Konur sem stigu fram í síðasta tölublaði Stundarinnar og lýstu harðræði og ofbeldi gegn sér þegar þær dvöldu á meðferðarheimlinu að Laugalandi á árabilinu 1997 til 2007, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að þær styðji núverandi starfsemi Laugalands. Hins vegar sé ekki hægt að reka stofnanir fyrir börn nema að fortíðin sé gerð upp og tryggt sé að eftirlit sé með rekstrinum, svo ekki sé brotið á börnum sem þar dvelja.
Í síðasta tölublaði Stundarinnar voru birtar frásagnir sex kvenna af ofríki og ofbeldi sem þær lýstu að þær hefðu orðið fyrir á meðan þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, sem börn.
Konurnar lýstu því að Ingjaldur Arnþórsson, forstöðumaður heimilisins á árabilinu 1997 til 2007, hefði beitt þær bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi, niðurrifi og að harðræði hefði verið ríkjandi þáttur í starfsemi heimilisins og því meðferðarstarfi sem þar átti að fara fram.
Gögn sem Stundin aflaði sýna að þegar árið 2000 var Barnaverndarstofu tilkynnt um meint ofbeldi og ofríki af hálfu Ingjalds. Árið 2001 fundaði umboðsmaður barna með þremur stúlkum sem dvalið höfðu á heimilinu og lýstu hinu sama. Sama ár var stjórnendum á Stuðlum og Barnaverndarstofu greint frá frásögnunum. Árið 2002 sendi umboðsmaður barna erindi á Barnaverndarstofu þar sem farið var fram á að rannsakað væri hvað til væri í frásögnunum. Engin gögn hafa komið fram sem styðja að Barnaverndarstofa hefi framkvæmt slíka rannsókn. Ingjaldur rak meðferðarheimilið á Laugalandi, og veitti því forstöðu, til ársins 2007.
„Við verðum að skapa umhverfi þar sem börn geta sagt frá ofbeldi og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig“
Núverandi rekstraraðili Laugalands, Pétur G. Broddason, hefur sagt upp samningi sínum við Barnaverndarstofu um reksturinn og tekur sú uppsögn gildi um mitt ár. Fjöldi fólks, fyrrverandi skjólstæðingar og aðstandendur þeirra einkum, hefur skorað á Barnaverndarstofu að halda rekstrinum áfram enda hafi dvölin þar á tíma Péturs hjálpað því verulega.
Frásagnirnar undirstriki mikilvægi þess að hæfir einstaklingar komi að rekstrinum
Fjórar þeirra kvenna sem stigu fram undir nafni í síðasta tölublaði Stundarinnar hafa, ásamt þremur konum til viðbótar sem dvöldu á Laugalandi í tíð Ingjaldar, sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að þær styðji núverandi starfsemi Laugalands. Þær leggja áherslu á að umfjöllun Stundarinnar um dvöl þeirra þar snúi ekki að núverandi starfsemi.
Í viðtölum við konurnar kom enda fram sú upplifun þeirra að Pétur hefði reynst þeim góður þegar þær dvöldu á Laugalandi. „Hins vegar höfum við bent á að það er ekki hægt að reka stofnanir fyrir börn nema að gera upp fortíðina og tryggja það að eftirliti með þeim sé framfylgt af óháðum aðilum. Við verðum að skapa umhverfi þar sem börn geta sagt frá ofbeldi og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig,“ segir í yfirlýsingunni, sem má lesa hér að neðan.
Við styðjum núverandi starfsemi Laugalands
Undanfarið hefur umræða verið um fyrirhugaða lokun á meðferðarheimilinu Laugalandi.
Okkur þykir mikilvægt að taka það fram að umfjöllun um dvöl okkar þar snýr ekki að núverandi starfsemi Laugalands, eingöngu þegar Ingjaldur og Áslaug voru rekstraraðilar þess.
Við viljum taka það fram að um einskæra tilviljun var að ræða að umfjöllun okkar birtist á sama tíma og fjallað var um lokun heimilisins.
Frásagnir okkar undirstrika og sýna fram á mikilvægi þess að hæfir einstaklingar komi að rekstri Laugalands. Sú staðreynd að fyrrverandi skjólstæðingar núverandi Laugalands berjast gegn lokun þess segir allt sem segja þarf. Því miður er reynsla okkar allt önnur en við samgleðjumst þeim og það er til marks um það frábæra starf sem þar hefur verið unnið.
Hins vegar höfum við bent á að það er ekki hægt að reka stofnanir fyrir börn nema að gera upp fortíðina og tryggja það að eftirliti með þeim sé framfylgt af óháðum aðilum. Við verðum að skapa umhverfi þar sem börn geta sagt frá ofbeldi og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.
Það er mótsagnakennt að þegar hjón sem beittu börn ofbeldi réðu þar ríkjum var ekkert gert en nú þegar meðferðarheimilinu er rekið af einstaklingum sem hafa veitt ólögráða stúlkum bæði öryggi og skjól, vill ríkið loka því.
Alexandra Magnúsdóttir
Brynja Skúladóttir
Gígja Skúladóttir
Harpa Særós Magnúsdóttir
Hrafnhildur Jóhannesdóttir
Kolbrún Þorsteinsdóttir
Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík
Athugasemdir