
Beqiri var 32 ára þegar hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í Bústaðahverfinu, en hann hefði haldið upp á 33 ára afmæli sitt þriðjudaginn 16. febrúar. Fjöldi fólks minntist hans í tilefni dagsins á Facebook-síðu hans. Beqiri lætur eftir sig eiginkonu og barn. Eiga þau von á öðru barni.
Ekki er vitað um tilefni skotárásarinnar á laugardagskvöld. Beqiri var frá Albaníu en hafði búið á Íslandi um árabil. Hann starfaði hjá fyrirtækinu Top Guard við dyravörslu og öryggisgæslu.
Allir mennirnir sem sæta gæsluvarðhaldi eru á fertugsaldri, fyrir utan einn sem er á fimmtugsaldri. Einn þeirra var handtekinn strax í kjölfar árásarinnar og úrskurðaður í gæsluvarðhald á mánudagskvöld og rennur það út í dag. Þrír til viðbótar voru handteknir í viðamiklum aðgerðum lögreglunnar sama kvöld og í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald fram á þriðjudag 23. febrúar. Loks voru fjórir handteknir á miðvikudag, en þrír þeirra sæta gæsluvarðhaldi fram á miðvikudag 24. febrúar samkvæmt tilkynningu lögreglu.
Ræða vopnaburð lögreglunnar
Nokkur umræða hefur átt sér stað í vikunni um vopnaburð lögreglunnar í samhengi við skotárásina. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni á þriðjudag að vopnareglur lögreglunnar yrðu ræddar og hvort taka ætti þær til endurskoðunar. Þá sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í sama þætti á mánudag að þjálfa þurfi almenna lögreglumenn í að vopnbúast.
Olga Margrét Cilia, þingmaður Pírata, sagði á Alþingi á miðvikudag að aukin vopnavæðing lögreglunnar hefði ekki komið í veg fyrir skotárásina. „Ég vona að lögreglan sé ekki að fara að nota þann sorglega atburð sem lóð á vogarskálar fyrir þeim málflutningi að vopnavæða lögregluna enn frekar,“ sagði hún. „Lögreglan var hvergi nálægt þegar skotárásin átti sér stað svo það myndi skila litlu að nýta árásina í að undirbyggja málflutning um frekari vopnakaup lögreglu.
Benti hún á að lögreglan ætti nú þegar hátt í 800 vopn. „Yfirmenn lögreglunnar telja að á Íslandi séu slakari reglur varðandi valdheimildir lögreglu miðað við samstarfslönd,“ sagði hún. „Það þarf ekki endilega að vera slæmt ef við skoðum málið með réttindi einstaklinga í forgrunni. Lögreglan, eins og önnur stjórnvöld, má aldrei fá óskoraðar valdheimildir til eins eða neins. Þá erum við komin ansi nálægt því að búa í lögregluríki.“
Athugasemdir