Héraðssaksóknari telur að meint kynferðisleg áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, að heimili hans á Spáni sé refsiverð samkvæmt spænskum lögum og að skýringar stofnunarinnar Eurojust staðfesti það. Krefst embættið því þess að Landsréttur vísi málinu til efnislegar meðferðar fyrir héraðsdómi.
Þetta kemur fram í kæru héraðssaksóknara sem Stundin hefur undir höndum.
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í síðustu viku frá máli embættisins gegn Jóni Baldvini vegna meintra kynferðisbrota gegn Carmen Jóhannsdóttur á Spáni í júní 2018. Taldi dómurinn ákæruefnið ekki refsivert samkvæmt spænskum lögum. Með kæru sinni til Landsréttar krefst héraðssaksóknari þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Jóni Baldvini er gefið að sök að hafa laugardaginn 16. júní 2018 á heimili sínu í Salobreña á Spáni strokið utanklæða rass Carmenar, sem var gestur á heimili hans. Greindi Stundin í upphafi árs 2019 frá framburði hennar og fleiri kvenna um kynferðislega áreitni. Krefur hún Jón Baldvin um eina milljón í miskabætur, en hann krafðist frávísunar og málsvarnalauna úr ríkissjóði sem héraðsdómur veitti honum með úrskurðinum, rúmlega 917 þúsund krónur í málsvarnarlaun Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns hans.
Héraðssaksóknari mótmælir því að það skorti heimild til að ákæra í málinu þar sem atvikin áttu sér stað erlendis. Samkvæmt almennum hegningarlögum skal refsa íslenskum ríkisborgara eftir íslenskum hegningarlögum, fyrir verknað framinn erlendis ef brotið er framið á stað sem refsivald annars ríkis nær til að þjóðarétti og var jafnframt refsivert eftir lögum þess ríkis.
Verjandi sagði lagaákvæðið ekki eiga við
Héraðssaksóknari hafði leitað aðstoðar evrópsku réttaraðstoðarinnar Eurojust um hvort athæfið teldist refsivert samkvæmt spænskum lögum, að því er segir í kærunni. Samningur er í gildi milli Íslands og stofnunarinnar um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins. Stofnunin hefur aðsetur í Haag í Hollandi og var sett á fót af Evrópusambandinu til að efla samstarf ríkja í sakamálum sem teygja sig yfir landamæri.
Í munnlegum málflutningi hafði verjandi Jóns Baldvins talið þýðingu á spænsku lagagreininni gefa það í skyn að ákvæðið ætti ekki við um þann verknað sem Jón Baldvin er sakaður um, þar sem í málsgreininni sem á eftir kemur er sérstaklega fjallað um skort á samþykki ef manneskja er án meðvitundar eða með andlega röskun og getur því ekki veitt samþykki. Slík hafi ekki verið raunin í atvikinu að heimili Jóns Baldvins.
„ósæmilega snertingu, eða annars konar utanaðkomandi eða efnisleg ákoma með kynferðislegri merkingu“
Héraðssaksóknari hefur eftir málflutninginn leitað frekari skýringa frá Eurojust um spænska lagaákvæðið og beitingu þess í spænskri réttarframkvæmd. Í svari Eurojust er vísað í endurtekna dómaframkvæmd þar sem kynferðisleg áreitni hefur verið skilgreind og segir: ,,..að um hlutlæga líkamlega viðkomu geti verið að ræða, ósæmilega snertingu, eða annars konar utanaðkomandi eða efnisleg ákoma með kynferðislegri merkingu.." Seinni málsgrein ákvæðisins sé einungis til skýringar á því hvenær er um skort á samþykki að ræða og fyrri málsgreininni sé beitt óháð þeirri seinni ef atvik eru ekki með þeim hætti sem í henni segir.
Telur héraðssaksóknari því að þau gögn sem liggi fyrir nú séu fullnægjandi til að sýna fram á að meint athæfi Jóns Baldvins sé refsivert samkvæmt spænskum lögum. „Er það því mat héraðssaksóknara að þær yfirlýsingar sem fram koma í tölvupóstsamskiptum við Eurojust séu gild yfirlýsing frá þar til bærum yfirvöldum til að leggja til grundvallar í máli þessu,“ segir í kærunni. „Með vísan til þess er talið að skilyrði til að fella háttsemi ákærða til refsiákvæði íslensku hegningarlaga og dæma í máli hans hér á landi.“
Athugasemdir