Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, hefur vikið af fundum ríkisstjórnarinnar að eigin frumkvæði þegar rætt hefur verið um efnahagsaðgerðir vegna fyrirtækja í kjölfar Covid-19. Þetta kemur fram í svari frá forsætisráðuneytinu við spurningum Stundarinnar um málið. Guðlaugur Þór segir að hann hafi gert þetta vegna umfjöllunar Björns Inga Hrafnssonar um hagsmunatengsl hans við Bláa lónið í bókinni Vörn gegn veiru.
Eiginkona Guðlaugs, Ágústa Johnson, er hluthafi í Bláa Lóninu sem hefur orðið illa fyrir barðinu á fækkun ferðamanna á Íslandi vegna Covid-19 og hefur fyrirtækið nýtt sér almenn úrræði ríkisvaldsins eins og hlutabótaleiðina og greiðslu launa á uppsagnarfresti í rekstrinum. Til að mynda hefur Bláa Lónið nýtt sér úrræðið um greiðslu launa á uppsagnarfresti fyrir 550 starfsmenn og hefur ríkið greitt tæplega 571 milljón króna vegna þess samkvæmt heimasíðu Ríkisskattstjóra.
Athugasemdir