Kristján Þór Júlíusson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, telur ekki þörf á að komast að því af hverju og á hvaða forsendum skrifstofustjóri í ráðuneyti hans lét fresta birtingu laga um fiskeldi sumarið 2019. Ráðherrann virðist ekki vita af hverju skrifstofustjórinn, Jóhann Guðmundsson, lét fresta lagabirtingunni í Stjórnartíðindum með því að vísa til hagsmuna laxeldisfyrirtækja og að hann telji málinu vera lokið innan ráðuneytis hans jafnvel þó að hann viti ekki hvað skrifstofustjóranum gekk til. Þetta kemur fram í svari frá Kristjáni Þór við fyrirspurn þingmanns Flokks fólksins, Ingu Sæland, um málið. Svarið var birt á Alþingisvefnum í gær.
Stundin hefur fjallað um mál Jóhanns síðustu vikurnar. Hann hringdi í ritstjóra Stjórnartíðinda þann 15. júlí 2019 þegar hann gegndi starfi skrifstofustjóra laxeldis og lét fresta birtingu nýrra laga um fiskeldi á þeim forsendum að laxeldisfyrirtæki hefðu fengið frest til að skila inn gögnum um laxeldisáform sín til 17. júlí. Ef lögin hefðu verið birt og tekið gildi áður en laxeldisfyrirtækin þrjú skiluðu inn gögnunum hefðu nýju og strangari lögin um laxeldi gilt um þessi áform. Með því að fresta lagabirtingunni þar til eftir að laxeldisfyrirtækin þrjú, Arnarlax, Arctic Fish og Fiskeldi Austfjarða, skiluðu inn gögnunum til Skipulagsstofnunar giltu gömlu lögin um fiskeldi um þessi áform.
„Hlutaðeigandi starfsmaður lét af störfum áður en þessari athugun lauk, og er því málinu lokið innan ráðuneytisins.“
Um er að ræða laxeldisáform sem verðleggja má á 85 milljarða króna í ljósi þess verðs sem norsk laxeldisfyrirtæki greiddu fyrir nýja laxeldiskvóta í Noregi árið 2018.
Ekkert svar en rannsókn óþörf
Inga Sæland spurði Kristján að því hvort hann teldi að rannsaka þyrfi af hverju Jóhann lét fresta lagabirtingunni. Hún spurði: „Telur ráðherra ástæðu til að rannsakað verði það verklag sem var viðhaft á skrifstofu sjávarútvegs og fiskeldis að fresta til 18. júlí 2019 að láta birta í Stjórnartíðindum ný lög um fiskeldi sem samþykkt voru á Alþingi 20. júní 2019, sbr. frétt Stundarinnar 23. október 2020?“
Svar Kristjáns Þórs við þessari spurningu er á þá leið að jafnvel þó ráðuneytið viti ekki af hverju Jóhann gerði þá þetta þá telji það að málinu sé lokið: „Ráðuneytið hefur látið fara fram athugun á þessum embættisfærslum innan ráðuneytisins með hliðsjón af ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hlutaðeigandi starfsmaður lét af störfum áður en þessari athugun lauk, og er því málinu lokið innan ráðuneytisins.“
Athugun ráðuneytisins á málinu lauk sem sagt ekki, ráðuneytið veit ekki hvað Jóhanni gekk til og telur sig ekki þurfa að vita það.
Eins og Stundin hefur margoft greint frá hefur blaðið ekki náð í Jóhann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Miðað við svör Kristjáns Þórs þá veit ráðuneytið ekki hvort Jóhann hafi verið að ganga erinda einhvers eða einhverra þegar hann hringdi umrætt símtal.
Í svörum ráðuneytisins til Stundarinnar hefur komið fram að Jóhann hafi hringt í Stjórnartíðindi að eigin frumkvæði en miðað við svör Kristjáns Þórs þá getur ráðuneytið ekki vitað hvort þetta er satt þar sem það kláraði ekki athugun sína á málinu. Ráðuneytið getur því bara fullyrt að enginn innan ráðuneytisins hafi sagt Jóhanni að hringja umrætt símtal.
Frétti fyrst af málinu í sumar
Inga Sæland spurði Kristján Þór einnig að því hvenær hann frétti af því að birtingu laganna hefði verið frestað. Hún spurði: „Hvenær varð ráðherra ljós þessi fyrirætlan um frestun á birtingu laganna og hver var ástæðan fyrir henni?“
Svar Kristjáns við þessu var: „Yfirstjórn ráðuneytisins fékk fyrst upplýsingar um málið 7. júlí 2020. Þá þegar hófst athugun á málinu. Ekki er að finna upplýsingar í málaskrá ráðuneytisins um ástæður frestunar á birtingu laganna.“
Ráðuneytið greindi ekki opinberlega frá þessum afskiptum Jóhanns eftir að það komst að þeim nú í sumar og það var ekki fyrr en að fjölmiðlar spurðust fyrir um það að málið varð opinbert. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerir nú eigin athugun á málinu og virðist nefndin ekki vera á sömu skoðun og ráðuneytið að ekki þurfi að upplýsa um hvað Jóhanni gekk til og á hvaða forsendum.
Athugasemdir