Tveir Namibíumenn til viðbótar hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn Samherjamálsins þar í landi. Mennirnir heita Phillipus Mwapopi og Otniel Shuundifonya. Mennirnir gáfu sig sjálfviljugir fram til spillingarlögreglunnar í landinu, ACC, eftir að greint hafði verið frá því í síðustu viku að lögreglan leitaði þeirra vegna rannsóknar málsins. Frá þessu er greint í namibískum fjölmiðlum í dag.
Í byrjun síðustu viku var greint frá því að ríkissaksóknarinn í Namibíu, Martha Iwalwa, hefði lokið rannsókn Samherjamálsins, sem kallast Fishrot á ensku, sem snýst um mútugreiðslur sem útgerðarfélagið Samherji greiddi til hóps namibískra ráðamanna á árunum 2011 til 2019. Sjö menn hafa setið í gæsluvarðhaldi í Namibíu vegna málsins síðastlið eitt ár eftir að greint var frá málinu í Kveik og Stundinni með gögnum frá Wikileaks.
Réttarhöldin yfir sjömenningunum í Namibíu eiga að hefjast í apríl á næsta ári.
Möguleikinn á framsali
Samherji neitar sök í málinu og segir að félagið túlki greiðslurnar sem það innti af hendi ekki sem mútugreiðslur: „Litið er svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja,“ segir Samherji á vefsíðu sinni. Bent skal á að neitun Samherja er byggð á mati félagsins, samkvæmt því sjálfu, og er ekki bein og fyrirvaralaus neitun.
„Litið er svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja“
Ekki hefur hins vegar verið greint frá því að ákæruvaldið í Namibíu hafi yfirheyrt stjórnendur Samherja en sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn félagsins eru með réttarstöðu sakborninga á Íslandi. Eins og greint var frá í haust hafa þeir verið yfirheyrðir einu sinni af embætti héraðssaksóknara.
Greint hefur verið frá því í íslenskum fjölmiðlum að namibísk yfirvöld kunni að vilja fá stjórnendur hjá Samherja framselda til Namibíu vegna rannsóknarinnar en á það hefur verið bent að enginn samningur um framsal manna er í gildi á milli Íslands og Namibíu.
Á þetta hefur lögmaður eins af sakborningunum, Tamson Hatuikulipi, bent og sagt að mikilvægt sé í málinu að namibísk yfirvöld nái tali af Samherjamönnum vegna rannsóknarinnar: „Hitt vandamálið er að það er enginn samningur í gildi um framsal á milli Íslands og Namibíu. Þannig að ég átta mig ekki á því hvernig framsalið á að fara fram. Þannig að við munum bara áfram hafa þessar tafir á málinu á meðan sakborningarnir dúsa í gæsluvarðhaldi og grafið er undan réttlætinu,“ er haft eftir lögmanni Tamson Hatuikuliði, Richard Metcalfe, í namibískum miðlum.
Miðað við það sem Metcalfe segir er það hans túlkun að ákæruvaldið í Namibíu þurfi að hafa rætt við eða yfirheyrt stjórnendur Samherja til að geta lokið rannsókninni á málinu þar í landi.
Rætt um mögulegt framsal þriðja mannsins
Í namibískum fjölmiðlum er rætt um mögulegt framsal þriðja mannsins sem greint var frá í síðustu viku að ákæruvaldið í Namibíu vildi handtaka. Þessi maður heitir Marén de Klerk og er lögmaður sem tók þátt í viðskiptum í Samherjamálinu í landinu. Maðurinn er eigandi lögmannsstofunnar De Klerk, Horn & Coetzee Incorporateds sem kom að hluta þeirra viðskipta sem til rannsóknar eru.
„Mér hefur verið hótað lífláti ítrekað“
Marén de Klerk yfirgaf Namibíu í byrjun ársins og hefur ekki komið aftur þangað. Hann heldur því fram að hann hafi fengið líflátshótanir frá valdamiklum aðilum í namibísku samfélagi og hefur ekki gefið sig fram við réttvísina líkt og þeir Mwapopi og Shuundifonya hafa nú gert. De Klerk er talinn hafa innt af hendi greiðslur til Swapo-flokksins sem ekki standast skoðun. Swapo-flokkurinn er allsráðandi í namibískum stjórnmálum.
Í eiðsvarinni yfirlýsingu sem liggur fyrir dómi segir de Klerk. „Mér hefur verið hótað lífláti ítrekað og ég hef ástæðu til að ætla að valdamiklir og vel tengdir aðilar, hvers ólöglegu gjörðir kunna að verða opinberaðar með vitnisburði mínum, hafi skipulagt að minnsta kosti eitt tilræði gegn lífi mínu,“ segir í yfirlýsingunni.
De Klerk fer nú huldu höfði í Suður-Afríku samkvæmt namibískum miðlum. Dómsmálaráðherra Namibíu hefur sagt opinberlega að unnið sé að því að fá de Klerk framseldan til Namibíu.
Óljóst hvað mennirnir tveir gerðu
Samkvæmt namibískum fjölmiðlum er óljóst hvernig mennirnir tveir sem nú hafa verið handteknir tengjast Samherjamálinu og rannsókn þess.
Annar mannanna, Mwapopi, er lögreglumaður og segir í namibískum miðlum að hann sé sagður tengjast einum sakborningi í málinu. Ekki kemur fram hvað Otniel Shuundifonya á að hafa gert í málinu.
Eins og er þá er það einungis de Klerk sem ekki hefur verið handtekinn af þeim tíu sakborningum frá Namibíu sem eru til rannsóknar í Samherjamálinu.
Athugasemdir