Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í morgun frá máli Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra. Úrskurðurinn verður kærður til Landsréttar, að sögn Önnu Barböru Andradóttur, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara.
Þetta er í annað sinn sem málið fer þessa leið, en héraðsdómur vísaði því frá 7. janúar og var úrskurðurinn kærður til Landsréttar. Landsréttur sendi það til baka í héraðsdóm þar sem of langt hafði liðið á milli munnlegs málflutnings og niðurstöðu í málinu. Nú fer það aftur til Landsréttar sem þá líklega tekur afstöðu til frávísunarinnar.
Héraðssaksóknari hefur haldið því fram í kæru til Landsréttar að meint kynferðisleg áreitni Jóns Baldvins að heimili hans á Spáni sé refsiverð samkvæmt spænskum lögum og að skýringar stofnunarinnar Eurojust staðfesti það. Krefst embættið því þess að Landsréttur vísi málinu til efnislegar meðferðar fyrir héraðsdómi.
Jóni Baldvini er gefið að sök að hafa laugardaginn 16. júní 2018 á heimili sínu í Salobreña á Spáni strokið utanklæða rass Carmenar, sem var gestur á heimili hans. Greindi Stundin í upphafi árs 2019 frá framburði hennar og fleiri kvenna um kynferðislega áreitni. Krefur hún Jón Baldvin um eina milljón í miskabætur, en hann krafðist frávísunar og málsvarnalauna úr ríkissjóði.
Athugasemdir