James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibíska ríkisfyrirtæisins Fishcor og höfupaurinn í Samherjamálinu í Namibíu, var einn ríkasti maður landsins þegar greint var frá málinu í nóvember í fyrra og hann var hnepptur í gæsluvarðhald. Hautikulipi var talinn eiga eignir upp á milljarð Namibíudollara, eða tæplega 9 milljarða íslenskra króna.
Þessar eignir er Hatuikulipi sagður hafa sankað að sér í gegnum árin vegna „tengsla sinna við pólitískt vald“ í Namibíu þar sem hann hafi komið á samstarfsverkefnum á milli fyrirtækja sinna og annarra fyrirtækja, sem jafnvel voru í ríkiseigu, þar sem markmiðið var að hann myndi græða sjálfur. Spillingin og aðstöðubraskið sem Hatuikulipi er grunaður um er víðtækara en svo að það snúist bara um Samherjamálið og greiðslur frá íslenska útgerðarfélaginu.
Frá þessu er greint í fréttaskýringarmyndbandi namibíska blaðsins The Namibian sem ber yfirskriftina „Fishrot mastermind: The rise and fall of James Hatuikulipi“ og í grein með sama heiti.
Sá eini sem tengdist öllum
James Hatuikulipi er einn af lykilmönnunum í rannsókn Samherjamálsins sem nú stendur yfir í Namibíu og einnig á Íslandi. Rannsóknin á Íslandi er skemmra á veg komin en í Namibíu og hún beinist að starfsmönnum Samherja en ekki að Namibíumönnunum.
Samkvæmt Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara í Samherjamálinu, var James lykilmaður í því að skipuleggja hvernig stór hluti mútugreiðslnanna frá Samherja, sem nú eru til rannsóknar, áttu að renna til félags í Dubaí sem hann var skráður fyrir, Tundavala Invest. Þetta Dubaífélag tók við greiðslunum frá Samherja í þeim hluta málsins sem kallast Namgomar þar sem ætluð misnotkun á milliríkjasamningi Namibíu við Angóla, til að tryggja Samherja kvóta, er til rannsóknar.
Í grein The Namibian er það haft ónafngreindum heimildarmanni að James Hatuikulipi sé sá eini af sakborningunum í málinu sem tengist öllum hinum sem skipta máli í þessari sögu. „Hann er sá eini í þessu máli sem tengist öllum hinum sögupersónunum í því.“
James er líka lykilmaður í þeim hluta rannsóknar Samherjamálsins sem snýst um kvótaúthlutanir frá ríkifyrirtækinu Fishcor, sem sér um kvótaúthlutanir fyrir hið opinbera í Namibíu, þar sem hann var stjórnarformaður þess félags. James er einnig talinn hafa misnotað aðstöðu sína þar til að tryggja Samherja kvóta gegn mútugreiðslum.
James er því bæði lykilmaður í þeim hluta rannsóknarinnar sem snýst um Namgomar-kvótann sem Samherji fékk og í þeim hluta sem snýst um Fishcor.
Myndin sem The Namibian dregur upp af James er því sá að hann hafi verið aðalmaðurinn í ráðabrugginu sem er til rannsóknar: Miðpunktur málsins; sá sem allir þræðirnir í því liggja til og frá.
„Heimur hans féll saman þann 27. nóvember í fyrra. þegar hann var handtekinn fyrir meinta spillingu, fjársvik og peningaþvætti.“
Launin bara hluti af ætluðum eignum
Í myndbandinu, sem er rúmlega 13 mínútna langt, er teiknuð upp örmynd af lífshlaupi James Hatukulipi og sagt að fall hans hafi verið hátt.
The Namibian segir að James hafi verið með 30 milljónir namibíudollara, eða rúmlega 255 milljónir íslenskra króna, í árslaun en eitt af því sem hann gerði var að stýra fjárfestingarfélaginu Investec. Þessi laun sem James fékk með vinnu sinni voru hins vegar aðeins hluti af eignasafni hans miðað við það sem The Namibian segir: „Heimur hans féll saman þann 27. nóvember í fyrra. þegar hann var handtekinn fyrir meinta spillingu, fjársvik og peningaþvætti," segir í blaðinu.
Hatuikulipi hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan þá og hefur ríkissaksóknari Namibíu tekið ákvörðun um að ákæra hann og viðskiptafélaga hans fyrir mútuþægni og fleiri brot í Samherjamálinu. Réttarhöldin gegn þeim hefjast í apríl á næsta ári.
Eins og greint var frá í umfjöllunum Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks í nóvember í fyrra liggja fyrir heimildir sem sýna að félagið Tundavala Invest í Dubaí, sem kalla má aðalfélag Namibíumannanna í þeim hluta Samherjamálsins sem kenndur er við Namgomar-viðskiptin, greiddi út tæplega 2,3 milljónir dollara, um 300 milljónir íslenskra króna, af bankareikningi sínum í Masreq-bankanum þar í landi inn á persónulegan bankareikning James Hatuikulipi í Dubaí. James tók þessa peninga svo út af bankareikningi sínum í fjórum millifærslum.
Þetta voru peningar sem bárust til Tundavala frá Samherja frá því í janúar 2016 og þar til í febrúar 2019. Ekki liggja fyrir heimildir um hvað varð um peningana, tæplega 2 milljónir dollara, sem bárust til Tundavala frá félögum Samherja á Kýpur frá því í september 2014 og þar til í ársbyrjun 2016.
Undirskilið í umfjöllun The Namibian er að slíkar greiðslur, meðal annars frá Samherja, hafi átt stóran þátt í því að byggja upp auð James Hatuikulipi og gera hann að einum ríkasta manni Namibíu.
Í greininni segir að stór hluti eigna James í Namibíu hafi verið haldlagður í kjölfar Samherjamálsins.
Gortaði sig af 12,5 milljarða íbúðum í Madríd
Í myndbandi The Namibian kemur fram að James Hatuikulipi hafi í fyrra, áður en hann var handtekinn eftir umfjöllun fjölmiðla um Samherjamálið, gortað sig af því að hann stæði fyrir byggingu íbúða í Madríd á Spáni fyrir 80 milljónir evra eða tæplega 12,5 milljarða íslenskra króna. Miðað við umfjöllun The Namibian voru íbúðirnar sem James sagðist vera að byggja voru í úthverfi sem „margir fótboltamenn búa í“. Ekki er tekið fram hvaða hverfi um ræðir í Madríd.
Ef þetta er satt hefur James fjárfest að hluta fyrir þá peninga sem hann hefur eignast í slíkum viðskiptum fyrir utan Namibíu
Djúp tengsl við Swapo-flokkinn
James Hatuikulipi er 45 ára gamall, fæddur árið 1975, og var faðir hans, Tauno Hatuikulipi, þátttakandi í frelsisbaráttu Namibíu í gegnum frelsishreyfinguna Swapo. Faðir James lést hins vegar með „dularfullum hætti“ þegar James var einungis sex mánaða gamall samkvæmt The Namibian.
Þessi frelsishreyfing varð síðar að ráðandi stjórnmálaflokknum í landinu eftir að landið fékk loks sjálfstæði frá Suður-Afríku árið 1990. Swapo-flokkurinn er því sambærilegur flokkur og ANC, flokkur Nelson Mandela, í Suður-Afríku. Frá því landið fékk sjálfstæði hefur Swapo alltaf fengið meirihluta í kosningum í landinu.
Samkvæmt umfjöllun The Namibian byrjaði James að rækta tengsl sín við Swapo-flokkinn fyrir um 20 árum. Frændi hans, Tamson Hatuikulipi, var sá maður sem fyrst um sinn stuðlaði að því að Samherji gat komist í þá stöðu að fá kvóta með þeim hætti sem nú er til rannsóknar í Namibíu og á Íslandi. Tamson giftist dóttur Bernhard Esau sjávarútvegsráðherra og byggði valdastaða hans í Namibíu á þeim tengslum. James kom því að Samherjamálinu í gegnum Tamson annars vegar og svo Esau hins vegar vegna þess að pólitísk áhrif Tamson byggðu alfarið á tengslunum við sjávarútvegsráðherrann.
James er sagður hafa haft það sem ákveðið lokamarkmið með gjörðum sínum að eignast sína eigin einkaþotu með tíð og tíma og að þetta hafi drifið hann áfram í sókn sinni eftir völdum og þeim auði sem með þeim fylgdi í ljósi aðstöðubrasks James. Þessi völd og þessi auðlegð byggja á tengslum James við Swapo-flokkinn sem hann hefur ræktað í gegnum árin, samkvæmt namibíska blaðinu.
Snýst um meira en Samherjamálið
Samherjamálið og greiðslur Samherja til James og félaga hans er hins vegar eingöngu hluti af þeirri spillingarsögu James sem The Namibian teiknar upp. Aðrir hlutar þessarar sögu hafa ekki beint með Ísland eða Samherja að gera þó þeir hafi það óbeint í ljósi þess að það var Samherjamálið sem felldi James Hatuikulipi, svo vísað sé í túlkun The Namibian.
Orðrétt segir í grein The Namibian að auk tengsla sinna við sjávarútveginn í Namibíu liggi viðskiptahagsmunir James á ýmsum öðrum sviðum: „Hagsmunir Hatuikulipi liggja í byggingu járnbrauta, fasteignum, veisluþjónustubransanum og í fjármálageiranum. Við fyrstu sýn virðast fyrirtæki hans vera rekin með eðlilegum hætti, með skrifstofum, starfsfólki og fjölþættri starfsemi út um allt land. En, við nánari skoðun, kemur í ljós að viðskiptaveldi James var fyrst og fremst byggt á því að hann notaðist við tengsl sín við pólitísk völd.“
The Namibian nefnir tvö dæmi um þetta. Annað dæmið snýst fyrirtæki sem Hatuikulipi stýrði sem fékk úthlutað verki frá namibíska ríkinu upp á 120 milljón Namibíudollara árið 2004. Hins vegar fékk annað fyrirtæki hans 150 milljón Namibíudollara verki árið 2011 en það snerist um að gera við gamla járnbrautarteina.
Sú rannsókn á James Hatuikulipi sem nú stendur yfir fyrir að hafa tekið við mútugreiðslum frá Samherja virðist því bara vera toppurinn á ísjakanum og hluti af miklu lengri og stærri spillingarsögu.
Athugasemdir